04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ekki vil ég fetta fingur út í frv. þetta efnislega né setja út á eitt einasta atriði í sambandi við upptalningu þeirra manna sem hér er mælt með að fái íslenskan ríkisborgararétt. En ég vil nú þegar við 1. umr. láta það koma fram, að svo sem ég hef undanfarin ár verið óánægður með ákvæðið um að þessu fólki skuli gert að hafa nafnaskipti þegar það hlýtur íslenskan ríkisborgararétt, eins er ég óánægður með það enn og mun bera fram brtt. við 2. gr. frv. á þá lund, að það ágæta fólk, sem við viljum að setjist að á landi okkar, verði ekki skyldugt til að breyta um svo snaran þátt af sjálfu sér sem nafnið er.

Ég get fallist á það, að börnum þessara aðila, fæddum á Íslandi, skuli gert að bera íslensk nöfn. En hitt fæ ég ekki séð að standist almennar kurteisis- og mannúðarvenjur, að halda til streitu þeirri fásinnu sem tíðkast hefur á undanförnum árum, skyldunni um nafnbreytingu.