05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skil vel að fram komi fsp. um þetta mál og menn hafi af því áhyggjur sem við höfum heyrt í fréttum upp á síðkastið, að Efnahagsbandalagið stefni að auknum veiðum á Grænlandsmiðum. Að sjálfsögðu hefur verið mjög vandlega með þessu fylgst í gegnum okkar utanrrn., og má segja að við höfum daglega af þessu fréttir.

Mér finnst eðlilegt að menn geri sér grein fyrir því, hverjir okkar hagsmunir eru þarna. Þar er fyrst og fremst um að ræða loðnuna, þorskinn, karfann og rækjuna, og um allt þetta gildir það sama, að þar eru um veruleg hagsmunamát okkar og Grænlendinga að ræða, vil ég segja, sem fara saman. Ákaflega mikil ofveiði hefur verið á Grænlandsmiðum.

Ég nefni t.d. þorskstofninn, sem er talinn tvískiptur: Vestur-Grænlandsþorskur og Austur-Grænlandsþorskur. Af Vestur-Grænlandsþorski, ef ég man rétt, veiddust árlega um 450 þús. lestir á árunum 1950–1968, en árin 1978 er sú veiði komin niður í 45 þús. lestir. Sá hrygningarstofn var talinn vera 250 þús. lestir árið 1971, en 25 þús. lestir árið 1978.

Um Austur-Grænlandsstofninn, sem er miklu minni, vita menn minna, en þar hefur veiði einnig hrunið og af þessari ástæðu hafði Efnahagsbandalagið til þessa ekki gert tillögu um neina veiði á þorski á Grænlandsmiðum nema 3000 lestum sem Grænlendingar sjálfir hafa veitt. Því koma mjög á óvart þær fréttir frá fundi Efnahagsbandalagsins 27. jan. s.l., að Danir hafi fallið frá banni á þorskveiðum við Grænland og fallist á að Vestur-Þjóðverjar fái að veiða 3000 lestir. Það gildir til 10. febr. að vísu og er jafnframt gert ráð fyrir að vísu að afla veiðiheimilda á laxi fyrir Grænlendinga hjá Kanadamönnum í staðinn. Einnig voru samþykktar veiðar á rækju til handa Norðmönnum, sem er kannske ekki eins umdeilt.

Ég sagði áðan að það eru fleiri stofnar, sem um er að ræða. T.d. hefur Efnahagsbandalagið gert till. um 42 þús. lesta veiði á karfa, sem er þrefalt það sem veitt hefur verið á Grænlandsmiðum og þýðir náttúrlega gífurlega ofveiði á karfastofninum á þessu svæði, sem er sameiginlegt svæði karfans hér og á Grænlandsmiðum og við Færeyjar. Slíkt fær því alls ekki staðist.

Loks er það loðnan. Ég vil ekki segja það nema sögusögn enn a.m.k., hugmyndir þessara ríkja að senda verksmiðjuskip á Grænlandsmið og veiða þar loðnu, en það er alvarlegt.

Embættismenn hafa átt fundi með Efnahagsbandalaginu nú upp á síðkastið, og ég verð að lýsa þeirri persónulegu skoðun minni, að þar horfir alls ekki líklega til sátta. Efnahagsbandalagið leggur áherslu á í þeim rammasamningi, sem þar er til umr., að gagnkvæm veiðiréttindi verði tilskilin eða a.m.k. nefnd. Þetta er skilyrði sem við getum ekki tekið í mál, og þarf ég ekki að rekja það hér fyrir hv. þm. á þessum stutta fundartíma.

Fleira er það sem á milli ber þannig að þar horfir mjög illa, og ég er ekki vongóður um að viðunandi samningur geti tekist. Við skulum hins vegar gera okkur fulla grein fyrir hinu, að þá eigum við á hættu að hafa engin tök á t.d. loðnuveiðum Efnahagsbandalagsins, rækjuveiðum og fleiru á þessum miðum. Ekki er því málinu lokið þótt samningar náist ekki nú, langt frá því.

Samskipti okkar við Grænlendinga eru, eins og þm. sagði sjálfur, ákaflega viðkvæmt mál. Það eru Danir sem fara með þeirra utanríkismál, og reyndar Efnahagsbandalagið sem fer með fiskveiðilögsöguna. Grænlendingar ákveða ekki fyrr en 1983 hvort þeir taka þetta í eigin hendur. Að sjálfsögðu hefur ríkisstj. því ekki getað haft formleg samskipti við Grænlendinga. Hins vegar vil ég lýsa því, að persónuleg kynni mín við þá eru t.d. mjög góð. Þeir hafa komið hér í heimsókn. Ég hef kynnst forustumönnum þeirra. Mér er boðið að heimsækja þá í sumar og það mun ég þiggja. Við leggjum því áherslu á að hafa þarna gott samband.

Þeir hafa sjálfir farið fram á að tvö þeirra skipa á rækjuveiðum megi athafna sig í íslenskum höfnum, og ég mun samþykkja það. Til þess er heimild samkv. lögum frá 1922.

Hv. þm. spyr hvort Efnahagsbandalaginu verði boðið að hafa viðgerðaraðstöðu í íslenskum höfnum. Mjög mun verða farið eftir lögunum frá 1922 í því sambandi, ef ætla má að slíkt leiði til einhverrar ofveiði á fiskstofnum á Grænlandsmiðin.