03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla að svara örfáum orðum hv. 2. þm. Reykn. varðandi það sem hann sagði um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Forsaga þess máls er sú, að á árunum 1972–1973 voru gerðar þær aðgerðir sem gerðu ókleift að byggja upp frystideild Verðjöfnunarsjóðsins, en hefði verið ákaflega auðvelt ef við hefðum tekið sæmileg ár. Hv. þm. verður að hafa í huga að á árinu 1974 varð alvarlegt verðfall og allt árið 1971. Það varð því að grípa til þeirra ráðstafana, sem gerðar voru, ellegar stöðva algerlega flotann og láta atvinnuleysi sigla í kjölfarið. Hins vegar var góðæri 1978 og 1979 og þá var það sjútvrh., í mesta góðæri og bestu stöðu loðnuveiða og loðnuvinnslu, sem greiddi úr sjóðnum á ofboðslega háu verði og sló öll met bæði fyrr og síðar og ætti þess vegna að komast í metabók Guinness. (Gripið fram í.) Já, það var búið að byggja upp loðnudeildina heldur betur frá því að vera ekki neitt. Ég ætla bara að segja þessi orð til að hressa upp að minni hv. þm.

Það kemur heldur ónotalega þegar hæstv. sjútvrh. ber mér það á brýn, að ég sé með tali mínu um þessi mál að reka fleyg í þetta viðkvæma mál. Er þetta eitthvert einkamál sjútvrh.? Hann ætti þó a.m.k. að vera hér á landi þegar hann fjallar um þetta einkamál, en ekki á skíðum suður í Evrópu. Ég ætla ekki að sitja undir svona glósum. Ég held að ráðh. lofti ekki þessum glósum eftir því sem hann hefur haldið á þessu máli. Svo er hann að bera fyrir sig að sjómenn biðji sig að sjá um að það verði ekkert fiskverð ákveðið, og hann segir að ríkissáttasemjari sé að biðja um þetta líka. Þetta eru ljótu karlarnir, hvernig þeir haga sér við sjútvrh., að biðja hann um að hafa ekkert fiskverð í nokkra mánuði svo að þeir geti haldið áfram að rífast um kaup og kjör og skella hurðum!

Hann minntist á Morgunblaðið. Ég sé að þar er viðtal við formann Sjómannasambands Íslands sem telur að ef 7% hagnaður sé á greinum fiskvinnslunnar skapi það skilyrði til 15% fiskverðshækkunar. Þó að fiskurinn sé stærsti hlutinn í rekstri frystihúsa fylgir annað. Það er von á uppbótum á laun starfsmanna 1. mars. Það verður ekki allt klipið af samkv. brbl., það verður einhver ögn eftir, nema annað sé ætlunin.

Það er ýmislegt annað sem ríkisstj. er að matreiða fyrir atvinnureksturinn. Ég held að það hafi orðið veruleg hækkun á orkuverðinu um áramótin, og áhrif gengissigsins til áramóta eru ekki öll komin fram. Því er fleira sem fiskvinnslan þarf að borga en fiskurinn.

Ég hélt að sjútvrh. landsins þyrfti ekki að leggja fram þá fsp., hvort menn héldu að ef það væri 7% hagnaður samkv. framreikningi Þjóðhagsstofnunar gæfi það tilefni til þess að fiskvinnslan ein gæti staðið undir 15% fiskverðshækkun. Mér finnst þetta svo fáránleg spurning að ég skil ekki mann í þessari stöðu að láta hana frá sér fara. Þetta er auðvitað tóm vitleysa sem fær engan veginn staðist, eins og hann sjálfur veit.

Í svörum hæstv. sjútvrh. kemur ekki fram það sem um var verið að spyrja. Það er verið að spyrja um hvort eigi að hreyfa við deildum Verðjöfnunarsjóðsins. Það kom ekkert svar. Ég verð þá að taka það á þann veg að ekki sé ætlað að færa neitt á milli deilda, að deildir Verðjöfnunarsjóðsins haldi sjálfstæði sínu og þær gera nú lögum samkvæmt. En það þýðir vitaskuld að af þessum hagnaði verður tekin bæði í skreiðardeild og saltfiskdeild meiri inngreiðsla en útgreiðsla. Staða þessara deilda er því sterkari og þær betur undirbúnar að taka við áfötlum sem síðar kunna að verða. Hitt er aftur rétt, að frystideildin stendur illa.

Hann minntist á ákvörðun ríkisstj. frá árinu 1976, þar sem ríkisstj. lofar að ábyrgjast það viðmiðunarverð sem stjórn Verðjöfnunarsjóðsins ákvað, og nú eigi sem sagt að fara svipaða leið. Ég tel að það, sem gert var 1976 og í einu öðru tilfelli, hafi verið gert vegna þess að sjáanlegt var að fram undan var verðhækkun, einkum á Bandaríkjamarkaði, sérstaklega í þetta skipti, sem var þá að koma í ljós að mundi verða innan tíðar. Sú áhætta var því tekin þá sem fólst í ákvörðun ríkisstj. Eins réðu ríkisstj. og Seðlabankinn því, að gengissig yrði framkvæmt, og það varð þó að það væri ekki með neitt svipuðum hraða og varð á árinu 1980. Þetta gerði það að verkum að til ábyrgðar ríkissjóðs þurfti ekki að koma. Ef sjútvrh. hefði sagt yfirnefnd Verðlagsráðsins strax um ármót að ríkisstj. ætlaði að ábyrgjast nýtt viðmiðunarverð, sem gerði fiskkaupendum kleift að geta fallist á þetta og þetta mikla hækkun fiskverðs, væri auðvitað komið fiskverð og það fyrir löngu. En hann kemur hér upp og segir: Ég er alsaklaus og það hefur ekkert komið til okkar kasta, því að yfirnefnd Verðlagsráðsins á að ákveða þetta. — Þvílík hræsni! Og að þetta skuli gerast eftir þær yfirlýsingar sem komu fram í áramótaræðunni — áramótaskaupinu — þar sem yfirlýsingar eru gefnar um að tryggja skuli Verðjöfnunarsjóði fé til að stuðla að eðlilegri afkomu fiskvinnslunnar!

Aðilar að þessu máli byggja á að þær yfirlýsingar fái staðist. Svo kemur sjútvrh. nú 3. febr. og segir: Við þurfum ekkert að gera, það liggur ekki á neinu fiskverði því að sjómennirnir og ríkissáttasemjari vilja ekki fá fiskverð. — Hann reynir að sleppa við að svara öllu. Það er engu svarað í sambandi við öll loforð í þessari efnahagsmálaáætlun sem snerta sjávarútveginn. Ég gerði ekki annað að umræðuefni.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vil segja hæstv. sjútvrh. að mér finnst hart að þegar alþm. ræða mikilvæg mál, sem skipta höfuðmáli fyrir gang efnahagsmála og þjóðfélagsins, skuli þeir fá það yfir sig að þeir séu að reka einhvern fleyg í viðkvæm mál. Ég bið hann að endurtaka þau orð, segja með hvaða hætti ég hafi rekið fleyg til þess að hindra samkomulag í þessum mikilvægu málum. — [Fundarhlé.]