29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

86. mál, iðnaðarstefna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég talaði allítarlega fyrir þessu máli fyrr í umr. og ætla ekki að bæta þar miklu við. En ég sé ástæðu til að þakka þeim hv. þm., sem þegar hafa rætt um málið, fyrir góðar undirtektir á heildina litið við þessa þáltill. um iðnaðarstefnu, þó að fram hafi komið hjá sumum þeirra vissar athugasemdir og raunar verið lagðar fram brtt. frá nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. við þáltill.

Ég tel eðlilegt, að þetta mál ásamt brtt. fari til nefndar til athugunar, og ætla ekki að eyða hér mörgum orðum að þeim ábendingum eða till. sem fram hafa komið. Þó vil ég segja fáein orð um þær till. í nokkrum liðum sem fram hafa komið. Þar er í fyrsta lagi lagt til að auka við kaflann um markmið iðnaðarstefnu tveimur nýjum liðum, og hv. 1. flm., sem talaði fyrir þessu máli, lét þess getið, að það væri í samræmi við stefnumörkun sjálfstæðismanna eða Sjálfstfl., iðnn. hans, að mig minnir, sem þessi atriði væru hér upp tekin, enda bera þau þess glöggt vitni að þau eru þaðan runnin. Þar er um að ræða áherslu á frjálst framtak einstaklinga og samtaka þeirra í sambandi við iðnþróun, að hún verði byggð á slíkri stefnu, og í öðru lagi varðandi orkufrekan iðnað, að uppbyggingu hans verði hraðað í samvinnu við erlenda aðila. Ég get ekki tekið undir það, að slíkum markmiðum verði aukið við í þessa þáltill. Ég vek athygli á því, að hún kveður ekki fast á um rekstrarform, og hefðum við Alþb.-menn, ef við hefðum borið þetta fram sem okkar málefni, eflaust viljað hafa þar á nokkuð annan svip í sambandi við félagslegan rekstur sérstaklega. En til þess að skapa samstöðu um málið og gefa því sem breiðastan svip og halda möguleikum opnum var slíkt ekki tekið inn í markmið eða leiðir með till. sérstaklega, heldur gert ráð fyrir því, að rekstrarform geti verið með misjöfnum hætti, eins og ég reyndar tel eðlilegt að sé í okkar þjóðfélagi, þó að ég sé hlynntur félagslegum rekstrarformum öðrum fremur. Að þessu er vikið í 16. tölul. í leiðum í þáltill. þar sem talað er um að stuðlað verði að rekstrarformum sem miði að auknum réttindum og ábyrgð starfsfólks á vinnustað og á rekstri fyrirtækja.

Um orkufrekan iðnað hefur þegar verið mikið rætt hér í sambandi við annað þingmál og spurninguna um fjármögnun í því sambandi. Þar hefur ríkisstj. sett fram ákveðna stefnu og ég tel að það, sem er lagt til í brtt., falli ekki að þeim viðhorfum, sem samstaða geti tekist um, og er því ekki meðmæltur því að þetta verði tekið inn í till. við framhaldsmeðferð málsins.

Í brtt. hv. þm. Sjálfstfl. eru viðaukatillögur varðandi nokkra liði og orðalagsbreytingar. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þær mörgum orðum. Ég bendi á eitt atriði sem er í 7. lið brtt. varðandi nýbyggingargjald, þar sem segir að jafnframt verði nýbyggingargjald þegar í stað fellt niður. Það hefur þegar verið gert frá síðustu áramótum.

Það er vikið að aðstöðumálum iðnaðarins, eins og er í till. sjálfri, í þó nokkrum liðum í sambandi við leiðir að marki, en flm. brtt. vilja hafa það ítarlegra. Það er auðvitað alltaf matsatriði hversu langt skuti gengið í þeim efnum. En ég vek athygli á því, að nú er unnið á vegum stjórnvalda að ýmsu er varðar aðbúnaðarmál iðnaðarins. Sérstök starfsskilyrðanefnd er starfandi sem er að kanna stöðu atvinnuveganna með tilliti til rekstrarskilyrða af opinberri hálfu, og sú nefnd lítur m.a. á þætti sem hér er að vikið, svo sem um samræmingu í sambandi við skattlagningu á atvinnuvegi og aðgang að lánsfjármagni. Þetta er að sjálfsögðu mikilsvert atriði, að þarna fáist fram eðlilegar leiðréttingar fyrr en seinna, svo að atvinnuvegirnir — og alveg sérstaklega þeir sem í samkeppni eiga — njóti sambærilegrar aðstöðu.

Önnur atriði, sem þarna er að vikið, eru meira um áherslur eða orðalag, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess hér að víkja sérstaklega að því nema þá síðasta liðnum, þar sem sérstök áherðing er á aðstöðu fyrir einkarekstur og samtök einstaklinga í sambandi við iðnþróun. Er það í samræmi við það sjónarmið flm. brtt. að leggja sérstaka áherslu á einkarekstur og kemur vissulega ekkert á óvart sem sjónarmið frá Sjálfstfl. í sambandi við uppbyggingu atvinnulífs.

