30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

16. mál, rafknúin samgöngutæki

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er til umr., fjallar um rafknúin samgöngutæki. Þar sem Þórarinn Sigurjónsson alþm. flytur hér á þinginu þáltill. sérstaklega varðandi athugun á hagkvæmni járnbrautarlagningar austur yfir fjall og til Keflavíkur um Suðurnesin ásamt mér og hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni, þá mun ég ekki gera þau mál að umræðuefni hér. En mig langar til að fara örfáum orðum um það sem minnst er á í þessari till. varðandi notkun rafbíla.

Ég verð að segja að mér þykir heldur þungur og tómlegur tónn hjá frummælanda í garð Gísla Jónssonar prófessors, sem hefur verið mikill áhugamaður um að hér yrði hafin notkun rafbíla og hefur barist mjög ötullega fyrir þeirri þróun. Honum tókst eftir nokkuð langan slag að fá niðurfellingu tolla og annarra aðflutningsgjalda af einum bíl, sem fluttur var inn og er nú í eigu Háskólans. Gísli, sem er prófessor í raforkuverkfræði við Háskólann, stundar nú athuganir og rannsóknir með þessum bíl. Heldur fannst mér flm. farast orð í þá átt, að þarna gæti ekki verið um viðamiklar rannsóknir eða athuganir að ræða. Ekki skal ég leggja neinn dóm á það í sjálfu sér. Ég vil þó aðeins segja það, að fyrir nokkrum mánuðum ferðaðist ég um Bandaríkin og átti þá viðræður við nokkra framleiðendur rafmagnsbíla þar. Allir bentu þeir mér sérstaklega á að nauðsynlegt væri, ef Íslendingar hyggðu á notkun rafbíla hér á landi, að fá hingað t.a.m. einn til tvo bíla og gera sérstaka athugun á akstri þeirra hér með tilliti til okkar kalda veðurfars og hvernig slíkur bíll gæti reynst í snjó og krapi og við okkar íslensku aðstæður. Á þetta lögðu þeir feiknarmikla áherslu. Ég gæti vel ímyndað mér að einmitt þær niðurstöður, sem koma frá Gísla Jónssyni, prófessor, þegar hann hefur lokið athugunum sínum, geti orðið að miklu gagni í þessu samhengi.

Ég er einn af þeim sem hafa verið þeirrar skoðunar, að við ættum eftir megni að reyna að örva það, að hingað væru keyptir rafknúnir bílar og reynt að nota þá hérlendis. Ég held að íslenska ríkið ætti að skoða hvaða fyrirtæki það eru í opinberri eign sem sérstaklega gætu notað rafmagnsbíla, t.a.m. Póstur og sími og aðrir slíkir aðilar, því að þessir bílar henta vafalaust mjög vel í innanbæjarakstri þar sem stöðugt er verið að taka bílinn af stað og stöðva hann aftur. Það er enginn vafi á því, að með notkun slíkrar bifreiðar gætum við sparað verulega mikið af innfluttu eldsneyti. Þeir geymar, sem nú eru notaðir og eru mestmegnis enn þá blýgeymar, benda til að þeim bílum, sem notaðir eru nú, sé unnt að aka á einni hleðslu allt að og jafnvel yfir 100 km. Ef kannað væri hvernig notkun bifreiða í Reykjavik væri samsett kæmi mér ekki á óvart að 80–90% af þeim bílum, sem ekið er í Reykjavík, sé ekið innan við 100 km á sólarhring, sem mundi þýða að rafbíll á venjulegri hleðslu gæti annað slíkum akstri.

Enn er vert að vekja athygli á því, að slíkir bílar yrðu að mestu hlaðnir á nóttunni. Þeir eru hlaðnir á nóttunni, þeir eru settir í samband við rafdreifikerfi rafmagnsveitunnar og styrking á dreifikerfinu þyrfti ekki að koma til þó að verulegur fjöldi rafbíla yrði hér í notkun.

Ég held að íslensk yfirvöld þurfi að athuga alveg sérstaklega með hverjum hætti þau geta örvað notkun rafbíla hér á landi. Ég held að það sé feiknarlega mikilvægt fyrir okkur. Í því sambandi þurfa menn að gæta að því, meðan þessir bílar eru dýrir í framleiðslu, hvort ekki er ástæða til að setja sérstök bráðabirgðaákvæði um lækkun aðflutningsgjalda af rafbílum og jafnvel lækkun þungaskatts. Jafnframt verða menn að gera sér einhverja grein fyrir því, á hvaða verði menn vilja selja rafmagn til hleðslu geymanna fyrir slíka bíla, t.d. næturrafmagn. Þarna er um að ræða þrjú atriði, sem ég nefni, sem yfirvöld verða að gera upp við sig, áður en hinn almenni borgari getur farið að reyna að nýta rafmagnsbíla í einhverjum mæli hér á landi. En vissulega er það mjög mikið atriði og væri brýn nauðsyn að hið opinbera keypti einmitt nokkra tilraunabíla til þeirra stofnana þar sem þeir gætu sérstaklega hentað, og nefni ég þá aftur Póst og síma.

Um notkun rafmagns í samgöngumálum okkar almennt vil ég aðeins segja þetta: Það er ekki bara um það að ræða að með því getum við sparað mikinn erlendan gjaldeyri, sem okkur er feiknarlega mikilvægt við stöðugt hækkandi olíuverð, heldur mundum við líka stórauka öryggi allra samgangna okkar í framtíðinni, því að allir geta gert upp hug sinn um það, hvernig við stöndum með samgöngutæki okkar ef til ófriðar kæmi og lokaðist fyrir olíuinnflutning til landsins eða sérstakur olíuskortur kæmi upp, sem sumir telja að kannske sé ekki mjög langt í. Hér er því áreiðanlega hreyft mjög brýnu máli.