30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

18. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 19 till. til þál. um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Í því skyni skipi viðkomandi ráðherra nefnd er geri tillögur um hvernig réttindum þess verði best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eignarréttar og erfðaréttar.

Nefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Það er ljóst að brýna nauðsyn ber til að kannað verði með hvaða hætti réttindum þeirra, er kjósa að búa í óvígðri sambúð, verði best fyrir komið og tillögur verði gerðar um úrbætur, sérstaklega er varða eignarrétt og erfðarétt. Þjóðfélagið hefur frá öndverðu talið nauðsyn á að lögvernda hjónabandið á margvíslegan hátt. Í því sambandi taka menn á sig tilteknar skyldur og öðlast að sama skapi ýmis konar rétt. Um fjármál hjóna eru lögmæltar reglur sem veita hjónum ákveðna vernd, og einnig er lögbundin skylda til framfærslu og fleira. Um hjón gilda ítarleg lög, eins og t.d. lög um stofnun og slit hjúskapar, lög um réttindi og skyldur hjóna, lög um afstöðu foreldra til skilgetinna barna svo og ákvæði í erfðalögum, svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki að ófyrirsynju að lög sem þessi hafa verið sett, því að í samskiptum hjóna innbyrðis og barna þeirra svo og gagnvart öðrum aðilum utan fjölskyldunnar geta risið mörg og margvísleg vandamál sem torleyst yrðu ef engra laga nyti við.

Þróun síðari ára sýnir ljóslega að óvígð sambúð er orðin nokkuð algeng. Eigi að síður nýtur þetta sambúðarform lítillar réttarverndar, því að löggjafinn hefur hingað til talið þá sambúð karls og konu, sem stofnað er til í samræmi við lög landsins, þá einu sambúð er njóta eigi fullrar réttarverndar.

Um óvígða sambúð karls og konu hafa engin heildarlög verið sett og í lögum er aðeins að finna örfá dreifð ákvæði þar um. Auðvitað er ljóst að í sambúðarformi sem þessu geti risið upp mörg og margháttuð ágreiningsefni, en eins og þessum málum er háttað í dag ríkir í reynd margháttuð réttaróvissa. Hæst ber kannske fjármálauppgjör fólks í slíkri sambúð við sambúðarslit, en við skiptin kemur oft fram mikið misrétti og oft rísa upp vandleyst mál þar sem lagavernd vantar í fjármálauppgjöri við slík sambúðarslit. Stundum stendur sambúðin svo áratugum skiptir og allar eignir búsins hafa orðið til á þeim tíma. Eignamyndun má oft rekja til sameiginlegs framlags beggja, ýmist beint, t.d. þegar bæði hafa haft atvinnutekjur eða þau hafa starfað saman við atvinnurekstur, eða þá óbeint, ef konan vinnur á heimilinu og stuðlar þannig að bættri tekjuöflunaraðstöðu karlmannsins. Í reynd leggur því konan með vinnu sinni á heimilinu stóran skerf til eignamyndunar. Ef um fasteignarmyndun er að ræða á sambúðartímanum, sem báðir aðilar hafa beint eða óbeint lagt fjármagn í, er oft svo, og mætti í því sambandi vitna í hæstaréttardóma, að karlmaðurinn er einn þinglýstur eigandi hennar. Ef konunnar er ekki getið í veðmálabókum sem sameiganda og um óvígða sambúð er að ræða getur orðið erfitt fyrir hana að sanna að með framlagi hennar til kaupanna sé stofnað til sameignarréttar. Er því um mikla áhættu að tefla fyrir þann aðila sem lætur undir höfuð leggjast að þinglýsa sínum eignarhluta, sem reynslan sýnir að í flestum tilfellum er kona.

Sérstaklega ber að nefna að réttarstaða hins heimavinnandi aðila er mjög bágborin ef ekki er hægt að sanna bein framlög til eignamyndunar við eignaskiptin. Í hæstaréttardómum hefur sú leið því oft verið farin til að draga úr mesta óréttlætinu, sem skapast við fjárhagslegt uppgjör milli sambúðarfólks í slíkum tilfellum, að dæma konunni þóknun fyrir störf hennar í þágu heimilisins. En það liggur í augum uppi, að ef um mikla eignamyndun hefur verið að ræða á sambúðartímanum getur sú fjárhæð verið hverfandi lítil í samanburði við það að um helmingaskipti á eignunum væri að ræða, eins og tíðkast við sambúðarslit hjóna.

