02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í annars mjög fróðlega ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals um þingsköp. En ég vil benda honum og 6. þm. Reykv. á, að ég er ekki einn í þessari nefnd, sem þeir eru hér að vitna til, og mér finnst út af fyrir sig eðlilegt að þeir snúi sér ekki aðeins til formanns nefndarinnar í umr. utan dagskrár á Alþingi. Sjálfstfl. á þrjá menn í þessari nefnd. Þeir sem styðja ríkisstj., hafa ekki einu sinni meiri hl. í nefndinni. Ég hef aldrei lagst á móti afgreiðslu mála í nefndinni og ég hef átt mjög gott samstarf við alla nm. Það er eðlilegt að menn ræði þetta fyrst og fremst á þeim vettvangi, en séu ekki að jagast um þessi mál í umr. utan dagskrár á Alþingi og tefja fyrir þingstörfum.