02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Kirkjuþing 1978 samdi frv. til l. um kirkjubyggingasjóð. Nú hefur kirkjulaganefnd, sem skipuð er af dóms- og kirkjumrh., farið yfir frv. og er frv. það, sem nú er flutt, í þeirri mynd sem nefndin gekk frá því. Segja má að frv. sé í öllum megindráttum sama efnis og hið fyrra frv., að því athuguðu að árlegt framlag til kirkjubyggingasjóðs er hér ákveðið 60 millj. gkr. Frv. þetta er þó nokkuð rækilegra um einstök atriði. Þá fylgir frv. athugun sem Hagstofa Íslands hefur gert á því, hvaða fjárhæðir nú svari til framlaganna sem ákveðin voru til Kirkjubyggingasjóðs með stofnlögunum frá 1954 og með lagabreytingu sem gerð var 1962. — Í kirkjulaganefnd eiga sæti dr. Sigurbjörn Einarsson biskup, formaður, dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari og Baldur Möller ráðuneytisstjóri.

Kirkjubyggingasjóður var stofnaður með lögum nr. 43 frá 1954, en þau lög hafa tvívegis sætt breytingum, sbr. lög nr. 47 frá 1955 og nr. 26 frá 1962. Sjóðurinn hefur gegnt markverðu hlutverki og stuðtað mjög að kirkjubyggingum hér á landi þótt fjárskortur hafi jafnan bagað.

Upphaflega var ráð fyrir því gert, að lán úr kirkjubyggingasjóði gætu numið 1/5 til 2/5 af byggingakostnaði kirkna, sbr. Alþingistíðindi frá 1953, A-deild, bls. 384. En þetta hefur farið mjög á annan veg þar eð framlög ríkissjóðs til sjóðsins hafa tengslum numið að verðgildi miklu lægri fjárhæð en til var stofnað 1954. Hin síðustu ár hafa framlög ríkisins verið þessi samkvæmt fjárlögum, svo dæmi séu nefnd: Árið 1974 8 millj. kr., árið 1977 15 millj. kr. og árið 1979 22.5 millj. kr. Samkv. lögum frá 1954 skyldi lágmarksfjárhæð úr ríkissjóði vera 50 þús. kr., en sú fjárhæð var hækkuð í 1 millj. kr. árið 1962. Þess skal getið að kirkjuþing hefur fyrir sitt leyti fallist á þá mikilvægu breytingu á gildandi lögum að lán skuli greiðast með vöxtum, en hingað til hafa þau verið vaxtalaus, sbr. 1. gr. laga nr. 43 frá 1954. Kemur þessi stefna fram í 1. gr. frv., sbr. og 8. gr. Er þetta gert í trausti þess, að framlög ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs verði hér eftir í samræmi við breytingar á byggingavísitölu miðað við 1. júlí ár hvert.

Lagt er til í frv. að lánstími styttist úr 50 árum í 40 ár að því er varðar lán til kirkjubygginga. Ætti það stuðla að því að efla sjóðinn sem lánasjóð, en endurgreiðslur í sjóðinn hafa í reynd skipt miklu minna máli en ella vegna lækkaðs verðgildis peninga.

Það má nefna að sums staðar í löndum, þar sem þjóðkirkja er, stendur hið opinbera algerlega straum af byggingarkostnaði kirkna.

Vert er að geta þess sérstaklega, að almenningur hér á landi hefur lagt mikið af mörkum til kirkjubygginga og sýnir það ótvírætt góðan hug almennings til kirkjunnar. Þetta mikilvæga liðsinni ber ríkisvaldinu að virða og leggja af sinni hálfu úr ríkissjóði fram veigamikinn skerf til kirkjubygginga. Vissulega gæti komið til greina að framlög væru í formi styrkja, sbr. t.d. lög um félagsheimili. Með þessu frv. er þó eigi brotið upp á slíkri stefnubreytingu, heldur horfir frv. fyrst og fremst að því að kveða á um að tágmarksframlög ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs, er lánar féð, skuli vera að verðgildi svipuð og verða átti samkv. lögum frá 1954 og 1962 og að svo verði einnig til frambúðar. Er þess að vænta að slíkt verði auðsótt.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. þessu verði að 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.