28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

151. mál, þingsköp Alþingis

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Halldórs Blöndals, sem hér var að ljúka máli sínu, að það nær náttúrlega ekki nokkurri átt og þm. eiga ekki að geta unað því, að flest meiri háttar viðfangsefni, sem stjórnvöld þurfa með að fara, telji þau nauðsynlegt að bíða með að leysa þangað til að þing situr ekki að störfum.

Dæmigert um þetta er afgreiðsla núv. hæstv. ríkisstj. á kauplækkuninni sem gerð var með brbl. á gamlársdag, eftir að menn höfðu setið hér síðan 10. okt. og varta hafði liðið sú vika að ekki hefði verið óskað eftir því við hæstv. ríkisstj., að hún legði einhverjar till. fyrir hv. Alþingi um aðgerðir í efnahagsmálum. Hæstv. ríkisstj. beið með allar till. þangað til Alþingi var komið heim. Þá greip hún til þess ráðs, um leið og Alþingi var farið, að koma fram með úrræði sín og binda þau með brbl. Meira að segja var svo langt gengið, að eitt atriði í þessum brbl., í 7. gr. laganna, er um heimild handa ríkisstj. til að fresta framkvæmdum. Nú segir svo í stjórnarskrá lýðveldisins, að brbl. megi aðeins gefa út ef brýna nauðsyn beri til, og er átt við að þá þurfi að taka á málum sem ekki er af einhverjum ástæðum hægt að láta bíða þar til þing getur komið saman til eðlilegra starfa.

Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst yfir opinberlega að hæstv. ríkisstj. hafi ekki svo mikið sem rætt hvaða framkvæmdum eigi að fresta, ef til kemur, og hæstv. fjmrh. hefur meira að segja lýst því í útvarpsviðtali, að það geti meir en vel verið að þessi heimild verið ekki notuð. Hvaða nauður rekur þá ríkisstj. til þess að veita sér slíka heimild til framkvæmdafrestunar með brbl. sem aðeins má setja ef brýna nauðsyn ber til? Ríkisstj. hefur sjálf upplýst að hún hafi ekki einu sinni rætt um hvort hún mundi vilja nota slíka heimild og þá hvernig. Samt sem áður telur hún ósköp eðlilegt og sjálfsagt að veita sér slíka heimild með brbl. sem hún veit ekki hvort hún ætlar sér að nota. Og samkvæmt orðanna hljóðan í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er það auðvitað alveg ljóst, að ríkisstj. getur ekki réttlætt það að setja brbl. um heimild til slíkrar framkvæmdafrestunar nema nauðsynlegt hafi verið að fresta einhverjum tilteknum framkvæmdum á þeim tíma sem Alþingi sat ekki að störfum. Slíkt hefur ekki verið gert. Það hefur ekki einu sinni verið rætt. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands heimilar ríkisstj. ekki að gefa út slík brbl., en samt sem áður hefur hæstv. ríkisstj. gert þetta án þess að hafa — a.m.k. í þessum þætti brbl. — nokkur rök. Hún hefur engin rök fyrir þessum þætti brbl., þó hún kunni að hafa einhver rök fyrir öðrum þáttum þeirra.

En það, sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, formanni þingflokks Framsfl., sýnir hvílíkur valdahroki býr með hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar, eins og hv. stjórnarþm. Guðrún Helgadóttir lýsti fyrir almenningi í viðtali í útvarpinu núna um jólaleytið. Hv. þm. tók þar sérstaklega fram hvílíkum valdahroka ráðherrar í hæstv. ríkisstj. væru haldnir, og þessi valdahroki kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, formanni þingflokks Framsfl. hér áðan, þegar hann gaf í ræðustól í þinginu þá yfirlýsingu, að þeim mun styttri tíma sem Alþingi sé látið sitja þeim mun betra. Ég verða að spyrja, herra forseti: Ber að skoða þetta sem stefnuyfirlýsingu frá þingflokki Framsfl., að þeim mun skemur sem Alþingi situr að störfum, þeim mun betra. Þeim mun fyrr sem hv. þm. komist til að sinna hrútum sínum og skepnum, þeim mun betra fyrir þjóðina? Þeim mun minna sem hann aðhefst hér á Alþingi, þeim mun betra? Þeim mun meira sem hæstv. ríkisstj. sniðgengur Alþingi sem löggjafarstofnun þjóðarinnar og stjórnar með brbl., þeim mun betra? (HBI: Hann á eftir að baða fé sitt.) Ber að líta á þetta sem stefnuyfirlýsingu af hálfu þingflokks Framsfl.? Er þetta vilji framsóknarmanna?

