03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

371. mál, Reykjanesbraut

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. beindi ég til Vegagerðarinnar og hef fengið þær upplýsingar, sem ég skal nú lesa, með leyfi forseta, og eru það svör við báðum liðum þessarar fsp.:

„Reykjanesbraut hefur að mestu slitlag úr steinsteypu og var þetta slitlag steypt á árunum 1962 – 1965. Ekki hefur verið um viðhald á slitlaginu að ræða fram að þessu. Með tímanum myndast hjólför í þetta slitlag eins og önnur. Þegar hjólför hafa náð ákveðinni dýpt halda þau í sér vatni. Veldur það minnkandi viðnámi milli hjólbarða og vegar og aukinni ísingarhættu. Þetta hvort tveggja eykur mjög á slysahættu. Fylgst hefur verið með hjólfaramyndun á Reykjanesbraut í nokkur ár og á s.l. ári voru gerðar allítarlegar mælingar á yfirborði vegarins til að fá yfirlit um ástand hans. Niðurstöður þeirra mælinga sýndu að dýpt hjólfara er víða orðin hættulega mikil og má ekki dragast að hefjast handa um úrbætur á veginum.

Það eru einkum tvær leiðir sem koma til álita varðandi úrbætur: Annars vegar má leggja asfaltslitlag ofan á steypu- eða veghelluna, og má segja að þetta sé algengasta aðferðin. Hins vegar má fræsa yfirborð steypuhellunnar niður fyrir hjólförin, þannig að yfirborð steypu verði slétt á ný. Hefur þessi aðferð rutt sér til rúms hin síðari ár, enda fylgja henni ýmsir kostir umfram hina fyrri, svo sem lengri ending á yfirborði, minni röskun á öxlum og fleira.

Við lauslegan kostnaðarsamanburð þessara tveggja aðferða, sem gerður var á s.l. ári, virðast þær mjög svipaðar. Hefur því verið unnið að öflun nánari upplýsinga, skoðun tækjabúnaðar o.fl. sem snertir fræsingu. Er þess að vænta að endanlegar niðurstöður um aðferð við úrbætur liggi fyrir síðar í vetur.

Að því er varðar framkvæmdir er ráðgert að hefjast handa á þessu ári, en rétt er að benda á að kostnaður við úrbætur er lauslega áætlaður 17 millj. nýkr. á áætluðu verðlagi 1981. Þessi tala er svo há, miðað við fjármagn það sem ætlað er til viðhalds á vegáætlun, að gera má ráð fyrir að það taki 2–3 ár að ljúka verkinu.“