04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér fannst það í rökþota stíl hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann gerir sig að sérstökum dómara yfir andlegu ástandi manna. (Sjútvrh.: Það var að gefnu tilefni sem ég gerði það.) Ég get ekki séð að það hafi verið neitt sérstakt tilefni, nema þá hugsanlega andlegt ástand ráðh. sjálfs. En hvað um það, það er ekki meginatriðið í þessu máli.

Það sem er meginatriðið í þessu máli er auðvitað spurningin um það, hvers vegna menn settu í rauninni lögin um samræmingu veiða og vinnslu. Það var vegna þess að um takmarkað veiðimagn er að ræða af þessum tegundum, þar sem stundum er hægt að hafa upp mikinn arð. En menn höfðu það líka fyrir augunum, að þegar allir ætluðu til að hlaupa kom of lítið í hvern hlut og þá hafði þetta tilhneigingu til þess að fara í handaskolum og á hausinn. Einu sinni ætluðu allir að verða ríkir á Íslandi á því að reka bílaleigu. Það er stundum talað um bílaleigu-„effektin“ síðan. Það er eitthvað svipað í þessum efnum. Það, sem var að gerast þarna, var að menn ætluðu að verða ríkir á því að gera allir það sama. Það er auðvitað ekki hægt þegar um takmarkaða auðlind er að ræða, og það er skýringin á því fyrst og fremst að menn settu lögin um samræmingu veiða og vinnslu. Það er gott ár í skel núna, þess vegna vilja allir sækja í hana. En það þarf ekki að vera að það sé alltaf gott ár í skel. Og hvernig standa menn þá?

Það er rétt hjá hæstv. ráðhv., að þetta mál er ekki nýtt. Það stóð mikið stríð um þetta mál að því er annað pláss varðaði, Grundarfjörð, fyrir 1–2 árum. Þá hafði ég með þetta að gera. Ég spurði sjálfan mig og ég spurði aðra: Er mannafli og afkastageta fyrir hendi í þeim vinnslustöðvum sem fyrir eru? Svarið var já. Er atvinnuleysi á Grundarfirði? Svarið var nei. Það er innflutningur á vinnuafli. Og ég spurði líka: Hvaða afleiðingar hefur það að fjölga stöðvunum og skipta á fleiri staði? Það þýðir rýrari afkomu hjá stöðvunum öllum. Það þýðir það, að fjárfestingin nýtist verr. Það þýðir það, að þessum stöðvum verður öllum hættara ef undan hallar. Og það þýðir það líka, að uppbyggingin verður lélegri. Það þýðir það, að menn fara í þann gamla íslenska farveg að reyna helst að hafa allar fiskvinnslustöðvar á hausnum. Og það er það sem verið er að stefna að með þessu móti.

Það hefur komið hér fram, að það eru fleiri sem hafa áhuga. Hætt er við að með því að fara þessa leið hafi skriða verið sett af stað og þetta endi með því, að menn verði búnir að spreða þessu út um allar jarðir og setja þessa atvinnugrein á hausinn. Það hefur viljað vera reglan oft í íslenskum sjávarútvegi. Meiningin með lögunum um veiðar og vinnslu var auðvitað að koma í veg fyrir slíkt.

Einu sinni var sagt að það ætti að koma togari á hverja krummavík. Ég veit ekki nema stefnan nú sé sú, að það skuli vera ein skel á hverjum bæ. Kannske svo sé. Ég held að enginn ráðh. hafi talað meira um samræmingu veiða og vinnslu en hæstv. núv. sjútvrh. Ég get ekki séð að það, sem hér er verið að gera, sé beinlínis í þeim stíl, nema túlkunin eigi að vera þveröfug við það sem heilbrigð skynsemi og allur almenningur telur. Það er upplýst að þarna þarf að koma upp aðstöðu, þarna þarf fjárfestingu.

