30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

8. mál, aukning orkufreks iðnaðar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Dag skal að kvöldi lofa. Gjarnan hefði ég viljað að hv. þm. Árni Gunnarsson, vinur minn, hefði geymt sitt kæra þakklæti fyrir undirtektir undir þessa till. þangað til hann hefði hlýtt á mál mitt. Hvað sem er í orð bundið í þessari till., þá er hún sprottin upp úr sígildum, endurteknum, kratískum aumingjaskap gagnvart íslenskum atvinnuvegum.

Það er vitnað til orkufreks iðnaðar, sem við höfum á landi hér núna, um það, með hvaða hætti við eigum að reisa nýjar stoðir undir íslenskt efnahagslíf. Okkur var sagt, og það var forsendan fyrir samþykkt laganna á sínum tíma um samninginn við Union Carbide um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, að hinn fyrri ofn verksmiðjunnar mundi gefa íslensku þjóðinni ágætisarð, ofn nr. 2 enn þá meiri. Á þessum samningi við Union Carbide var síðan reist hin síðari samþykkt hv. Alþ. á samningnum við Elkem-Spigerverket. Ég hef það fyrir satt, að tapið af hinum fyrra ofni hafi numið, ef reiknaður var meðalkapítalkostnaður af hafnargerðinni og hálfri Búrfellsvirkjun, svo sem eðlilegt er, sem þeirri verksmiðju tilheyrir, hátt í 3 milljarða, — tap af ofni nr. 2 þeim mun meira.

Við heyrum sérfræðinga, hagfræðinga og verkfræðinga, koma hvern á fætur öðrum í ræðustól í hinum ýmsu landshlutum og segja okkur frá því, að nú séu þrotnar auðlindir hafsins, við getum ekki búist við því, að íslenskur sjávarútvegur eða fiskiðnaður taki við fleira fólki til starfa á næstu árum, að við tölum ekki um íslenskan landbúnað og þann smáiðnað, úrvinnsluiðnað sem á honum byggir. Þetta er ekki nýtt. Þessi hefur söngurinn verið a.m.k. í 10 ár. Raunar var þessi söngur bakmúsíkin á bak við ákvarðanirnar um að reisa álverksmiðjuna í Straumsvík og selja Alusuisse raforkuna til hennar á því skammarverði sem raun ber vitni: Þjóðlegir bjargræðisvegir Íslendinga gátu ekki tekið við fleira fólki til starfa. — Þó er það nú svo, að síðustu 10 árin hefur atvinna verið næg á Íslandi, þar sem atvinnuleysi hefur vaxið hröðum skrefum meðal stóriðjuþjóðanna. Framleiðni hefur aukist á Íslandi hjá okkar þjóðlegu atvinnuvegum á þessu 10 ára tímabili, þegar framleiðni hefur borið upp á sker meðal þessara þjóða, og hagvöxtur hefur þó aukist á Íslandi þau 10 árin sem hann hefur staðið í stað meðal stóriðjuþjóðanna.

Ekki andmæli ég því, að við hugleiðum það af gaumgæfni og njótum til ráða hinna fróðustu og bestu manna með hvaða hætti við getum komið auðlindum landsins í orku í þess háttar verð sem megi verða þjóðinni til sem mestrar farsældar, auðsældar og bæta gæði landsins. En ugglaus er ég um það, að ef okkur auðnast að verja 750 millj. kr. til uppbyggingar atvinnutækifæris fyrir hvern einstakling sem vinnu þarf að fá í Norðurlandskjördæmi eystra næstu 10 árin, — 750 millj. kr., því kapítali sem stendur á bak við hvert vinnupláss uppi á Grundartanga, —verðum við ekki í miklum vandræðum með að sjá fólkinu þar fyrir atvinnu og prýðilegum launum.

Ég bið menn að gæta sín vandlega, þegar þeir nefna í sömu andránni og víxla orðum þegar rætt er um stóriðju annars vegar og orkufrekan iðnað hins vegar, að hafa merkingu þessara hugtaka allklára. Stóriðja hefur merkt í pólitískri umræðu okkar á liðnum árum þá iðju, þau iðnfyrirtæki sem nota tiltölulega háan hundraðshluta af rekstrarkostnaði sínum til orkukaupa. Í þann mund sem rætt var upprunalega um Grundartangaverksmiðjuna í samvinnu við Union Carbide var notast við skilgreininguna 15% af rekstrarkostnaði til orkukaupa þegar skilgreindur var orkufrekur iðnaður. Þetta kann að breytast nokkuð með hækkandi orkuverði. En það blasir við okkur samkv. orkuspám frá sama tíma og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson nefndi áðan, að með sama framhaldi á orkunýtingu á landi hér, þótt ekki séu reiknuð með ný orkufrek iðnfyrirtæki, mundum við fullnytja það sem hæglega er virkjanlegt af íslensku fallvatni á röskum 40 árum þó ekki komi til orkufrekur iðnaður. Okkur er það býsna vel ljóst, að ef við miðum að því að láta raforkuna okkar veita okkar fólki atvinnu mun það vera nokkurn veginn gegnumgangandi, að hvert virkjanlegt hestafl hefur um það bil þrítugfalt gildi hvað atvinnu snertir ef því er varið til smáiðnaðar eða í léttan iðnað frekar en til orkufreks iðnaðar. Slæmt væri að binda alla raforku okkar frá fallvötnunum í orkufrekan iðnað, sem veitir tiltölulega fáu fólki atvinnu, og sitja síðan uppi með atvinnuleysi sem við gætum bætt með því að verja þessari orku til smáiðnaðar.

