28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

103. mál, orlof

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan þetta mál var hér á dagskrá, en í þeim umræðum, sem þá fóru fram, komu fram nokkrar athugasemdir frá nokkrum hv. þm. varðandi þetta mál. Það var þó sér í lagi frá hæstv. félmrh. Ég sé að hann er ekki staddur hér í salnum, en vildi gjarnan að hann yrði hér viðstaddur þessa umræðu vegna þess að í máli hans komu fram nokkur atriði, sem ég tel nauðsynlegt að svara og fá jafnframt svör við frá honum. Sé hann ekki staddur í húsinu vil ég gjarnan mælast til þess við forseta, að umræðu verði frestað þangað til tækifæri gefst til að tala við hæstv. félmrh.