29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

86. mál, iðnaðarstefna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fara örfáum orðum um aths. og fsp. sem til mín var beint af hv. ræðumönnum sem hér hafa talað á eftir mér í umr.

Hv. 1. þm. Reykv. beindi að vísu engum sérstökum fsp. til mín, en ég vil aðeins segja það í sambandi við orð hans, sem vörðuðu millifærsluaðgerðir í sambandi við atvinnuvegina, að ég hygg við getum verið sammála um það, að gæta beri varúðar í sambandi við slíkar aðgerðir, þó að þær við vissar kringumstæður geti verið réttlætanlegar til að ná fram tímabundnum markmiðum sem nauðsynleg geta talist, eins og ríkisstj. hefur talið vera nú í þeirri sóknaraðgerð gegn verðbólgu sem hún beitir sér fyrir. En ég er þeirrar skoðunar, að miðað við það að við höldum þeim búskaparháttum, sem innleiddir hafa verið hér um skeið, með opið hagkerfi og samkeppni innan þeirra fríverslunarsamtaka sem við eigum aðild að, þá þurfum við að gæta þess að byggja okkar atvinnurekstur upp þannig að hann sé samkeppnishæfur og þurfi ekki á að halda til langframa styrkjum eða stuðningsaðgerðum af opinberri hálfu, því að það er mjög hætt við því, að menn lendi þá fljótt á villigötum og út í dæmi sem erfitt er að gera upp nema því fylgi í reynd lífskjaraskerðing, horft til lengri tíma. Og þetta er alveg sérstaklega þýðingarmikið í sambandi við þann tiltölulega flókna atvinnurekstur sem iðnaður er og að baki iðnþróun þarf að búa.

Hv. 12. þm. Reykv. vék enn að styrktar- og stuðningsaðgerðum og hvatti til þess, að við fylgdumst með þeim. Ég er honum sammála um nauðsyn þess. En við skulum ekki gera lítið úr þeim miklu erfiðleikum sem eru á því fyrir okkur að grípa þar til mótaðgerða í formi jöfnunartolla, sem eru býsna sértækar aðgerðir og á þeim, sem þeim beitir, hvítir sönnunarbyrði. Til marks um það, hvað það virðist erfitt að beita þessum jöfnunartollum, sem svo eru kallaðir, er að ekkert EFTA-landa mun hafa gripið til þeirra. Hins vegar hefur Efnahagsbandalagið gert það, sérstaklega varðandi innflutning frá löndum þriðja heimsins, sem svo eru kölluð, eða frá þróunarríkjunum. Ég hygg að slík beiting jöfnunartolla orki út af fyrir sig tvímælis eins og styrktaraðgerðir þegar lítið er til samkeppni við iðnvarning frá þróunarríkjunum. Það má segja að það sé ákveðin varnaraðgerð hinna iðnvæddu ríkja gegn þeim, og í því felst í rauninni heldur neikvæð afstaða þegar horft er til möguleika þessara landa til að vera þátttakendur í sókn til bættra lífskjara og ná fótfestu á mörkuðum þróaðra iðnríkja. Það, sem í gangi er í víðu samhengi í heiminum nú, er afar flókið samspil þar sem um sókn nýrra ríkja, fyrrv. nýlendna iðnvæddra ríkja, er að ræða, sem þrengja að aðstæðum hefðbundins atvinnurekstrar í iðnaði þróaðra landa. Við, sem viljum að allir eða sem flestir á jarðarkringlunni geti notið gæða svipað og gerist í okkar heimshluta, hljótum út af fyrir sig fremur að fagna því, að um slíka þróun er að ræða, og ef við ætlum að einangra okkur frá viðskiptum við þessi lönd, þá erum við í rauninni að vinna gegn möguleikum þeirra til lífsbjargar og betri lífskjara.

