02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég tel fullkomlega eðlilegt að gerð sé fsp. til hæstv. forseta um þetta efni, því að hér er ljóslega um að ræða misnotkun á bráðabirgðalöggjafarvaldinu, enda skýrði hæstv. fjmrh. frá því í útvarpinu að þetta væri sett í brbl. því að svo gæti farið að einhvern tíma seinni hluta árs mundi þessi heimild vera notuð. Það hefur sem sagt skeð, að forseti íslensku þjóðarinnar er látinn skrifa undir brbl. þar sem brýna nauðsyn ber til að veita ríkisstj. heimild til þess, að hugsanlega megi hún einhvern tíma síðari hluta ársins fresta opinberum framkvæmdum. Þetta er náttúrlega alveg skýlaust lögbrot, stjórnarskrárbrot, sem hæstv. forseti verður auðvitað að athuga nánar því að hér eru ekki aðrar leiðir færar fyrir okkur venjulega þm. En svo kemur hæstv. ráðh. hér í stólinn, þegar þessari fsp. er beint til hæstv. forseta, og afsakar sig með því, að þarna sé átt við m.a. framkvæmdir á vegum ríkisins sem eru í fjárlögum!

Í fjárlögum, sem samþ. voru fyrir jól, segir í 6. gr., sem er heimildagrein, með leyfi forseta: „Fjmrh. er heimilt að lækka ríkisútgjöld á árinu 1981 um allt að 30 millj. kr.“ — Það eru 30 millj. nýkr., sem er það sama og 3 milljarðar gkr. Þessa heimild hefur hæstv. fjmrh., en hann aflar sér heimildar með brbl. með þeim hætti, sem við höfum lýst hér í deildinni, í aðeins einu skyni: að blekkja almenning í landinu, sér í lagi launafótkið sem hann þykist vera talsmaður fyrir, til fylgilags við frv. sem er eingöngu kjaraskerðingarfrv. ríkisstjórnarinnar. Þetta verður hæstv. forseti auðvitað að taka til skoðunar, gera sínar athugasemdir og fara þær leiðir sem hann telur eðlilegast þegar hæstv. ríkisstj. fer þannig með löggjafarvaldið sem á samkvæmt stjórnarskrá að vera hjá þessari deild og hv. Ed. Alþingis.