03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ímyndað mér að svo væri ekki komið í ræðutíma um þetta mál að aths. þyrfti að vera ákaflega stutt. Löng þarf hún aftur á móti ekki að verða eða ekki mjög löng.

Ef hæstv. sjútvrh. hefur ráðið það af orðum mínum að ég vildi hlaupast á brott frá uppáskrift minni á það, að þeir Þórshafnarbúar fengju togara, hef ég ekki kveðið nógu skýrt að orði í hinu fyrra spjalli mínu. Ég tók það skýrt fram, að ég er enn þeirrar skoðunar að þeir eigi að fá togara.

Sambandi okkar þm. við útgerðaraðila í kjördæmi okkar er e.t.v. ábótavant samanborið við það samband sem hæstv. sjútvrh. hefur við út erfðaraðila á Vestfjörðum. Um það skal ég ekki segja. Ég hélt því ekki fram, að þarna hefði átt sér stað sambandsleysi á milli útgerðaraðilanna á Þórshöfn og Raufarhöfn við alla þm. kjördæmisins. Mér er kunnugt um að 2. þm. kjördæmisins, hv. þm. Stefán Valgeirsson, fylgdist mjög vel með þessu máli, fékk að fylgjast með því. Við hann var haft samband, en ekki við mig.

Ég gaf hreint ekki í skyn í ræðu minni áðan að ég vildi banna Þórshafnarbúum að kaupa það skip sem hér um ræðir. Ég þó hins vegar hendur mínar af öllu því sem lýtur að sérstökum kaupum á þessu skipi eða samningum sem gerðir hafa verið upp á að breyta skipinu þannig að það hefur margfaldast í verði frá því sem um var talað upprunalega þegar fjallað var um kaup á togara til hráefnisöflunar fyrir frystihúsið á Þórshöfn. — Þetta vil ég að sé lýðum ljóst.