Út í þá sálma ætla ég ekki að fara hér, þó að áhugavert sé, en vil þó aðeins tengja það því sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. þar sem hann vitnaði til ráðstefnu um iðnþróun sem haldin var í Madrid á s.l. vori, og hann kom raunar að henni í framsöguræðu sinni fyrr í þessari umr. Þar var einmitt til umræðu þetta víða samhengi í sambandi við iðnþróun, litið til heimsins alls og þeirrar nauðsynjar sem það er, að iðnvædd ríki veiti vanþróuðum ríkjum svigrúm til þróunar með iðnaðaruppbyggingu og bregðist ekki á neikvæðan hátt við þeirri þróun sem þar er í gangi. Hv. þm. virtist túlka álit þessarar ráðstefnu í Madrid, sem ég hef kynnt mér, með þeim hætti að það væri einhliða stuðningur við markaðshyggju eða markaðsbúskap, ef ég hef skilið hann rétt. Það má til sanns vegar færa, að ýmislegt í þeirri álitsgerð er stuðningur við markaðsbúskap og það sem honum tengist, en þó eru þar slegnir verulegir varnaglar, að slíkir viðskiptahættir séu engan veginn einhlítir og að ekki beri að fordæma aðgerðir af hálfu stjórnvalda til þess að grípa inn í þróunarsamhengi og stýra með vissum hætti þróuninni, ákveðið skipulag sé þar nauðsynlegt. Á þessari ráðstefnu tókst með vissum hætti nokkur mátamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða, og það var langt frá því að þau frumskógarlögmál, sem ýmsir boðberar óhefts markaðsbúskapar boða, menn eins og Milton Friedman, svo að nefndur sé kannske einn þekktasti boðberi þeirrar stefnu, — þau sjónarmið voru sem sagt alls ekki einhliða ráðandi á þessari ráðstefnu. Ég tel að það sé full ástæða til þess fyrir menn að kynna sér þau álit og sjónarmið, sem þarna komu fram.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að efnahagsvandi verði leystur með einhverjum einhliða töfrabrögðum. Ég er ekki boðberi ríkisrekstrar sem einhvers töfraráðs út úr öllum vanda. Ég tel þvert á móti að það þurfi að hyggja að dreifðum rekstrarformum og hvetja að sem mestu frumkvæði þess fólks, sem vinnur í atvinnurekstri, til að hafa þar áhrif og koma að sínum sjónarmiðum, m.a. til þess að uppbygging atvinnulífsins sé með mennskum hætti og þess sé gætt að varast rekstur sem einna best hefur verið lýst í kvikmynd Chaplins, Nútímanum, þar sem menn eru tengdir við færibandið til þess að ná sem mestum afköstum.

Hv. 10. þm. Reykv. vék að störfum starfsskilyrðanefndar sem varð til í framhaldi af till. sem ég flutti í ríkisstj. í marsmánuði s.l. Sú nefnd komst á laggirnar seinna en ég hafði kosið, en það var til athugunar með hvaða hætti hún skyldi starfa og hvernig hún yrði saman sett. Það varð t.d. að niðurstöðu að rn. tilnefndi menn í nefndina, og ég minnist þess, að að því var fundið að ekki skyldi af hálfu iðnrn. vera tekinn aðili frá samtökum iðnaðarins inn í þá nefnd, en fulltrúi, sem ég tilnefndi í nefndina, var Ingi R. Helgason hrl. En ég get upplýst það, að hann hefur skipulagt samstarf við talsmenn úr röðum samtaka iðnaðarins í sambandi við málsmeðferð þannig að ákveðin tengsl eru þar tryggð. Og í efnahagsáætlun ríkisstj. er, eins og hv. þm. vék að, lögð áhersla á að hraða þeim verkefnum sem iðnaðinn varða og þessari nefnd hefur verið ætlað að sinna, og ég veit að boðum hefur verið komið til hennar þar að lútandi. Formaður þessarar nefndar var tilnefndur af forsrh. og hún starfar á vegum forsrn., svo að ég hef ekki hér í smáatriðum yfirlit yfir störf hennar, en veit að þar hafa verið dregnar saman margháttaðar upplýsingar. Það hafa verið haldnir margir fundir og þessi nefnd er sem sagt að störfum og ég vænti þess, að það líði ekki á löngu þar til nokkuð spretti upp af hennar verkefni, ekki síst að því er varðar aðstöðumál iðnaðarins.

Það var hér minnst á sölugjöld eða aðflutningsgjöld varðandi iðnaðinn. Það hefur eflaust ekki farið fram hjá hv. þm., að stigið var allstórt spor um síðustu áramót þar sem felld voru niður aðflutningsgjöld á mjög mörgum aðföngum samkeppnisiðnaðar okkar sem höfðu borið slík gjöld. Það má eflaust segja með réttu, að ekki hafi verið um endanlegt uppgjör að ræða, enda er það svo, að þessi mál þarfnast stöðugrar athugunar, og það eru mörg markatilfelli sem erfitt er að skera úr með fullnægjandi hætti. Og hér er vissulega um tekjuöflun að ræða gagnvart ríkissjóði, þannig að það er ofur eðlilegt að fjmrn. horfi á hvað það lætur úr aski hans í þessu samhengi. En þarna var sem sagt tekið betur á í þessum efnum en gert hefur verið um langt skeið, og það hefur verið metið að það afnám aðflutningsgjalda, sem fallist var á með sérstakri auglýsingu frá fjmrn. sem tók gildi 2. jan. s.l., svari til tekjumissis ríkissjóðs sem nemi 1500 millj. gamalla kr. eða svo, 15 millj. nýkr. yfir árið, svo að þarna á að vera um allumtalsverðar hagsbætur að ræða. En eftir standa ýmis atriði sem verða til meðferðar, og að því er vikið í efnahagsáætlun ríkisstj. að áfram verði tekið til skoðunar varðandi alla atvinnuvegi það sem segir í 10. lið í viðbótargreinum efnahagsáætlunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Tollheimta af tækjum til atvinnureksturs verði endurskoðuð með það fyrir augum að auka möguleika á framleiðniaukningu í þessum greinum.“