Annað atriði er einnig vert að nefna í þessu sambandi. Í óvígðri sambúð skapast engin erfðatengsl milli sambúðarfólksins og því nýtur langlífari sambúðaraðilinn ekki erfðaréttar. Sú leið er þó fær að gera gagnkvæma erfðaskrá, en í því tilfelli er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá, þegar um aðra erfingja er að ræða. Sé hins vegar ekki um skylduerfingja hins látna að ræða verður langlífari sambúðaraðilinn eins vel settur ef erfðaskrá er gerð og hefði hann verið í hjúskap. Er því ástæða til að það sé sérstaklega athugað, hvort ekki sé eðlilegt að til erfðatengsla stofnist milli sambúðarfólks ef t.d. sambúð hefur staðið lengi. Athuga þyrfti einnig sérstaklega hvernig fara skuli með framfærsluskyldu við sambúðarslit, en engin framfærsluskylda hvílir nú á fólki í óvígðri sambúð.

Ljóst er því að réttarstaða fólks í óvígðri sambúð er hvað ótryggust að því er varðar eignar- og erfðaréttinn, en í þessari þáltill. er sérstaklega gert ráð fyrir að kanna með hvaða hætti hægt er að búa þar betur um hnútana.

Þess ber þó að geta, að varðandi þetta sambúðarform hafa orðið verulegar breytingar á réttarstöðu þessa fólks hvað almannatryggingar varðar, þó ýmis ákvæði þar þurfi endurskoðunar við. Í 52. gr. almannatryggingarlaga kemur einmitt fram viðurkenning á þessu sambúðarformi. Þar er í raun viðurkenndur réttur sambúðarfólks til bóta almannatrygginga til jafns við hjón að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í greininni segir svo, með leyfi forseta:

„Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona, sem búa saman og eru bæði ógift, ef þau hafa átt saman barn eða konan er þunguð af hans völdum eða sambúðin hefur varað samfleytt í tvö ár. Sama gildir um bótarétt þess, sem eftir lifir, þegar hitt deyr.

Slíkt sambúðarfólk öðlast þó aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft, ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðarkonu slysabætur.“

Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt nýtur sambúðarfólkið réttar samkvæmt almannatryggingalögum sem einstaklingur. 52. gr. almannatryggingalaganna tekur því til sambúðarfólks að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og ættu því í reynd í þeim tilfellum að vera tryggð sömu réttindi hvað varðar ekkjubætur almannatrygginga, dánarbætur, slysatryggingar og makabætur, enn fremur greiðslu elli- og örorkulífeyris. Á hitt er þó að líta, að Tryggingastofnun ríkisins hefur oft lent í erfiðleikum vegna þessa ákvæðis vegna þess að alla skilgreiningu vantar á hugtakinu „sambúð“, enda engar reglur til um skráningu slíkrar sambúðar og oft erfitt að ákvarða hvort um sambúð hefur verið að ræða og hversu lengi hún þá hefur staðið.

Ég vil svo að lokum, með leyfi forseta, vitna í álitsgerð Sambands Alþýðuflokkskvenna sem rakin er í grg. þáltill., en þar kemur ljóslega fram hversu brýnt er að réttarstaða þessa fólks verði könnuð og réttindi þess betur tryggð. Þar segir með leyfi forseta:

„Í ljósi þróunar síðari ára varðandi óvígða sambúð — og þess hve margir kjósa slíkt sambúðarform — verður æ brýnna að réttindi aðila í slíku sambúðarformi séu tryggð, ekki síst með tilliti til efnahagslegrar réttarstöðu.

Þær tölulegu staðreyndir, sem fyrir liggja um óvígða sambúð, renna stoðum undir þetta álit, en samkv. upplýsingum Hagstofu Íslands er vitað að um 4000 manns eru í óvígðri sambúð.

Helstu lög, sem tryggja eiga réttindi og skyldur í hjúskap, eru lögin um stofnun og slit hjúskapar og lögin um réttindi og skyldur hjóna, en þessi lög ná ekki til fólks í óvígðri sambúð og hefur löggjafinn enn sem komið er ekki séð ástæðu til sérstakrar lögverndar slíks sambúðarforms.

Fyrst og fremst einkennist því efnahagsleg réttarstaða ógifts fólks í sambúð af öryggisleysi, sem hlýtur að verða að gefa gaum og löggjafinn verður að grípa inn í á þeim sviðum sem brýnust eru.

