29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

121. mál, geðheilbrigðismál

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka þær ágætu umr., sem hér hafa orðið um þetta mál, og það innlegg, sem um málið hefur komið frá þeim sem um það hafa rætt.

Ég vil alveg sérstaklega þakka þær ábendingar sem komu fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssyni. Það var mjög þörf ábending sem hann kom með, ef við tökum áhersluatriði inn í þessa tillögugerð á annað borð, varðandi gamla fólkið. Það er atriði sem reyndar var búið að benda mér á, en mér hafði láðst að minnast á.

Það gladdi hug minn í fyrra þegar ég varð þess var, að okkar ágætu dagblöð tóku nokkuð myndarlega á þessu máli og a.m.k. tvö þeirra, Morgunblaðið og Tíminn, munu meira að segja hafa fært þetta inn í leiðara sína að hluta til. Það sýndi að mönnum þótti þetta mál allrar athygli vert og full ástæða til að gefa því gaum.

Vegna þess að hv. síðasti ræðumaður talaði um áhuga og frumkvæði get ég ekki annað en nefnt aftur, — ég held að ég hafi gert það í minni fyrri ræðu, — það mikla frumkvæði sem félagið Geðhjálp hafði í þessum efnum og alveg sérstaklega það, hve fyrrv. formaður þess félags, Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarkennari, gerði mikið í þessum efnum. Hún lagði á sig mikla vinnu til að búa þetta mál sem allra best úr garði, eins og ég held að komi glögglega fram í grg.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. kom einmitt inn á það í ræðu sinni, hverjar orsakir margar væru hér til. Nú vill einmitt svo til, að höfundur þessarar grg., þessi hjúkrunarkennari, er einmitt starfsmaður á þeim vettvangi þar sem margra orsaka er að þessu að leita, þ.e. hjá SÁÁ, og þekkir þess vegna glögglega til ýmissa þeirra vandamála sem einmitt leiða til geðrænna truflana að ýmsu tagi.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, afgreiði það ekki. Nefndin hafði vissa afsökun í fyrra, svo ég taki hennar málstað, að því leyti til að málið kom þá seint fyrir. Að vísu var boðið þá að afgreiða málið í formi fyrstu tveggja málsgr., en þá þótti mönnum sem þeir þyrftu að skoða það betur. Nú gefst tækifæri til þess til vorsins, og vil ég ekki trúa öðru en allir nm. í hv. allshn. muni að því vinna að skila þessari till. í óbreyttu formi, — og ekki síður óska ég þess í endurbættu formi, ef um það væri að ræða, þó að mér sé ljóst að það sé ekki okkur flm. að þakka, heldur frábærri vinnu fyrrv. formanns Geðhjálpar, að till. er þannig úr garði gerð að það væri fyllilega óhætt að samþykkja hana óbreytta. Þó tel ég sjálfsagt að taka inn í hana sérstaka ábendingu hv. þm. Árna Gunnarssonar varðandi gamla fólkið og þá kannske einnig ríkari áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir.