02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka svörin frá hv. 3. þm Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, og ég skal staðfesta það sem kom fram hjá honum, að ég óskaði þess með mjög stuttum fyrirvara að hann svaraði þessu á fundi núna. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að hreyfa þessu máli þar sem komið er fram, eins og ég sagði áðan, frv, um sama efni í Ed. frá hæstv. fjmrh. og hann lagði þar áherslu á að það mál yrði afgreitt.

Ég fór af ásettu ráði ekki efnislega út í umræður um þetta mál í fyrri ræðu minni hér og ætla ekki að gera það þó að mér fyndist svar hv. þm. gefa nokkurt tilefni til þess. En það er ljóst af svörum hans, að það er ágreiningur uppi um það hér á Alþingi hversu langt á að ganga í þessu máli. Mér heyrðist á máli hans að hann teldi að of skammt væri gengið til móts við skattgreiðendur eins og þessi ákvæði eru nú og þeim þyrfti að breyta, bæði að því er snertir upphæðina og einnig að því er snertir tímann, sem er að sjálfsögðu allt of þröngur eins og lögin eru nú. Ef ekki er um að ræða fasteignaveðskuldir fá menn einungis frádrátt í tvö ár ef um kaup er að ræða, og þá er kaupárið meðtalið, en einungis í fjögur ár ef um byggingu er að ræða og þá er það ár sem bygging hefst meðtalið. Það er því ljóst að verulegur hluti af lánum, sem húsbyggjendur þurfa að taka, fellur utan við þetta og menn fá ekki frádráttarbæra vexti vegna þeirra. En um þetta er ágreinungur og ég held að það sé nauðsynlegt að fá úr honum skorið hér á hv. Alþingi áður en menn fara að huga verulega að sínum framtölum. — Ég verð að vísu að skjóta því hér inn í, að ég fæ ekki skilið hvernig ætlast er til þess að menn skili skattframtölum fyrir 10. febr., eins og látið er boð út ganga, þegar menn eru ekki enn farnir að fá skatteyðublöð í hendurnar, og ég vil gera athugasemd við að sá tími virðist vera of naumur. — En ég ítreka beiðni mína til hv. þm. um að hann beiti sér fyrir því, að þetta mál verði afgreitt úr nefndinni hið allra fyrsta þannig að hægt verði að taka afstöðu til málsins hér í hv. deild.