Þarna eru að mínu mati ekki síst þættir sem snerta tölvubúnað og það sem varðar nýtingu á tölvum í sambandi við atvinnureksturinn, — atriði sem geta örvað verulega framleiðni í atvinnuvegunum ef rétt er að staðið. Við þurfum hins vegar í þessu samhengi að hafa auga á fyrirætlunum um framleiðslu á slíkum búnaði hérlendis sem á að vera unnt að koma á í vissum greinum a.m.k. En þessi mál verða, eins og ég greindi frá, til frekari meðferðar á næstunni. Ég geri ráð fyrir að iðnrekendur og þeir, sem í iðnaði starfa, verði seint út af fyrir sig ánægðir með þessi efni, það verði stöðugt knúið á um endurskoðun, enda breytast viðhorfin og mat manna á því frá ári til árs hvað séu samkeppnisgreinar. Ég held að ég hafi nefnt hér fyrr í umr. dæmi um það, að sumir vilja líta svo á að okkar byggingariðnaður sé orðinn samkeppnisgrein vegna þess að flutt séu inn hús til landsins og þess vegna þurfi að létta gjöldum af öllum tækjum og aðföngum í okkar byggingariðnaði. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En þetta er dæmi um jaðartilvik þar sem iðngrein, sem við höfum talið hafa staðarvernd, er farin að bera fram kröfur um að teljast til samkeppnisiðnaðar.

Ég vil aðeins víkja að aðlögunargjaldinu sem nokkuð hefur komið inn í þessa umr. Það var sett á á miðju ári 1979, en féll niður um síðustu áramót. Í lögum um jöfnunargjald er heimild varðandi aðlögunargjaldið, hækkun á jöfnunargjaldi, aðlögunargjaldi eða ígildi þess, eins og það mun vera orðað, og þetta aðlögunargjald var m.a. sett á með tilvísun til þeirra verndaraðgerða sem við vitum að tíðkaðar hafa verið í grannlöndum okkar. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið þeirrar skoðunar, að við hefðum þurft að viðhalda þessu gjaldi enn um skeið á meðan verið væri að ná upp betri stöðu í einstökum greinum og afla um leið tekna til að standa fyrir nauðsynlegum þróunaraðgerðum. Þessi mál eru nú til athugunar á vegum ríkisstj. og ég vil út af fyrir sig ekki fullyrða neitt hvað út úr þeirri athugun kemur. En ég vænti þess, að það verði jákvætt og að við getum haldið slíkum gjaldstofni við til verndar okkar iðnaði enn um sinn, en mín hugmynd var sú, að við stigjum út úr þessu í tveimur áföngum, á þessu ári og hinu næsta.

Hv. 12. þm. Reykv. spurðist sérstaklega fyrir um hvað liði aðgerðum varðandi opinber innkaup á vegum stjórnvalda. Það mál hefur verið til meðferðar um nokkurra ára skeið og ég skil það út af fyrir sig vel, að menn vilji fara að sjá markvissar aðgerðir í þessu samhengi. Það hafa þrjú rn. komið að þessu máli að undanförnu, fjmrn. og viðskrn. fyrir utan iðnrn. Viðskrn. snertir þetta að svo miklu leyti sem það getur varðað samninga okkar, fríverslunarsamningana, og þarf að hafa auga á því að því leyti. Það hefur verið fjallað um þessi mál m.a. í Samstarfsnefnd um iðnþróun og þar er það enn til meðferðar. Þar liggja fyrir tillögur og hugmyndir sem er verið að meta hvernig best verði staðið að skipulegum aðgerðum til þess að beina viðskiptum okkar að innlendum iðnaði að svo miklu leyti sem opinberir aðilar geta haft þar áhrif á.

