02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir þau vinsamlegu orð sem hann lét hér falla um þetta frv.

Ég gat þess sérstaklega, að almenningur hér á landi hefði oft axlað þungar byrðar í sambandi við kirkjusmíð á undanförnum árum. Það er ástæða til þess að sá áhugi fái sem best notið sín. En að því er varðar hóflega stærð á kirkjum, sem hv. síðasti ræðumaður vék að, er ég honum sammála um það efni og bendi m.a. á ákvæði í 4. gr. frv., þar sem tekið er sérstaklega fram að teikningar og kostnaðaráætlanir skuli lagðar fyrir þriggja manna nefnd sem í eiga sæti biskup Íslands, húsameistari ríkisins og þriðji maður sem kirkjumálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Þess er að vænta að umrædd nefnd geti haft nokkra hönd í bagga með stærð þessara bygginga.

Að öðru leyti endurtek ég þakkir mínar til hv. ræðumanns og vænti þess, að nefnd sú sem fær frv. til meðferðar taki og hugmyndir þær, sem hann reifaði, til athugunar.