03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. sjútvrh. fsp. varðandi togarakaupin til Þórshafnar, hvernig þau mál standa, hvernig séð hafi verið fyrir fjármögnun til kaupa á þessum togara.

Þetta mál hefur borið á góma í fjölmiðlum fyrir skemmstu og því er ekki að neita, að við þykjumst sumir af þm. Norðurl. e. hafa verið nokkuð sniðgengnir í sambandi við upplýsingar um málið.

Nú vil ég ítreka það, að ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að þeir Þórshafnarbúar eigi rétt á því að fá togara til hráefnisöflunar í frystihúsið sitt og að hið opinbera standi raunar í óbættri skuld við þá Þórshafnarbúa fyrir það, hvernig að því var staðið á sínum tíma er þeir höfðu nýlega reist fullkomið frystihús, að þeim var fenginn lélegur togari með allmiklum kostnaði og áttu ekki annarra kosta völ um skip til þeirra fanga. Enn er ég þeirrar skoðunar að Þórshafnarbúar eigi að fá togara.

Eins og ég sagði áðan þykist ég a.m.k. hafa verið sniðgenginn og hef heyrt það ofan í aðra þm. úr Norðurl. e. að þeim þyki líka að þeir hafi verið sniðgengnir nokkuð með upplýsingar um það, með hvaða hætti var staðið að útvegun þessa skips. Ég skrifaði ásamt öðrum þm. Norðurl. e. undir bréf til ríkisstj. á þá lund, að þeim verði gert kleift að kaupa togara. Vil ég taka það fram, að þar var átt við og vakti í huga okkar þm. þá — a.m.k. flestra — miklu ódýrara skip en það sem keypt hefur verið. En ég óska þess sem sagt að hæstv. ráðh. upplýsi okkur nú um það, á hvaða rekspöl þetta mál er komið og með hvaða hætti kaup þessa skips verða fjármögnuð.