Auk hinnar efnahagslegu réttarstöðu ógifts fólks í sambúð verður að huga sérstaklega að erfðaréttinum. Þeir, sem búa í óvígðri sambúð, eiga ekki gagnkvæman erfðarétt og ekki rétt til að sitja í óskiptu búi. Erfðarétturinn verður í þessum tilfellum að vera tryggður í erfðaskrá. Í þessu sambandi er gagnlegt að skoða einnig þann þátt er snýr að erfðaskattslögunum, að ef aðilar í óvígðri sambúð arfleiða hvor annan lendir hinn arfleiddi í að greiða hæsta erfðaskatt vegna „óskyldleika“.

Heyrst hafa þær raddir, að sýna beri vissa íhaldssemi hvað varðar löggjöf um óvígða sambúð. Þau sjónarmið, sem liggja til grundvallar þeirri skoðun; eru að líkindum þau, að hlutaðeigandi séu fullorðnar sjálfstæðar manneskjur, sem hafa valið sitt sambúðarform með það í huga að réttindi og skyldur þeirra eigi að vera óháðar hjúskaparstétt og aðeins bundnar almennum lögum. Og enn aðrir álíta að sérstök löggjöf um óvígða sambúð eigi að vera valkostur, en ekki skylda sem þeir, sem búa í óvígðri sambúð, verði að gangast undir. Nauðsynlegt er því, ef setja á lög eða reglur um óvígða sambúð, að hafa sjónarmið þeirra í huga sem velja sér slíkt sambúðarform, þó óhjákvæmilegt hljóti að vera að lögvernda efnahagslega réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Ástæða fyrir réttarfarslegu jafnræði er sú, að bæði sambúðarformin hafa sama þjóðfétagshlutverki að gegna, sérstaklega þegar um börn er að ræða. Því skulu þau hafa sama rétt gagnvart lögum.

Þegar réttarstaða fólks í óvígðri sambúð er skoðuð í heild sinni er því óhjákvæmilegt að hún feli í sér viss réttindi sem tryggi öryggi í slíkri sambúð og þá jafnframt einnig skyldur. Þá hlýtur að vakna sú spurning, hvar draga eigi mörkin milli sjálfstæðis einstaklinganna annars vegar og hins vegar þess, að sameiginlegir hagsmunir þeirra séu tryggðir. Lög og reglur eru mismunandi og fer það eftir því hvaða svið er tekið. Því má ætla að heppilegra væri að í stað allsherjarlöggjafar fyrir óvígða sambúð verði að taka fyrir hvert réttarsvið fyrir sig og sníða nauðsynlegustu atriði í slíkri sambúð að núgildandi lögum þar sem því verður við komið. Grundvallaratriðin, sem nauðsynlegt er að tryggja í slíkri sambúð, mundu efalítið þurfa að taka til meðlagsskyldu, framfærsluskyldu, reglna um sameiginlega eign og reglna um arf og skipti bús. Ber því að skoða sérstaklega hvort ekki sé heppilegra að gera breytingar á gildandi lögum á afmörkuðum sviðum, þar sem þeirra er þörf, heldur en að stefna að umfangsmikilli löggjöf. Verður að telja grundvallaratriði að nauðsynlegur undanfari þess að aflétta því réttarfarslega öryggisleysi, sem ríkir hjá fólki í óvígðri sambúð, sé sá, að gaumgæfilega sé kannað hvar og hvernig réttindamálum þeirra verður best fyrir komið.

Óhjákvæmilegt hlýtur einnig að vera að taka afstöðu til hvað það er sem ákveði hvort um sambúð sé að ræða sem eigi að veita þau réttindi sem hér hefur verið vikið að. Verður varla hjá því komist að slíkt verði gert með tilkynningarskyldu eða skráningu sambúðar sem báðir aðilar standi að.

Gæti því verið um val að ræða hjá fólki í óvígðri sambúð-þar sem annars vegar væri um að ræða óbreytt ástand en hins vegar skráningu óvígðrar sambúðar sem fylgdi efnahagslegt og réttarfarslegt öryggi. Væri slík skráning ekki fyrir hendi hlyti það að skapa vandræði, t.d. ef sambúð hefur staðið mjög stutt og annar hvor aðilinn ætti mun meiri eignir en hinn, auk þess sem skilgreining á hugtakinu sambúð yrði að vera skýr og ótvíræð þegar um aukinn lagalegan rétt væri að ræða.“

Hér lýkur tilvitnun í álitsgerð Sambands Alþýðuflokkskvenna. Telur flm. ekki nauðsyn á ítarlegri grg. um þessa þáltill. þar sem í álitsgerðinni koma fram þau grundvallaratriði sem sýna fram á nauðsyn þess sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að biðja um að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.