Það er upplýst, að bátur er ekki fyrir hendi — það er verið að ræða við eiganda einhvers báts einhvers staðar — og það er upplýst, að hafnaraðstaðan er mjög léleg. Það, sem kemur út úr svona háttalagi, getur verið það, að ekki þurfi aðeins að byggja upp aðstöðu, heldur þurfi líka að hjálpa til að kaupa bát og endurbæta höfnina — og svo þurfi að lokum að kaupa skuttogara í pláss eins og Stykkishólm sem stendur þó ágætlega atvinnulega séð ef hann fær að búa að skelinni. Og menn skyldu gæta að því, þegar verið er að tala um að þeir hafi fengið jafnmikið og í fyrra, að í fyrsta lagi er ekki alveg víst að alltaf sé góðæri, og í annan stað er það eðli plássa að fara vaxandi og þurfa fleiri og fleiri atvinnutækifæri.

Hér er í raun og sannleika um stefnumál að ræða, spurninguna um það, hvort menn vilja byggja upp sterk fyrirtæki í greininni, hvort menn vilja hafa verkaskiptingu innan greinarinnar þannig að sumir séu að vinna skelfisk og aðrir séu í annarri vinnslu, — verkaskiptingu sem hefur þó orðið til þess almennt í iðnþróun að stuðla að framförum og bæta lífskjör. Í þessum greinum er einmitt tækifæri til þess að hagnýta sér slíka verkaskiptingu, og það var m.a. meiningin með þeim lögum sem sett voru um samræmingu veiða og vinnslu. En ég fann það á málflutningi hæstv. ráðh., að í þetta skipti var það ekki svo, að hann hefði ekki sannfæringu fyrir þessu. Aldrei þessu vant er hann að framkvæma vilja sinn. Hingað til höfum við vanist því, að yfirlýsingar ráðh. væru á þá lund, að það, sem hann væri að gera, væri einmitt það sem hann vildi ekki vera að gera. Við höfum heyrt það t.d. í sambandi við Þórshafnartogarann og margt, margt fleira. Við heyrðum það líka í sambandi við efnahagsmálin aftur og aftur. En nú bregður í annan farveg. Aldrei þessu vant er ráðh. að framkvæma einmitt það sem hann vil gera. Hann vill sem sagt framkvæma samræmingu milli veiða og vinnslu með þessum hætti, og það er auðvitað athyglisverð stefnubreyting. En ég er hræddur um að það komi ansi þvert á almennan skilning og almenna skynsemi að því er varðar það, hvernig standa skuli að málum, eins og þessum. Það skyldi þó ekki vera, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar ráðh. og eins og málið er í pott búið og vegna þess hvorum megin Brjánslækur liggur við Breiðafjörðinn, að það hafi eitthvað spilað inn í, að það hafi einhverjar ábendingar komið úr því kjördæmi, sem er norðan Breiðafjarðar, um að það væri nú gaman að fá þangað eitthvað af þessu tagi? Það skyldi þó ekki vera, þrátt fyrir allt og þó að ráðh. sé svona sannfærður, að það sé einmitt þrýstingur úr kjördæmi hans sem ráði þarna miklu? Einn ráðh. hefur nýlega lýst því yfir, að úthlutunaraðferð hans varðandi lyfsöluleyfi sé sú, hvort átt hafi sér stað undirskriftasöfnun eða ekki. Ég held að þetta sé dálítið vafasamt fordæmi. En það virðist þannig vera nokkuð gegnumgangandi hjá ráðherrunum að láta undan þrýstingi.

Ég er sannfærður um að hér er verið að stefna í ranga átt. Auðvitað er aldrei auðvelt að neita mönnum um leyfi af þessu tagi. En menn geta komist út í verra forað með því að segja ævinlega já. Og ég held að það sé allt of mikið af því — og af því er sú lykt hér núna líka — að menn séu að kaupa sér atkvæði á kostnað þjóðarinnar.