28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

151. mál, þingsköp Alþingis

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Já, það kann að vera rétt, að forsetinn sé ekki nógu strangur að halda mönnum við umræðuefnið, og nú síðast fór það eitthvað úr böndunum. En ég vil að gefnu tilefni taka það fram, að vald forseta er mjög mikið til þess að skera niður umræður, taka mál af dagskrá og setja menn úr ræðustól, ef svo ber undir. En ég bið menn að minnast þess, að málfrelsið er ákaflega mikilvægt og það sé ekki takmarkað um of. Þetta er dýrmætur réttur sem þm. hafa, og menn mega gá að sér að hann verði ekki skertur nema sem minnst.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur kvatt sér hljóðs, en hann hefur þegar talað tvisvar og nú er spurningin hvort hann álítur bera nauðsyn til að bera af sér sakir. (PP: Ég álít það vera nauðsynlegt.) Þá hefur forseti heimild til að gefa honum orðið í þriðja skiptið til að bera af sér sakir. Og tekur hann nú til máls.