28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

151. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það hefur komið fram hjá hv. þm., sem hér hafa talað, að fsp. utan dagskrár hafi tafið þingstörf, og er m.a. vitnað í fsp. utan dagskrár sem var hér til umræðu í gær. Nú vil ég taka undir það með hv. þm. Benedikt Gröndal og undirstrika það, að fsp. utan dagskrár eru bæði eðlilegar og réttlætanlegar undir vissum kringumstæðum og kannske sér í lagi þegar þing hefur ekki verið að störfum í margar vikur. Og þá kem ég að því, sem hér hefur borið á góma h já mönnum, að þeir telja að þinghald sé of stutt. Nú var það vitað mál í des., að nær helmingur þingmanna vildi nýta tíma þingsins og þingmanna betur en niðurstaða varð og koma saman strax á nýbyrjuðu ári til að ræða þau mál, sem fyrir lágu hjá þinginu þá, og að sjálfsögðu önnur sem upp mundu koma á því tímabili sem í hönd fór. En við það var ekki komandi, m.a. af hv. þm. Páli Péturssyni, hann mátti ekki heyra það né hans ráðherrar.

Mér datt það í hug, þegar þessar umræður hófust áðan — og það er leiðinlegt að enginn skuli hafa gert það hér úr ræðustól á Alþingi — að þakka hv. þm. Benedikt Gröndal, 4. þm. Reykv., fyrir þau fræðsluerindi sem hann flutti fyrir landslýð í hljóðvarp á s.l. ári, sem voru fræðandi og upplýsandi. Ég hlustaði á þau og hafði bæði gagn og gaman af. Ég held, að þau ættu vissulega erindi inn í skóla landsins, og tel fulla ástæðu fyrir þingið að beita sér fyrir því til þess að kynna unglingum störf Alþingis í dag. Og undir hans orð vil ég taka. Ég hef verið fylgjandi því á mínu þingsetutímabili að endurskoða þingsköp. Það er sjálfsagt að gera það öðru hverju, skoðanir manna breytast í sífellu með nýjum kynslóðum sem koma hér til setu og starfa á Alþingi. Það er eðlilegt að slík endurskoðun fari fram öðru hverju, og vonandi þarf þessi næsta endurskoðun ekki að taka jafnlangan tíma og var á þeim árum þegar hér voru til umfjöllunar þær breytingar sem síðast voru samþykktar.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram og kom fram hjá flm. frv., að það er engin ástæða til þess að ráðherrar hafi lengri ræðutíma almennt heldur en þingmenn. Ég tala nú ekki um þegar ráðherrarnir eru orðnir tíu. Ef svo heldur áfram með þetta stjórnarmynstur, þá getum við búist við að þeir verði 15 næst og 20 þar á eftir. Svo mun fara ef þessir sömu menn verða við stjórn, t.d. á 110 ára afmæli hæstv. forsrh., að þingmenn sitji í stólunum sem ráðherrar eru í í dag, en ráðherrar í hinum almennu sætum.