02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og þær breytingar sem frv. felur í sér varðandi stuðning við kirkjubyggingasjóð.

Ég vil í þessu sambandi taka sérstaklega undir orð hæstv. ráðh. þess efnis, að ríkisvaldinu beri raunverulega að veita söfnuðum meiri fjárstuðning en nú er til kirkjusmíði, eins og það heitir nú á íslensku. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið eigi hverju sinni að reyna að virkja þann mikla starfskraft sem felst í söfnuðum, t.d. í nýjum borgarhverfum þar sem kirkja gegnir mjög veigamiklu hlutverki sem félagsmiðstöð og veitir ekki af. Mín skoðun hefur ævinlega verið sú, að ríkisvaldinu bæri á hverjum tíma skylda til að styrkja og styðja kirkjusmíð miklu öflugar en nú er gert og hef í því sambandi látið mér detta í hug að sá háttur mætti verða á því máli að ríkisvaldið lánaði allt að 80% af kostnaðarverði kirkna við nýsmíði, en síðan yrði hluti safnaðargjalda látinn renna sem greiðslur til ríkissjóðs upp í þau lán sem hann kynni að lána nýjum söfnuðum.

Það er svo önnur saga, ef ríkisvald hækkar framlög til kirkjubygginga, hvort ríkisvaldið ætti ekki að hafa einhver tök á því að reyna að draga úr þeirri ríku tilhneigingu sem verið hefur hjá söfnuðum, a.m.k. hér í Reykjavík, að reisa steinsteypuhallir sem kosta allt of mikla fjármuni. Ég er þeirrar skoðunar, að hér hafi verið farið langt út fyrir öll eðlileg mörk og einfaldar, ódýrar kirkjur nái fullkomlega þeim tilgangi sem hin miklu bákn, sem reist eru víða t.d. um Reykjavík, þjóna nú. En eins og venjulega þegar rætt er um kirkjumál hér á þingi og málefni kirkjunnar verða undirtektir ekki ýkjamiklar, enda menn sparir á að fjalla um málefni hinnar íslensku þjóðkirkju á Alþingi Íslendinga, af hvaða ástæðum sem það er nú.

Ég vildi bara vegna orða hæstv. ráðh. vekja athygli hans á þeirri hugmynd, hvort hann gæti ekki tekið upp á sína arma einhverja þá breytingu sem gerði nýjum söfnuðum auðveldara en nú er að reisa eða smíða kirkju í nýjum hverfum. Þetta hefur verið mikill baggi á fámennum söfnuðum og hefur reynst mjög erfitt fyrir þá fjárhagslega að standa straum af kostnaði við kirkjusmíð hverju sinni. Ég vil eindregið mælast til þess, að ríkisvaldið sýni þau hyggindi að nýta þann mikla starfskraft, sem venjulega býr í þessum sóknum, sem standa að kirkjusmíðum og stuðla mjög að allri félagsstarfsemi í nýjum hverfum, þar sem borgaryfirvöld hafa ekki undan að reisa dagvistarheimili og aðrar stofnanir, en kirkjan getur gegnt stóru hlutverki.