Till. mín er nú sú, að við gerum okkur ljósa grein fyrir því, áður en við ráðumst í Blönduvirkjun og áður en við ráðumst í Fljótsdalsvirkjun, til hvers við ætlum að nota rafmagnið, og látum ekki fara svo sem fyrrum fór, að fyrst virkjum við og óskum síðan tilboða í rafmagnið.

Ég minntist áðan á ráð okkar bestu manna, verkfræðinga og hagfræðinga. Á þau skulu menn hlýða. En vel megum við þó minnast þeirra afglapa sem þessa ágætu sérfræðinga okkar hafa hent einmitt í virkjunar- og stóriðnaðarmálunum. Ég vil aðeins rifja það upp fyrir hv. þingheimi, að um það var rætt í fyrra að nú þyrfti að flýta smíði seinni bræðsluofnsins uppi á Grundartanga, því að ella mundi okkur skorta markað fyrir raforkuna okkar. Það var í fyrravor sem þetta skeði. Nú segja þeir hinir sömu sérfræðingar sem færðu okkur þessi rök fyrir nauðsyn þess að flýta smíði síðari bræðsluofnsins uppi á Grundartanga að þennan ofn verði ekki hægt að reka í vetur sökum raforkuskorts.

Það virðist vera eins konar blygðunarmál hins verkfræðilega kynstofns að minnast einu orði á hvernig fór um virkjun Þjórsár, hvernig þeim hefur tekist, hinum vísu mönnum, að virkja fallorku þess vatns sem þeir hafa safnað saman í geymslulónin sin þar efra. Enginn þeirra kemur fram, hvorki í útvarpi né sjónvarpi og enn þá síður á opinberum fundum, og segir frá því undarlega fyrirbæri að vatnið úr lónunum skuli ekki renna eftir Þjórsá eða aðveituskurðunum, heldur neðanjarðar niður fyrir stífluna. Það er ekki heldur á það minnst, sem okkur er þó öllum ljóst vegna þess að það kemur fram í raforkuframleiðslu okkar, að verulegur hluti þess vatns, sem þó verður hamið í Þjórsárfarvegi og aðveituskurðunum, allt að því þriðjungur, fer í það að hleypa ís yfir stíflugarðana. Gegn öllu þessu þrættu verkfræðingarnir á sínum tíma. Gegn öllum aðvörunum um þessi atriði þrættu þeir. Þeir vissu einfaldlega ekki betur, en þeir ætluðust til þess og málpípur þeirra, stóriðjupostularnir, að það yrði tekið skilyrðislaust mark á þeim. Enn er vitnað í þessa sömu menn. Enn eru þeir leiðtogarnir fyrir þeirri hugsun, sem vaknar í hvert einasta skipti sem nokkuð bjátar á í markaðsmálum sjávarútvegsins hjá okkur eða í sölumálum framleiðslufyrirtækjanna, að nú sé eina hjálpræðið að demba sér út í erlenda stóriðju.

Það eru tiltölulega fá ár — eða þrjú og hálft ár — síðan haldin var merkileg ráðstefna um framleiðslumöguleika Íslendinga á eggjahvítuefnaríku fæði úr lífríki sínu. Hún var haldin hér á Hótel Loftleiðum. Einnig þar komu sérfræðingar sem höfðu hugann við annað en sölu á íslensku rafmagni til erlendra stórfyrirtækja. Mér er minnisstætt að þar kom það fram og var rökstutt, að við ættum möguleika á því með því að nýta frjómagn lands og sjávar hér að framleiða eggjahvítuefnaríka fæðu sem nægði til þess að brauðfæða a.m.k. 36 millj. manna árlega, ef við nýttum hana á réttan hátt. Þeir skýjaglópar, sem settu sína pólitísku hugsun í tengsl við þörf umheimsins fyrir mat, einmitt fyrir eggjahvítuefnaríka fæðu, ályktuðu sem svo: Hér er komið verðugt viðfangsefni fyrir þessa þjóð. Ekki mun skorta eftirspurnina eftir matnum sem við getum framleitt hér með því að nýta orku landsins og vinnuafl fólksins til þess að vinna fæðu úr frjómagni lands og sjávar. — Það skal tekið fram, að eftir þessa útreikninga hafa hvorki núverandi vinnuafl né orka verið talin takmarkandi þáttur ef við ættum að framleiða öll þessi kynstur af mat.

Ég man eftir því, að einn af matvælafræðingunum, sem til máls tóku á þessari ráðstefnu, leyfði sér að gera þá aths., að nú hrópuðu um það bil 400 millj. manna víðs vegar á hnettinum á mat, á dánarbeði bæðu menn um mat, en hafði ekki heyrt þess getið, að einn einasti deyjandi maður í öllum þessum hungraða heimi hefði beðið um munnfylli af járnblendi. Gæði þessa lands, sem við byggjum hér, eru með þeim hætti, að ef við miðum störf okkar að því, ef við notum fjármuni okkar til þess og ef við notum orku landsins til þess að bæta um fyrir fólkinu sjálfu, sem í landinu býr, og auka gæði landsins mun framleiðsluvöru okkar, sem okkar duglega fólk framleiðir af landsins gæðum, tekið fagnandi í umheiminum.

Ég ítreka það, að ég tel að við verðum að huga mjög vendilega að virkjunarmálum og því, með hvaða hætti við notum orkuna. Ekki mun standa á mér að samþykkja fjárveitingar í slíku skyni. En ég vil ómögulega að við látum það henda okkur öðru sinni að leggja stórfé í virkjanir til öflunar raforku sem við höfum ekki áttað okkur á til hvers við ætlum að nota.