04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál hér, bjóst raunar við að það væri ekki ástæða til þess, en það hefur margt borið hér á góma. Ég ætla nú ekki að skipta mér af því öllu, eins og t.d. skíðamennsku þeirra félaga. Ég held að þeir verði að útkjá það mál á öðrum vettvangi. En ég verð að segja það, að mér kemur nokkuð einkennilega fyrir sjónir að fulltrúar Alþfl. í þessum umr. og fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram til þessa tala svo í þessu máli eins og það sé eitt af höfuðmálum þessa þings. Þeir hafa tekið svo stórt upp í sig, að furðulegt er, miðað við það tilefni, sem er til þessarar umr., ef það er þá nokkurt tilefni til að biðja um umr. utan dagskrár út af þessu máli.

Því hefur verið haldið fram, að með þeirri ráðstöfun, sem hæstv. sjútvrh. hefur gert um að veita mjög takmarkað skelfiskveiðileyfi til Brjánslækjar, sé verið að stofna í hættu atvinnuöryggi í Stykkishólmi. Þó er það staðreynd og liggur fyrir að það er veitt meira magn í veiðileyfum til Stykkishólms núna en áður. Ég vil hins vegar taka undir allt sem hér hefur verið sagt um mikilvægi þessa atvinnurekstrar, skelfiskvinnslunnar í Stykkishólmi, og leggja áherslu á þýðingu þess rekstrar og þess sérstaka myndarskapar sem er á rekstrinum þar. Það verður ekki lögð of mikil áhersla á það.

Hins vegar get ég ekki tekið undir málflutning fulltrúa Alþfl. viðvíkjandi öðrum stað að norðanverðu við Breiðafjörð, Brjánslæk. Ég veit ekki hvað miklar hugmyndir hv. 5. þm. Vesturl. hefur um þann stað. Þegar hann talar um að það sé veitt leyfi til Brjánslækjar segir hann að það séu veitt leyfi út um hvippinn og hvappinn, eins og hann orðaði það. (Gripið fram í.) Nú, þá er hann að tala um Grundarfjörð líka. (Sjútvrh.: Það er hvappurinn). Það er hvappurinn, já. En ég held að augljóst sé að það sé alger óþarfi að hafa svona miklar áhyggjur út af þessari leyfisveitingu til Brjánslækjar. Aðalatriðið er hvort það eru ástæður og rök fyrir því að veita þetta leyfi. Hæstv. sjútvrh. hefur greint frá sínum rökum. En ég vil aðeins segja við þá fulltrúa Alþfl. í þessum umr., að við skulum hafa í huga að hér er um að ræða landbúnaðarhérað þar sem Brjánslækur er. Við ræðum oft og tíðum mikið um landbúnað, og ekki síður þeir Alþfl.-menn en við hinir, þó þeir hafi kannske ekki jafnmikinn áhuga á landbúnaðarmálum. En það viðurkenna þeir ekki sjálfir. En þá greinir a.m.k. oft og tíðum mjög á bæði við mig og aðra í mínum flokki í þessum efnum. En kemur okkur ekki saman um það, að á tímum þegar um er að ræða offramleiðslu í landbúnaði sé rétt að huga að því, hvernig hægt sé að draga úr þeirri framleiðslu? Mér hefur fundist að Alþfl: menn væru til viðtals í þeim efnum eins og aðrir. En það er ekki nóg að segja að þeir vilji draga úr landbúnaðarframleiðs. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, hvernig við eigum að gera það án þess að byggðin dragist saman, að Ísland verði byggt allt. Og ein leiðin til þess er að stuðla að því, að í sveitum landsins, landbúnaðarhéruðum, séu teknar upp aukabúgreinar. Í þessum hreppi, þar sem er Brjánslækur, eru stundaðar vissar aukabúgreinar sem hafa haft mikla þýðingu, eins og t.d. hrognkelsaveiðar. En atvinnulífið og byggðin í þessum hreppi stendur þannig, að það er alveg nauðsynlegt að styðja betur og á margvíslegan hátt að aukabúgreinum einmitt í þessu byggðarlagi.

Þessi smáa leyfisveiting, sem hæstv. sjútvrh. stendur að til Brjánslækjar, er því að mínu viti spor í rétta átt. Það er atgerlega ástæðulaust að óttast að slíkt komi illa atvinnulífi í öðrum byggðarlögum og í öðrum sýslum og öðrum kjördæmum, fyrst einhverjir menn voru að tala um kjördæmi, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði í þessu sambandi. Það er algerlega óþarfi að hræðast slíkt, hvað þá að segja eins og hv. 2. þm. Reykn. orðaði það, að með þessu væri stefnt að því að koma sjávarútvegi í rúst. Það sagði hv. þm. efnislega. Það er von að hv. þm. brosi yfir þessu, ég brosti líka. Ég veit að hv. þm. meinar þetta ekki. En hann talar af svo miklum sannfæringarkrafti í þessu máli, að þetta hrýtur efnislega út úr honum.

Það er ekki oft sem maður stendur upp hér í umr. á Alþingi og lýsir því yfir að það, sem stjórnarherrarnir eru að gera, sé rétt. Það er alger undantekning, og þar er einmitt undantekning sem staðfestir regluna. Þess vegna er furðulegt að stjórnarandstöðuflokkur eins og Alþfl. skuli nota þessa undantekningu til þess að blása upp svo miklu af þessu tilefni.