Hv. þm. Páll Pétursson hefur getið sér sérstakt orð hér í þinginu fyrir afturhaldssjónarmið í öllum málum. Hann er fulltrúi þeirra íhaldssömustu afla sem hér sitja. Hann er alltaf á móti öllum breytingum, öllum umbótum og öllu því sem til framfara má horfa. Nú vitum við það t.d., að í kjördæmi hans eru samkvæmt opinberum skýrslum einna lægstar meðaltekjur manna í landinu. Samt sem áður stendur hann þver gegn því, þverastur allra manna, að launþegar á Íslandi geti notið góðs af því að nýta hið hvíta gull landsins, orkuna í iðrum jarðar og fallvötnum, til þess að setja á fót iðnað sem gæti skilað betri lífsafkomu.

Nú standa yfir kaupgjaldssamningar við starfsmenn ríkisverksmiðja. Kröfur starfsmanna ríkisverksmiðjanna eru að fá sömu laun og greidd eru í stóriðjuverunum tveimur. Verði þeirri kröfu sinnt mun það þýða um 30% launahækkun til þessa fólks. Þessar stóru verksmiðjur, sem áttu að innleiða láglaunasvæði á Íslandi — eins og þm. og Alþb. sögðu og Páll Pétursson hefði sjálfsagt haldið fram ef hann hefði setið hér á þingi, —þær greiða núna um það bil 30% hærri laun en greidd eru í verksmiðjum ríkisins. Og þessi fulltrúi tekjulægsta kjördæmisins á Íslandi á Alþingi Íslendinga, hann leggst mjög eindregið gegn því að þetta tekjulága fólk í kjördæmi hans geti nokkurn tíma gert sér vonir um að fá svipaða starfsaðstöðu og fólkið býr við sem vinnur í þessum tilteknu iðjuverum og nýtur góðs af þeirri orku sem Ísland á.

Ber þá að líta á þetta sem stefnu þingflokks Framsfl.? Er t.d. hv. þm. Jóhann Einvarðsson sammála þessu — eða hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson — eða hv. þm. Halldór Ásgrímsson? Telja þessir þrír þm. að málflutningur formanns þingflokks þeirra sé flokknum til sóma? Að standa þver, liggja flatur þversum gegn öllum nýjungum, öllum breytingum, og fullyrða síðan hér úr ræðustól að það sé þeim mun betra, því skemur sem Alþingi situr að störfum, þeim mun meira sem hægt er að beita bráðabirgðalagasetningu af 10 ráðherrum. (Gripið fram í.) Ég man eftir því, að árið 1978, þá rétt fyrir jólin lá hv. þm. Páli Péturssyni svo á að skoða í fjárhús sín, að hann þurfti að fara heim nokkru áður en þingi lauk. Fjarvera hans varð m.a. til þess, að mjög mikið áhugamál hans og fleiri flokksbræðra hans, um ríkisábyrgð á sérstöku láni til að borga viðbótarútflutningsbætur til bænda, náði ekki fram að ganga. Hv. þm. lá svo á í fjárhús sín, að hann hafði ekki tíma til að bíða eftir að þingi lyki til þess að geta stutt þetta mál, sem ekki náðist í geng vegna þess að hv. þm. var ekki viðstaddur. Ég hélt satt að segja að hv. þm. lægi svo mikið á í fjárhúsin til að sinna þar skepnum sínum. Hann segir hér í ræðustól að svo sé ekki. Það vita allir þingmenn, að frelsarinn fæddist í fjárhúsi, en af mæli hv. þm. mætti einna helst skilja að það fjárhús hafi verið að Höllustöðum, honum lægi lífið á að komast í fjárhús sín til þess að gá að guði.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, sjálfsagt á hv. þm. ágæta skýringu á því eins og öðru, en ég ætla að biðja hæstv. forseta um að hlífa mér við frammíköllum frá Snorrabúð.