02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð, örstutt fsp. og beiðni til hæstv. forseta deildarinnar. Eins og menn vita eru í gildi í landinu lög sem kveða svo á um að hverju fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. skuli fylgja lánsfjáráætlun og lánsfjárheimildalög síðan afgreidd ekki síðar en fjárlög eru afgreidd fyrir jólaleyfi þm. Nú minnast menn þess, að fyrir jólin var ekkert slíkt gert. Hæstv. ríkisstj., þó hún hefði þessa lagaskyldu, kom málinu ekki frá sér, þannig að þegar þm. héldu í jólaleyfi hafði engu frv. um lánsfjárheimildalög verið dreift hér á Alþingi, hvað þá að lánsfjáráætlun hefði verið afgreidd. Við eigum þess því að vænta á næstu dögum að slíkt frv. verði lagt fram. En þá ber svo undarlega við, herra forseti, að hér er dreift á Alþingi frv. til l. um staðfestingu á brbl. frá hæstv. ríkisstj., þar sem ríkisstj. hefur í 7. gr. þegar verið veitt heimild með brbl. til að fresta framkvæmdum samkvæmt lánsfjáráætlun sem er ekki til. Ég verð að segja eins og er, að þó ég sé ekki búinn að sitja lengi hér á Alþingi veit ég þó að það hefur aldrei áður gerst í þingsögunni að með brbl. hafi ríkisstj. verið veitt heimild til að fresta framkvæmdum samkvæmt lánsfjáráætlun sem ekki er til. Sem óbreyttur þingmaður lendi ég óhjákvæmilega í nokkurri beyglu þegar væntanlega verður lagt fram hér á Alþingi frv. frá hæstv. ríkisstj. um lánsfjárheimildalög, hafandi yfir höfði mér brbl. frá þessari sömu ríkisstj. um að henni sé heimilt að fresta hvaða framkvæmd sem hún hafa vill, sem ráðin eru með lánsfjáráætlun sem hefur ekki verið lögð fram, en verður væntanlega lögð fram síðar. Ég vil eindregið mælast til þess við hæstv. forseta að hann teiti eftir einhverjum skýringum hjá hæstv. ríkisstj. um hvernig eigi úr þessari beyglu að komast áður en hæstv. forseti og hæstv. forsetar þessarar deildar eða þá Ed. taka þennan furðulega málatilbúnað á dagskrá Alþingis.

Hvernig er hægt að setja brbl. um heimild til ríkisstj. til frestunar á framkvæmdum sem eru ósamþykktar á Alþingi? Og hvernig er svo hægt að leggja fram og afgreiða frv. til lánsfjárlaga ef fyrir liggja brbl., sem leitað er staðfestingar á hjá Alþingi, þess efnis að hæstv. ríkisstj. sé heimilt að fresta framkvæmdum samkvæmt lánsfjárheimildalögum eða réttara sagt lánfjáráætlun sem ekki er til? Einfaldlega til þess að greiða úr þess konar vandamálum, svo að þm. standi ekki eins og þvörur þegar koma þarna tvö svo gagnstæð mát, vil ég eindregið óska eftir því við hæstv. forseta, — mér þykir sennilegt að hann geti enga skýringu gefið deildinni við þessar aðstæður, — að hann leiti eftir skýringum hjá ríkisstj. og þingvönum mönnum um hvernig með skuli fara.