Í umræðum um þetta var nokkuð vikið að samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar, og einn hv. ræðumaður, hv. 12. þm. Reykv., fjallaði allítarlega um það mál um leið og hann tók mjög jákvætt undir þessa till., eins og raunar aðrir sem um málið fjölluðu. En hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson vakti sérstaka athygli á stuðningsaðgerðum erlendis, í samkeppnislöndum okkar, við iðnað og iðngreinar. Ég tek undir það, að nauðsynlegt er að fylgjast með þeim málum eins og kostur er. Ég vil ekki leggja dóm á einstakar staðhæfingar í þessu efni. Þó hef ég orðið var við það, að í sumum löndum, sem höfðu byggt upp umtalsvert styrkjakerfi til að vernda iðngreinar sem stóðu höllum fæti, hafa menn frekar horfið frá slíkum aðgerðum, enda lenda menn í ógöngum ef stefna skal að því að viðhalda atvinnurekstri sem styrkja þarf með stórum fjárhæðum, sérstaklega ef þar er um að ræða undirstöðuatvinnuveg eins og iðnaður er víða í okkar grannlöndum, og iðnaðurinn eða sá grundvöllur, sem hann veitir, er m.a. notaður hér til að styrkja sjávarútveg, sem er okkar undirstöðuatvinnuvegur enn sem komið er og verður það eflaust um langa framtíð.

Ég varð t.d. var við það nýlega á ferð í Noregi, að Norðmenn hafa dregið verulega í land í sambandi við stuðningsaðgerðir gagnvart sínum iðnaði, a.m.k. eftir því sem stjórnvöld þar fullyrða, og fyrst og fremst stendur eftir stuðningur við skipaiðnaðinn þarlendis sem enn er allnokkur, en stefnt að því að hverfa í áföngum frá honum, enda hafa fyrirtæki í þeirri iðngrein fengið í vaxandi mæli önnur verkefni sem m.a. tengjast uppbyggingu olíuiðnaðarins þar. Þar hafa þau getað hagnýtt sér þróaðan málmiðnað og aðstöðu í skipasmíðaiðnaði til þess að ráðast í verkefni sem honum tengjast.

Ég held að það sé sérstök þörf á því, að við Íslendingar hugum að því í sambandi við iðnþróun hérlendis að byggja á þeirri viðspyrnu sem heimamarkaður getur gefið og þ. á m. frumvinnslugreinar og undirstöðuatvinnuvegir eins og sjávarútvegurinn, að hagnýta þá viðspyrnu, sem þar er að fá, þ. á m. í sambandi við okkar skipaiðnað bæði varðandi viðgerðir og nýsmíði. Þar hefðum við mátt betur að hyggja á liðinni tíð til þess að ná þar þeirri fótfestu sem þessi verulegi markaður hefði getað gefið okkur ef við hefðum borið gæfu til þess að sigla dálítið jafnar í sambandi við uppbyggingu fiskveiðiflotans á liðnum áratugum. En um það er ekki að sakast. Við getum hins vegar dregið af þessu nokkra lærdóma og það varðar m.a. þróun sjávarútvegs okkar og tengingu hans við iðnað.

Ég vil líka taka mjög undir það sem hér hefur verið bent á, bæði í þessari umræðu og oft þegar iðnaðarmál hefur borið á góma, að við reynum eftir föngum að hagnýta okkur opinbera innkaupastefnu, innkaup opinberra aðila til þess að efla iðnþróun og styðja við innlend fyrirtæki, eftir því sem réttlætanlegt getur talist miðað við verð og samkeppnisstöðu þeirra gagnvart innflutningi.

Það hefur verið sagt með réttu, að iðnþróun og uppbygging iðnaðar verði ekki leyst með orðræðum á Alþingi einum saman, og ég tek fyllilega undir það, að aðgerða er þörf í sambandi við okkar iðnaðarmál. Það, sem hér er gert á hv. Alþingi, þarf fyrst og fremst að vera grunnur sem snýr að hinu opinbera, opinberum aðilum, að lagagerð og reglugerðaratriðum varðandi aðstöðu til iðnrekstrar. Síðan þarf framkvæmdavaldið að huga að því sem að því snýr. Þar reynir vissulega á okkar framkvæmdavald og íslenska ríkið í sambandi við meiri háttar verkefni í iðnaði. Alveg burt séð frá því, hvort menn aðhyllast einkarekstur eða önnur rekstrarform, liggur það nokkuð ljóst fyrir, að einkafjármagn er mjög takmarkað hér í landinu og menn þurfa að leggja saman, ef um stór verkefni er að ræða á sviði iðnaðar og iðnþróunar. Ég er hins vegar hlynntur því, að hlúð verði að almennum rekstri og fjölþættum rekstrarformum í sambandi við okkar iðnþróun, ekki síst varðandi hin minni verkefni, og tryggja þurfi að sá jarðvegur, sem iðnaðinum er búinn, veiti eðlilega aðhlynningu, eðlileg skilyrði til vaxtar iðnaðar sem flestir eru sammála um að þurfi að verða til þess að tryggja hér atvinnu og lífskjör í framtíðinni.