04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

196. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 387 höfum við hv. þm. Egill Jónsson leyft okkur að flytja frv. til l, um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem felst í því, að á Eskifirði verði heilsugæslustöð 2 sem svo er kallað, eða tveggja lækna heilsugæslustöð. Þetta frv. hefur áður verið tvívegis flutt og einnig sem brtt. við heilsugæslulögin á sínum tíma og þarfnast því ekki nánari útskýringa nú.

Reglan, sem sett var á sínum tíma varðandi tveggja lækna stöðvarnar, var sú, að miðað skyldi við 2000 íbúa mörk á hverju svæði. Þeir staðir, sem þarna er að vikið, eru á mörkunum varðandi þennan íbúafjölda. Við flm. viljum leggja áherslu á það, að vandi H1 stöðvanna eða eins læknis stöðvanna er mikill. Við sjáum það best á auglýsingu í dagblöðunum í dag. Við þekkjum það frá stöðum eins og Djúpavogi og Fáskrúðsfirði, alveg sérstaklega Djúpavogi. Og það fer ekki á milli mála, að álit núverandi læknis á heilsugæslustöðinni á Eskifirði er það, að hér þurfi að ráða bót á, hér þurfi að verða tveggja lækna stöð, af þeirri einföldu ástæðu að þarna sé um það miklar annir að ræða þrátt fyrir nálægðina við Egilsstaði og Neskaupstað sem mjög gjarnan er vitnað til.

Aðalatriðið nú er að fá tvo lækna í þetta umdæmi. Við hv. þm. Egill Jónsson viljum hins vegar leggja áherslu á það, að fáist þessi heimild, þá munum við beita okkur fyrir því að annar læknanna hafi búsetu á Reyðarfirði, samkvæmt heimild sem er í heilsugæslulögunum nú þegar. Við gerum okkur grein fyrir því, að hér er um svolítið umdeilt atriði að ræða. Við bendum hins vegar á það, að fjarlægðin milli staðanna er ekki nema 15 km og vel fært að öllu jöfnu á vetrum. Og við gerum okkur grein fyrir því, að aðalstarfsvettvangur heilsugæslulæknanna beggja yrði á Eskifirði. Þá bendum við um leið á það, að þetta kallar á heilsugæslustöð á Eskifirði. Við gerum okkur það ljóst, að við höfum verið að reyna að raða þessum stöðum upp eftir því sem þörfin er brýnust. Fáskrúðsfjörður er núna sem sagt kominn vel á veg eða kemst á þessu ári. Djúpivogur er núna í byrjun hjá okkur. Og síðan verðum við að játa það, að Eskifjörður er algjörlega eftir. Þar er ekkert annað í dag en venjulegur læknabústaður. Þetta kallar einnig á það að bætt verði aðstaðan á Reyðarfirði og þar verði komið upp fullkomnu heilsugæsluseli, sem svo er kallað. En við flm. leggjum áherslu á það, að aðalaðstaðan verður vitanlega á nýrri heilsugæslustöð á Eskifirði, sem við vonum a.m.k. að sjái dagsins ljós fyrir 1985, ekki síðar, því að brýn þörf er á því að fá tveggja lækna skipanina, og tveggja lækna skipanin kallar á heilsugæslustöð. Og það gerir það reyndar hvort sem er, hvort sem þarna væri einn læknir eða ekki, því að aðstaðan fyrir lækninn í dag er algjörlega ófullnægjandi.

Hins vegar teljum við það sjálfsagt öryggisatriði á stöðum eins og þessum, þar sem annar staðurinn er með á áttunda hundrað íbúa og hinn á ellefta hundrað, að læknarnir séu ekki búsettir á sama staðnum, heldur sé annar þeirra á Reyðarfirði, og við munum leggja á það höfuðáherslu. Við viljum hins vegar ekki leggja út í neinar deilur um það hér, enda segir frvgr. ekkert um það, en við munum beita okkur fyrir því, að svo verði, vegna þess að hér er um sjálfsagt öryggisatriði að ræða, jafnhliða því sem það er sjálfsagt sanngirnismál fyrir Reyðfirðinga að fá annan lækninn til sín.

Ég vil svo aðeins geta þess, að um þetta er vitanlega full samstaða meðal allra þm. Austurl., um þessa skipan mála, og unnið jafnt af okkur öllum, þó að þannig sé háttað málum að við tveir getum einungis verið hér flm.

Að svo mæltu legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.