03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

89. mál, áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu og athyglisverðu máli. Við stöndum á þröskuldi nýrrar byltingar í raun og sannleika. Með tæknibyltingu á fyrri hluta þessarar aldar og fram eftir þessari öld leysti vélin erfiði mannshandarinnar af hólmi. Nú stöndum við frammi fyrir tölvubyltingu sem mun verða að ýmsu leyti hliðstæð við þá tæknibyltingu sem við lifðum á fyrri hluta þessarar aldar, — tölvubyltingu þar sem sjálfvirknin heldur innreið sína og „rútínuverk“ munu hverfa, þau verða leyst af hendi af sjálfvirkum, tölvustýrðum tækjum. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa manndóm til að nýta okkur þetta tækifæri vegna þess að í því geta falist miklar framfarir, í því getur falist betra mannlíf, ef rétt er að farið, í því geta falist batnandi lífskjör, ef rétt er að farið. En þá er líka mikils virði að menn nálgist þessa nýju öld með réttum hætti, ekki af ótta, heldur ákveðnir í því að nýta sér þá möguleika sem þarna finnast til betra mannlífs og til framfara.

Á þessum tíma, þeirri öld sem í hönd fer, munu störfin ekki síst verða tvenns konar: annars vegar að hanna búnað og hugverk með tilliti til þessarar nýju tækni og hins vegar að vinna með þessum sjálfvirku tölvustýrðu vélum. Margir munu sjálfsagt óttast að atvinna þeirra sé í húfi eða geti verið í veði við þessar aðstæður. Þess vegna þarf vitaskuld endurmenntun margra til nýrra verka.

Þess vegna þarf líka að sníða skólakerfið að þeim þörfum sem þessi nýja öld mun búa okkur. Ég skil þá þáltill., sem hér er flutt, þannig að að þessum verkum skuli vinna.

En það er ekki nóg að skólakerfið sé sniðið að þessum þörfum. Það er ekki síður mikilvægt að starfandi fólk núna fái að kynnast því, hvað þessi nýja öld felur í sér. Það þarf að kunna skil á því, hvað þessi tölvutækni felur í sér, það þarf að kunna skil á því að lifa við þessar aðstæður, það þarf að forðast að menn óttist þessa nýju tækni og það þarf að forðast að það skapist oftrú á þessari nýju tækni, menn skilji að hún á sér sín takmörk og á að þjóna mönnum, menn skilji að hér er einungis um að ræða mannanna verk sem menn eiga að ráða yfir.

Ég tek eindregið undir þá till. til þál., sem hér er flutt, og tel að hér sé mikilvægt verkefni að vinna. Og ég held að það sé ekki vonum seinna að við búum okkur undir þá sjálfvirku byltingu, sem áreiðanlega er fram undan, þannig að hún megi nýtast okkur til framfara og betra lífs í nýjum atvinnutækifærum og menn geti nálgast þessa öld óttalaust, en með bjartsýni á framtíðina. Til þess að það megi gerast þarf að taka til hendinni, bæði í skólakerfinu og eins úti í atvinnulífinu meðal verkalýðs og meðal atvinnurekenda. Allir þurfa að kynna sér hvað í þessu felst.