29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

63. mál, fjarskiptaþjónusta á Gufuskálum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæðulaust af hv. alþm. að vera að blanda Norður-Atlantshafsbandalaginu inn í þetta. Við vitum það, að allur íslenski fiskiskipaflotinn notar orðið lórankerfi við staðsetningar og veiðar, og það kemur þessu máli ekkert við.

Ég vil aðeins segja það sem er auðvitað höfuðatriði málsins, að það er óhæfa að á tveimur stórum hafsvæðum við landið, út af Norðurlandi vestra og út af Breiðafirði, sé erfitt og næstum ógerlegt að hafa eðlilegt samband við land, hvorki í þjónustuskyni né öryggis, með þeim tækjum sem algengust eru um borð í fiskiskipaflotanum og heppilegust eru. Ég held að menn eigi ekki að horfa svo mjög í kostnaðinn við að leysa þetta vandamál. Þetta samband má alls ekki bila hvernig sem viðrar og allra síst auðvitað þegar illa viðrar.

Mér er ekki kunnugt um það sem hv. þm. Magnús H. Magnússon kom inn á, hvernig móttökuskilyrði eru á Gufuskálum. Trúlega hefur lóranstöðin truflandi áhrif. En ég vil aðeins vona að hvernig svo sem þetta mál verði leyst, þá verði það tryggt, að sjómenn — og þá ekki aðeins út af Breiðafirði, heldur einnig úti á Húnaflóa — geti haft tryggt og öruggt samband við land með þessum svokölluðu metrabylgjutækjum. Og hvernig svo sem fer með þessa þáltill., þá legg ég áherslu á það, að nú á þessu þingi verði gengið frá því og það tryggt, að þetta samband náist frá þessum hafsvæðum sem nú eru útundan. Annað er ekki sæmandi.