03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

136. mál, starfsreglur Póst- og símamálastofnunar

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er lögð fram till. til þál. á þskj. 161 um starfsreglur Póst- og símamálastofnunar. Hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um starfssvið Landssíma Íslands með það að markmiði að samræma starfsemi og verksvið símans þeim reglum er gilda um starfsemi annarra hliðstæðra þjónustustofnana, svo sem rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna.“

Með leyfi forseta vil ég lesa kafla úr grg. sem fylgir: „Þáltill. þessi var síðast flutt á 100. löggjafarþingi, 1978–1979, og var þá 211. mál.

Þar sem fram hefur komið í umr. á Alþingi, að núv. samgrh. er samþykkur þeim breytingum, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, leyfi ég mér að endurflytja hana nú í von um að verði hún samþykkt auðveldi það ráðh. að gera hið bráðasta þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Bæði tillögugreinin og grg., sem hér fer á eftir, eru orðréttar eins og þær voru upphaflega lagðar fram.“

Ég mun ekki lesa frekar upp úr grg., en hvet þm. til að kynna sér hana vel, þannig að það fari ekki fram hjá neinum hvað hér er lagt til.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að till. þessari til þál. verði vísað til allshn. og að umr. verði frestað.