30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

16. mál, rafknúin samgöngutæki

Albert Guðmundsson:

Forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður taka undir þá till. sem hér er á dagskrá um rafknúin farartæki. Ég held að þessi till. sé miklu stærri og meira áríðandi fyrir okkur en menn gera sér í fljótu bragði grein fyrir. Ég vil benda á að þessi sama till. hefur komið öðru hverju upp í borgarstjórn Reykjavíkur, nokkuð oft. Ég hef flutt nákvæmlega sömu till. í borgarstjórn Reykjavíkur, og hún var tekin upp eftir tillögum sem Sigurður Jónasson, fyrrv. forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunarinnar, flutti þegar hann var fulltrúi Alþfl. í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld.

Ég vil benda á að borgarstjórn Reykjavíkur hefur leitað upplýsinga um þessa rafknúnu bíla. Þeir voru ekki taldir vera orðnir svo tæknilega fullkomnir sem þeir þurfa að vera til þess að borgarstjórn tæki þá upp í staðinn fyrir olíuknúna strætisvagna. Það var kannað á sínum tíma, hvort Strætisvagnar Reykjavíkur gætu fengið einn eða tvo strætisvagna hingað að láni um tíma til þess að reyna þá við íslenskar aðstæður. Það reyndist ekki mögulegt, vegna þess að þeir tæknigallar voru á, að það eru sérstök hleðsluhólf í þessum bílum sem eru gríðarlega þung og stór, og þau þarf að draga út úr bílunum og önnur fullhlaðin þurfa að vera tilbúin á endastöðvum til að setja inn í þá í staðinn. Tæknin er ekki enn þá komin á það stig, að við getum útbúið þetta á sama hátt og við höfum bensínstöðvar nú fyrir venjulega bíla, sem við þekkjum til.

En það er annað sem oft hefur komið til tals. Það eru ekki járnbrautir, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er enn í dag jafnfullkomið og það var þegar Sigurður Jónasson, fyrrv. flokksbróðir hv. síðasta ræðumanns, kom með till um einteinunga. Einteinungar voru þá á byrjunarstigi. Þeir eru sjálfsagt ekkert fullkomnari í dag en þeir voru þá. Þeir eru kannske öðruvísi í útliti. En þeir fara með þeim hraða, að ég held að við þyrftum ekki flugferðir innanlands, t.d. á milli Norðurlands og Reykjavíkur eða Suðurlands, ef við hefðum einteinunga. Þeir fara með hraða flugvéla. Þegar Sigurður Jónasson flutti tillögu sína var hann svo bjartsýnn, að hann hélt að hægt væri að nota teinana sjálfa til að hengja neðan í þá leiðslur og dæla mjólkinni frá Selfossi til Reykjavíkur í gegnum þær og leggja alla flutningabíla niður. Þessi hugmynd er því ekki ný, en hún er jafngóð og hún var.

Ég vona að við berum gæfu til að vaxa upp úr því fornaldarhugarfari, að við getum ekki notað hér á landi nýjustu tækni sem til er á hverjum tíma erlendis. Vel gæti verið að það teysti innanlandsflutningavanda okkar að verulegu leyti og við gætum lagt niður flugferðir t.d. úti á landi, ef við hefðum einteinung sem færi í kringum landið.