28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

151. mál, þingsköp Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða um stóriðjumál við Sighvat Björgvinsson núna, ég er tilbúinn að gera það síðar. Þessi umræða var upphaflega hafin um þingsköp og það er ekki mér að kenna að hún hefur farið svo á dreif sem hún hefur gert.

Hinum ágætu þm. Vestf. vil ég segja það, að hrútarnir mínir sjá um æxlunarverk þarna í fjárhúsunum og þeir þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því.

Hvað varðar horfurnar á 110 ára afmæli forsrh., sem hv. þm. Pétur Sigurðsson var að fílósófera um áðan að þá yrðu ráðherrar komnir hérna við borðin og hinir óbreyttu þingmenn bara í þessi 10 sæti hérna á bak við mig, þá verð ég að segja að stjórnarandstæðingar eru ekki mjög bjartsýnir á fylgisþróun sína á næstunni. Það er kannske lítill vegur að trúa því að forsrh. verði 110 ára. Það eru talsverðar líkur á því að stjórnarsamstarfið endist þangað til. En ég trúi því tæplega að stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. og kratar verði komnir ofan í 10 menn þá. Þeir mega aldeilis halda á spöðunum við að tæta af sér fylgið ef það á að takast.

Hvað varðar setningu brbl., þá er óhjákvæmilegt að ríkisstj. á hverjum tíma hafi rétt til að setja brbl. Ég er ekki að mæla með því að hún sé að nota þann rétt að óþörfu eða í tíma og ótíma. En ég hef horft upp á hv. þm. Geir Hallgrímsson setja brbl., nauðsynleg og gagnleg brbl. Ég hef horft upp á hv. þm. Benedikt Gröndal, þegar hann var forsrh., setja brbl., nauðsynleg og gagnleg og óhjákvæmileg brbl., sum þeirra a.m.k.

Það er útúrsnúningur hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að ég hafi verið að segja hér að því skemur sem Alþingi sæti, því betra. Auðvitað þarf Alþingi eðlilegan starfstíma, en sá starfstími getur keyrt úr hófi, sannarlega keyrt úr hófi. Og það getur verið hægt að ljúka verki á sómasamlegan hátt á þessum tíma ef tíminn er notaður vel.

Mér er það alveg ljóst, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mun ekki vera fæddur í fjárhúsi þó að hann hafi kannske verið lagður í kratajötuna á sínum tíma, en hálfpartinn finnst mér nú stundum eins og hann sé kominn innan úr kú.