Eitt atriði, sem er til athugunar í þessu sambandi, er að koma upp eins konar upplýsingaráði iðnaðarins, stofnun eða ráði þar sem væru fulltrúar frá opinberum aðilum og iðnaðinum og hefði það hlutverk að miðla með skipulegum hætti upplýsingum til framleiðsluiðnaðar okkar um verkefni sem í vændum væru, — upplýsingum um það, hvaða markaður væri þarna á ferðinni, og það helst vel fram í tímann, þannig að okkar iðnaður geti með skipulegum hætti búið sig undir að taka þátt í tilboðsgerð og öðru sem varðar möguleika til þess að hagnýta sér þennan heimamarkað. Slíkt ráð hefur verið sett upp nýlega, eða frá 1. ágúst s.l., í Danmörku og ég veit að menn binda þó nokkrar vonir við starfsemi þess þar í landi.

Annað atriði, sem er til athugunar, en menn greinir nokkuð á um hvort réttmætt sé, er spurningin um að lögbjóða einhverjar reglur um þessi efni, t.d. varðandi verðmun eða önnur atriði sem mættu koma til álita í sambandi við viðskiptalegt mat á slíkum innkaupum. Þar geta skapast árekstrar við fríverslunarsjónarmið sem þarf að gefa gætur. Ég held að það verði erfitt að kveða með ákveðnum hætti á um að einhver ein tiltekin prósenta megi t.d. gilda, það þurfi að vera nokkur sveigjanleiki í slíku mati þegar um er að ræða samanburð á verði. En hitt er ótvírætt, að út frá þjóðhagslegum sjónarmiðum getur það fyllilega verið réttlætanlegt, svo að ekki sé meira sagt, að skipta við innlenda aðila og kaupa innlendan varning þó að hann sé þó nokkru dýrari en innflutt vara, þegar allir þættir eru teknir inn í myndina sem varða þjóðhagslega útkomu.

Herra forseti. Það mætti margt segja fleira um þessi efni. Eins og fram hefur komið hefur ríkisstj. vikið að nokkrum atriðum, sem varða iðnaðinn, í sinni efnahagsáætlun. Auk þess sem hér hefur verið minnst á eru það lánamál iðnaðarins og aðgangur iðnaðarins að rekstrarfjármagni. Þau mál hafa verið tekin upp nýlega við Seðlabankann og eru til athugunar milli iðnrn. og Seðlabankans þeir þættir sem að er vikið í seinni hluta 13. gr. yfirlits um efnahagsaðgerðir frá síðustu áramótum, þar sem gert er ráð fyrir að hlutdeild iðnfyrirtækja í rekstrar- og afurðalánum Seðlabankans verði aukin til samræmis við hliðstæð lán til annarra atvinnuvega, og jafnframt verði endurskoðaðar reglur varðandi veðhæfni á aðföngum og framleiðslubirgðum iðnfyrirtækja. Þessi mál skipta iðnfyrirtæki miklu, að sitja þarna við sama borð. Það veldur ýmsum fyrirtækjum verulegum erfiðleikum, m.a. þeim sem eru að glíma við ný verkefni, þegar gerðar eru kröfur um fasteignaveð eða slíkt til þess að fá lán út á birgðahald eða framleiðsluvörur.

till. sem hér hefur verið rædd og er enn til umr., um iðnaðarstefnu, leysir vissulega ekki sem slík vanda okkar iðnaðar, en hún á að vera leiðbeinandi fyrir stjórnvöld um þá þætti sérstaklega sem geta verið á þeirra valdi til þess að greiða fyrir æskilegum og eðlilegum vaxtarskilyrðum iðnaðar í landinu. Og sú vinna, sem þegar hefur verið lögð í þetta mál, og þær umr., sem þróast hafa í kringum þessa tillögugerð, hafa þegar leitt til jákvæðs árangurs að mínu mati. Þær hafa reynst leiðbeinandi í ýmsum skrefum sem stigin hafa verið af stjórnvöldum. Síðan þarf að vinna hnitmiðað að því að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem dregin eru upp og sett eru fram markmið um í þessari tillögugerð. Að því er sumpart þegar unnið, en á öðru þarf að taka sem fyrst.

Ég vænti þess, að þessi till. fái greiða og jákvæða afgreiðslu í hv. n. sem fær hana til meðferðar, atvmn. Sþ., að lokinni þessari umr. og verði síðan vegvísandi eftir að Alþingi væntanlega hefur tekið afstöðu til hennar og samþykkt hana fyrir lok þessa þings.