29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

63. mál, fjarskiptaþjónusta á Gufuskálum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Um tilgang þessarar till. er sjálfsagt ekki nema gott eitt að segja. Hins vegar orkar það tvímælis, hvort framkvæmd málsins skuli vera sú sem gert er ráð fyrir í till. Það, sem auðvitað skiptir meginmáli hér, er að fjarskipti á þessu svæði séu trygg, hvort sem það er gert með mannaðri stöð eða fjarstýrðum tækjum annars staðar frá. Það er engan veginn víst að sú tilhögun, að tækin séu fjarstýrð, hafi minna öryggi í för með sér. Það liggur engan veginn ljóst fyrir.

Hitt finnst mér vera umhugsunarefni, að hv. 4. þm. Vesturl., þm. Alþb., skuli flytja till. um að koma þessari starfrækslu fyrir í lóranstöðinni á Gufuskálum sem Landssími Íslands rekur í umboði bandarísku strandgæslunnar og Atlantshafsbandalagsins að einhverju leyti.