29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

79. mál, gjaldskrár þjónustustofnana

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 85, 79. mál Alþingis, hef ég leyft mér að flytja þáltill. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um, að þjónustustofnunum ríkisins verði gert skylt að senda allar tillögur um efnislegar breytingar á gjaldskrám til umsagnar Neytendasamtakanna og Verslunarráðs Íslands.“

Þessi till. er endurflutt breytt, en á síðasta þingi flutti ég tillögu sama efnis.

Þegar talað er um efnislegar breytingar á gjaldskrám er rétt að skilgreina það nokkru nánar. Hér er ekki átt við hækkanir á gjaldskrám sem verða vegna almennra verðlagshækkana í landinu, heldur fyrst og fremst við það þegar breytingar á reglugerðum eða breytingar á gjaldskrám leiða til þess, að um breytingar á einstökum kostnaðarliðum verður að ræða þannig að hlutfallsbreytingar eigi sér stað innbyrðis á gjaldskránni. Það hefði þess vegna mátt segja að þetta væru formbreytingar á gjaldskrám frekar en efnis, en ég vona samt að efni till. komi nægilega skýrt fram með þessari útskýringu.

Eins og allir vita er ríkið stærsti og öflugasti framleiðandi þjónustu hér á landi og sú þjónusta, sem ríkið selur, er oftast þannig, að ríkið hefur einkarétt á sölunni, og í sumum tilvikum er nánast um að ræða kaupskyldu þeirra sem búa í landinu. Ef við lítum t.d. til hitaveitna, sem að vísu eru ekki ríkisfyrirtæki, heldur sveitarfélaga, má segja að það sé skylda húseigenda, ef ákveðin reglugerð er fyrir hendi, að tengja hús sín við veiturnar. Þegar ríkisvaldið hefur einokunarrétt á framleiðslunni, eins og um er að ræða í þessum tilvikum skortir hið sjálfvirka eftirlitskerfi hins frjálsa samkeppnismarkaðar og í staðinn fáum við kerfi þar sem reynt er að líkja eftir markaðsöflunum. Þetta er gert með því að ákveðnir opinberir aðilar leyfa verðbreytingar á opinberri þjónustu eftir ákveðnum reglum. Oftast er það þannig að Alþingi setur lög, en reglugerðirnar, sem skipta kannske meira máti, eru settar með þeim hætti að stofnanirnar eða þjónustufyrirtækin semja reglugerðirnar og ráðh. gefur síðan út. Um eftirlit neytenda er því varla að ræða og fyrir hefur komið að þjónustufyrirtæki hafa ekki einu sinni farið að lögum þegar um breytingar á gjaldskrám hefur verið að ræða.

Til viðbótar þessu má geta þess, að vísitala framfærslukostnaðar hefur áhrif á svokallaða verðbóta- eða kaupgjaldsvísitölu og þar með snýst öll efnahagsstarfsemi þjóðarinnar í kringum vísitöluna. Þetta hefur valdið því, að í tengslum við kjarasamninga hefur verið sett á laggirnar nefnd, gjaldskrárnefnd, sem er pólitísk trúnaðarnefnd ríkisstj., og henni er ætlað að halda niðri verði á opinberri þjónustu með ákveðnu kerfi. Er því ágætlega lýst í nýlegri grein Kristmundar Halldórssonar deildarstjóra í iðnrn. sem hann ritar í nýútkomin Sveitarstjórnarmál, nr. 6 frá 1980, þar sem hann fjallar um þessi efni og segir frá því m.a. að gjaldskrárnefnd sé skylt, að sögn formanns hennar, að fara eftir stjórnarsáttmála ríkisstj. Þetta stafar af því, eins og ég sagði áðan, að ríkisstj. þarf að halda niðri vísitölu því að vísitalan heldur niðri launum í landinu. Þessi staðreynd um póltíska duttlunga verðlagsákvörðunarvaldsins hefur svo valdið því að verðlag hefur stórbrenglast á þjónustu opinberra stofnana.

