03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

191. mál, tækniþekking á fiskirækt

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. 1. flm. þessarar till., hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir, sem hefur tekið hér sæti við og við sem varamaður, er ekki hér nú og því mæli ég fyrir þessari tillögu.

Tillagan fjallar efnislega um eflingu tækniþekkingar á fiskirækt, og þarf varla að fara mörgum orðum um nauðsyn þess máls, svo mikið sem rætt hefur verið um fiskirækt hér á landi og eflingu hennar.

Nú fara fram tilraunir víða um land á vegum ýmissa aðila í sambandi við aukningu fiskiræktar, ýmist sem hliðarbúgreinar eða sem hreins atvinnuvegar sérstaklega, og blandast þar auðvitað inn í umræður um ræktun sjávarfiska sem hér hafa verið nokkuð til umræðu.

Þessi till. gerir ráð fyrir að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að stuðla að eflingu líffræðilegra rannsókna og tækniþekkingar á fiskirækt, m.a. með því að láta reisa og reka tilraunastöð fyrir stríðeldi vatna- og sjávardýra. Þarna er um að ræða þá hugmynd að auka vaxtarhraða fisks sem alinn er upp í eldistjörnum á landi og hugsanlega í girðingum í sjó, eins og tilraunir hafa verið gerðar með með mjög góðum árangri.

Í grg. með till. segir, með leyfi forseta:

„Hér á landi hefur fiskeldi nær eingöngu takmarkast við eldi á laxaseiðum til að sleppa í ár og til útflutnings. Síauknar laxveiðar nágrannaþjóða í sjó valda því að nauðsynlegt er að huga einnig að öðrum kostum í fiskeldismálum.

Flotkvíar í sjó að hætti Norðmanna hafa verið reyndar lítið eitt, þ.e. eldi laxfiska í fulla markaðsstærð. Hér á landi er sá kostur ekki sá hagkvæmasti, hitastig í sjó er lágt miðað við það sem er hjá samkeppnisaðilum og vöxtur í flotakvíareldi þar af leiðandi tiltölulega hægur. Á vetrum er mikil áhætta tekin sökum veðurofsa og frosta, en við flotkvíareldi eru að jafnaði engin tök á að nýta jarðhita nema við eldi seiðanna. Seiðaeldi er hins vegar óverulegur kostnaðarþáttur í eldi til slátursstærðar.“

Enn fremur segir í þessari grg., með leyfi forseta: „Strandkvíareldi, sem einnig hefur verið á dagskrá, getur að mestu verið laust við ofangreinda ókosti. Hins vegar krefst það mjög mikils stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar, ef farnar eru hefðbundnar leiðir, þar eð lágmarksstærð arðbærrar stöðvar er hlutfallslega stór.

Arðsemi laxeldis í strandkvíum á hefðbundinn hátt er því af mörgum dregin í efa við íslenskar aðstæður, nema fleira komi til, t.d. blandað eldi, aðstaða til að sleppa í flotkvíar að sumarlagi o.fl.

Rannsóknir, sem gerðar hafa verið af Háskóla Íslands, gefa til kynna að auka megi afköst margfalt í lokuðu eldi hérlendis með tæknivæddum verksmiðjubúskap líkt og þekkist í alifuglarækt. Raunar gefur eldi fiska og annarra dýra með köldu blóði enn fleiri möguleika en alifuglarækt ef tök eru á að stjórna umhverfisaðstæðum, eins og t.d. hita, að vild.“

Herra forseti. Ég mun ekki eyða tíma þingsins í að gera nánari grein fyrir þessari till., en vil þó benda á það sem einkum er stefnt að með tillögugerð þessari, sem tekið er fram í fjórum aðalliðum í lok grg. Ég ætla ekki að lesa það tæknimál sem brúkað er til að koma á framfæri þeim skoðunum sem flm. hefur í huga, en tel að hér sé á ferðinni hið ágætasta mál. Það höfðar raunverulega til þeirra aðila, sem of lítið hafa komið nálægt þeim eldisrannsóknum sem gerðar hafa verið, þ.e. vísindamannanna sjálfra.

Hér hefur farið fram eldi í tjörnum og í flotkvíum og fyrir því hafa staðið ýmsir, áhugamenn, — leikmenn sem sumir hverjir hafa náð prýðilegum árangri og öðlast reynslu sem er dýrmæt. Þessi þáltill. felur í sér að reynt verði að efla alla tækniþekkingu í sambandi við fiskirækt. Tel ég persónulega mikils virði ef það verður hægt. Mikinn fróðleik getum við sótt til nágranna okkar í Noregi á þessu sviði. Þar höfum við lítið gert að því að fella tré og gætum þess vegna farið í þá sjóði reynslu og þekkingar sem þeir búa yfir.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þessa till., herra forseti, en legg til að að lokinni þessari umr. verði henni vísað til atvmn.