02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli, að hæstv. forsrh. var mjög í nöp við það falska gengi sem hér er stefnt að. Hann talaði um það í miklum hneykslistón að þetta gæti auðvitað alls ekki verið falskt gengi. Ég verð nú að segja það, að ég furða mig á þeim leikaraskap sem felst í þeim málflutningi sem hér var í frammi hafður af hæstv. forsrh.

Ég þarf ekki að vitna í neitt annað en beint í svonefnda efnahagsáætlun ríkisstj. Þar stendur að Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skuli útvega fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs. Ég hafði ekki gert það að neinu sérstöku umtalsefni hvernig hagur fiskvinnslunnar væri einmitt núna. Það, sem ég gerði að umtalsefni, var yfirlýsing ríkisstj., sem greinilega, samkv. þeim mátflutningi sem hæstv. forsrh. hafði hér í frammi áðan, er yfirlýsing um falskt gengi. Hvers vegna er það? Jú, hæstv. forsrh. sagði að þessi röksemdafærsla mín hlyti að vera röng úr því að það væri núna góður hagur hjá fiskvinnslunni, en við það miðaðist gengisskráningin. Hún hefur vitaskuld miðast við afkomu fiskvinnslunnar að mjög miklu leyti. Hér stendur að það skuli tryggja fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs. Það þarf þá ekki frekar vitnanna við um þetta efni. Þetta er furðulegur útúrsnúningur og þarf ekki að svara honum öðru en því sem stendur í efnahagsáætlun ríkisstj. sjálfrar. Forsrh. hefur með orðum sínum samþykkt það, sem ég hélt hér fram, með því einmitt að benda á að það sé afkoma útflutningsgreina eins og í sjávarútvegi sem ráði því, hvort gengið sé rétt eða rangt, og samkv. þeirra eigin orðum á að styrkja það. Sem sagt, þá verður gengið rangt. Það er gengið út frá því að gengið muni verða rangt.

Hæstv. forsrh. talaði líka um það í miklum hneykslunartón, að það kerfi, sem nú væri stefnt að, mætti á engan hátt teljast sambærilegt við millifærslukerfið sem hér hefði verið áður, þá hefði verið lagður skattur á allan gjaldeyri og uppbætur á útflutning, en nú væri einungis um að ræða millifærslur til sjávarútvegsins. Ég skal viðurkenna það. Ég hafði reyndar uppi spurnir um að það væri ekki ljóst hvernig ætti að afla fjár í millifærslurnar. Mismunurinn getur auðvitað legið í því, að það sé ekki aflað fjár í millifærslurnar núna, það sé ekki skattlagning, hér sé um lán að ræða af einhverju tagi. Við því höfum við reyndar ekki fengið svar. Verður þetta gjöf eða verður þetta lán, eða hvaðan koma þessir peningar? Það getur vel verið að það verði þarna mismunur að því leytinu að það verði ekki um skattlagningu að ræða, en ekkert hefur fengist upplýst um það.

En forsrh. bætti því við, að nú væri einungis um að ræða millifærslu til sjávarútvegsins og það gæti ekki verið á neinn hátt hliðstætt við það sem áður hefði verið. Auðvitað er mér ljóst að hér er ekki, a.m.k. ekki á þessu stigi, verið að taka upp nákvæmlega það kerfi sem í gildi var áður, enda hef ég aldrei haldið því fram. En það vill nú svo til að í þessari sömu efnahagsáætlun er talað um að þetta nái ekki einungis til sjávarútvegsins, heldur líka til ýmissa annarra. Það segir í 12. lið á bls. 3:

„Á hliðstæðan hátt verður útvegað fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar. Því fjármagni verði ráðstafað til fyrirtækja á svipaðan hátt og söluskattur er endurgreiddur eða til stuðnings iðnaði umfram það sem þegar er ákveðið svo sem með fjárframlögum til hagræðingarverkefna og eflingar lánasjóða iðnaðarins.“

Það skyldi þó ekki vera að það gæti orðið svolítið mismunandi úthlutun á þessu fé eftir því í hvaða grein menn eru starfandi? Það skyldi þó ekki vera að þarna gæti komið fram ýmiss konar mismunun sem ekki mundi koma fram ef fylgt væri réttri gengisskráningu? Það skyldi þó ekki vera að í þessu fælist í raun og sannleika að menn væru með nokkuð mismunandi gengi þrátt fyrir allt? (Forsrh: Telur hv. þm. að gengið sé rangt skráð nú?) Ég ætla ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um hvort gengið sé rangt skráð núna. Ég hef einungis verið að túlka stefnu ríkisstj.