04.02.1981
Neðri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

197. mál, þingsköp Alþingis

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi við það frv. sem hv. 4. þm. Reykv., Benedikt Gröndal, hefur hér mælt fyrir. Ég hygg að þær þrjár meginbreytingar, sem hann leggur til og allar miða að því — ekki að takmarka málfrelsi, heldur að aga þá umræðu sem hér fer fram, séu til bóta. Nú eins og áður, þegar frv. um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis hafa komið fram, er kannske eðlilegt að menn velti vöngum yfir því með hverjum hætti störf Alþingis verði gerð árangursmeiri. Það er einmitt það sem menn stefna að, kannske hver með sínum hætti.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson flutti hér einnig ítarlega ræðu þar sem hann reifaði nokkrar hugmyndir sínar. Eitt þeirra atriða, sem nefnd voru hér í svipaðri umr. fyrir nokkrum dögum og hv. þm. Birgir Ísl. nefndi einnig, langar mig til að staldra nokkuð við og raunar taka undir. Það er um þingtímann sjálfan, hversu lengi Alþingi starfar á hverju ári.

Vegna þess, hvað stjórnarskrá okkar er — að vísu af eðlilegum og skýrum ástæðum — þung í vöfum, held ég að það hafi oft og iðulega gerst, að Alþingi og stjórnarstofnanir hafa alls ekki fylgt annarri þróun í landinu. Það hefur verið margrakið hér í umr., m.a. núna fyrir jólin, að þetta gildir t.a.m. um útgáfu bráðabirgðalaga. Ákvæðin um þau komu inn í stjórnarskrá 1874 við allt aðrar aðstæður, t.d. miklu verri samgöngur en nú eru, við þær aðstæður að þing starfaði ekki nema sex vikur á sumri annað hvert ár. Því nefndi ég þetta, að ég hygg að sömu rök hnígi að því, með hverjum hætti samkomutími Alþingis er ákveðinn.

Nú fyrir jól urðu allverulegar umræður um launakjör þm. Það er auðvitað eðlilegt að launakjör þm. séu undir smásjá fjölmiðla og almennings, því þetta eru auðvitað mál sem fólk lætur sig varða og fólk á að varða. Hins vegar er ljóst að þm. eru launaðir sem hæst launuðu embættismenn ríkisins og það er nú ákveðið af kjaradómi. Samt er það svo, að í raun kemur þetta ekki heim og saman við starfstíma Alþingis. Ég er sannfærður um að fólk áttar sig alls ekki á því, hvernig samkomutíma Alþingis er í raun háttað. Alþingi situr ekki nema rúma sex mánuði á hverju ári. Þingi lýkur á síðustu vikum í maí á vorin. Það kemur saman 10. okt og það er fjórar eða fimm vikur í jólafríi. Þegar þetta er lagt saman er útkoman sú, að Alþingi starfar ekki nema liðlega sex mánuði á ári hverju. Það er ekki sagt neinum manni eða neinni atvinnugrein til hnjóðs, en upphaflega er þetta fyrirkomulag mjög eðlilega sniðið eftir þörfum landbúnaðarsamfélagsins. Langt fram eftir þessari öld, meðan landbúnaður vó þyngra á efnahagsvigtinni en hann nú gerir, var auðvitað samkvæmt því stór hópur, kannske meiri hluti þingmanna bændur. En þetta hefur breyst og þessi viðmiðun er nú orðin með öllu ástæðulaus. Ég hygg að þetta — ásamt, með þeim leikreglum sem hér eru stundaðar, að málatilbúnaður á þingi dettur dauður niður í lok hvers þings, á hverju vori, að frv. eða þáltill., sem ekki hafa hlotið afgreiðslu, eru þar með úr leik og þarf þá að flytja málin að nýju að hausti — þetta verði til þess, að öll afgreiðsla Alþingis á meiri háttar málum verði minni og lakari en ella mundi vera. Menn hafa nefnt hér frv. um barnalög og ég hygg að það sé talandi dæmi um þetta. Það frv. var fyrst lagt fram árið 1975, langur og mikill lagabálkur í viðkvæmum málum. En aftur og aftur hefur það gerst, að þingið hefur ekki — á þeim starfstíma sem því er markaður og með því að málin detta dauð niður að vori — séð sér fært að afgreiða þessi lög.

Ég hygg að miklu eðlilegri starfstími Alþingis væri sá, að einungis væri um að ræða sumarleyfi í um tveggja mánaða skeið í júlí- og ágústmánuði, en þingið starfaði aðra tíma ársins. Það væri þá í staðinn hægt að hafa rýmri helgar — nú eru raunar ekki þingfundir á föstudögum — fyrir menn til þess að fara út í kjördæmi sín, halda fundi og sinna hvaða öðrum erindum sem þeir þurfa.

Annað vil ég síðan nefna. Hér hefur, held ég, tvívegis verið flutt frv. til l. um eftirlitsskyldu þingnefnda, um að þingnefndir fái vald, sem þær ekki hafa nú, til þess að halda uppi eftirliti með framkvæmdavaldinu, með því hvort og þá hvernig lögin í landinu eru framkvæmd. Fyrirmyndir að þessu eru sóttar til annarra landa. Ég hygg að eins og mál muni þróast, hvort sem það verður hægt eða hratt, að þingið starfi lengur á hverju ári og þingmennskan verði þá í raun fullt starf manna meðan þeir gegna því, að einmitt aukinn starfsvettvangur þingnefnda og eftirlits- og rannsóknarvald þeirra samræmist mjög öðrum hugmyndum sem í þessa veru ganga.