Eitt nýjasta og mjög tiltækt dæmi í þessu sambandi er þegar Hitaveita Reykjavíkur sótti um hækkun á þjónustu sinni, fékk talsvert mikla hækkun á svokölluðu heimæðagjaldi, en litla sem enga á heitu vatni. Þannig varð, í stað þess að jöfn hækkun yrði á heimæðagjaldinu og heita vatninu, fimmfaldur munur á því leyfi sem kom frá gjaldskrárnefnd. Ástæðan var einföld: Heita vatnið í Reykjavík er í vísitölunni, heimæðagjaldið ekki. Þetta hefur leitt til þess, að heitt vatn í Reykjavík er með því alódýrasta á landinu, en heimæðagjöld Reykjavíkur með því aldýrasta sem þekkist þrátt fyrir það að ekkert bendi til þess að kostnaður við heimæðarnar sé meiri í Reykjavík, nema síður sé.

Ég er þeirrar skoðunar, og hef reyndar flutt um það tillögur hér á Alþingi ásamt hv. þm. Sigurgeir Sigurðssyni, sem hér sat á Alþingi sem varaþm. fyrir jól, að þjónustufyrirtæki rekin af sveitarfélögunum eigi að hafa frjálsan aðgang að því að hækka eða lækka eftir atvikum verð á þjónustu sinni. Það ættu samt sem áður að gilda sömu reglur um þá þjónustu og ég er að leggja til með þessari till. minni, sem nær aðeins til ríkisfyrirtækjanna, að senda ætti efnislegar breytingar á gjaldskrá til ákveðinna aðila sem helst er að vænta að láti sig varða hag almennings, og þar á ég við Neytendasamtökin, eða hag fyrirtækjanna, og þar á ég við Verslunarráð Íslands. Verslunarráðið er tiltölulega hlutlaus aðili hvað snertir atvinnuvegina. Innan vébanda Verslunarráðsins eru fyrirtæki úr nánast öllum greinum íslensks atvinnulífs. Þannig er lítil hætta á að ráðið hafi áhuga á að mismuna atvinnuvegunum í þessu tilliti. Á sama hátt held ég að enginn pólitískur ágreiningur sé um að starf Neytendasamtakanna sé mikilvægt og kannske mikilvægast á þeim sviðum þar sem almennur neytandi getur ekki látið álit sitt í ljós með því að gera upp á milli vörutegunda eða tegunda á þjónustu í frjálsu markaðskerfi.

Neytendasamtökin hafa á undanförnum árum látið opinbera þjónustu meira til sín taka en áður og unnið þar að mínu viti á margan hátt ágætt starf. Í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. er í kaflanum um verðlagsmál minnst á Neytendasamtökin. Þar segir að ríkisstj. vilji efla samtök neytenda til að þau geti gegnt því mikilvæga verkefni að gera verðlagseftirlit neytendanna sjálfra virkt. Undir þetta vil ég taka og tel, að í þessu felist stuðningur þeirra afla sem standa að baki ríkisstj., og vænti þess vegna stuðnings af hálfu þeirra við tillöguna.

Herra forseti. Ég leyfi mér að fara fram á að þessi þáltill. fari til skoðunar í allshn., en vil láta það fylgja að vænna þætti mér um að ríkisstj. tæki málið upp hjá sjálfri sér án slíkrar till. og gerði á þessum málum þær breytingar sem ég tel vera eðlilegar, en það er að senda tillögur um gjaldskrárbreytingar þessum tveimur aðilum til að fá umsögn áður en endanleg ákvörðun er tekin, hvort sem síðan taka á tillit til þeirra umsagna eða ekki. Þetta hafa Neytendasamtökin reynt. Þau skrifuðu á sínum tíma samgönguráðherra Magnúsi H. Magnússyni um þetta efni, en hann vísaði til reglugerðar og taldi að ráðh. einn ætti að fara með það vald. Það er að sjálfsögðu rétt, en þýðir ekki það, að hann megi ekki taka tillit til þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta.