05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

188. mál, langtímaáætlanir um vegagerð

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um till. til þál. sem nú er til umr. Ég vil geta þess, að það er auðvitað rétt sem fram kom í máli hæstv. samgrh., að bundið slitlag er nú um 360 km. Ég tilfærði hér gamla tölu, sem ég hafði gleymt að leiðrétta.

Þessi þáltill. er auðvitað allra góðra gjalda verð og þau markmið, sem þar eru sett, eru auðvitað undirstöðumarkmiðin með vegagerð. Af athugun á þáltill. get ég í sjálfu sér verið sammála markmiðunum, enda held ég að þetta sé allt skipulagt og undirbúið af Vegagerð ríkisins, sem er stofnun sem ég treysti best af opinberum stofnunum og þykist þá tala af reynslu. En ég held þó — eða mér a.m.k. býður í grun — að hæstv. samgrh. eigi nokkurn hlut að máti og það sem lýtur að afturhaldinu í þessari tillögu. Ég er þess fullviss, að vegagerðarmenn hefðum viljað leggja stærra undir. Hér er talað um 2% af vergri þjóðarframleiðslu og meðaltal áranna frá 1964–1980 er 1.88% Hér er verið að tala um — og þess gat hæstv. samgrh. sjálfur — að vegna þess að lægð hefði verið í þessum málum að undanförnu ætti nú að leggja aðeins stærra undir næstu átta árin. Með hverju? Með 0.1 % af þjóðarframleiðslunni til viðbótar. Og ég verð að segja það, án þess að ég ætli að taka neitt stórt upp í mig, að mér hefur fundist hæstv. núv. samgrh. nokkuð daufur um framkvæmdir í þessum málum, og ég marka það aðallega af viðtölum við hann. Hann er nú daglegur gestur í fjölmiðlum og má heita að hann dvelji þar hálfan sólarhringinn orðið. Og í hvert skipti sem verið var að tala við hann um þessi mál stillti hann þeim eiginlega upp þannig að menn yrðu að gá að því, hvaða fé þeir hefðu handa í milli, hvort menn kysu þá að fresta sjúkrahúsum eða skólum eða öðrum menntastofnunum eða þess háttar mikilvægum framkvæmdum. Ég er honum gersamlega ósammála. Ég álít að þetta séu svo arðbærar framkvæmdir að við höfum efni á því að leggja stórt undir og taka mikil lán. Við eigum ekkert arðbærara til þess að ráðast í en vegalagningu með bundnu slitlagi, nema vera skyldi beislun vatnsorkunnar okkar úr iðrum jarðar. Þetta er alveg augljóst mál.

Ég vænti þess, að við meðferð hv. fjvn. á þessari till. gaumgæfi hún mjög þá till. sem 19 þm. Sjálfstfl. hafa borið fram. Og ég legg alveg sérstaka áherslu á að fjvn. sjái sér fært eða taki til alvarlegrar athugunar að leggja meira af mörkum, áætla meira fé til þessara framkvæmda á næstu árum. Þetta er það sem er helsta ósk mín í þessu sambandi. Hér er yfirgnæfandi meirihlutavilji fyrir því á hinu háa Alþingi að ráðist verði í stórframkvæmdir. Við eigum afbragðsvel skipulagða stofnun til þess að annast verkefnin, þótt auðvitað verði að bæta við afl hennar þegar ýtt verður myndarlega úr vör. Þess vegna gildir það hér að hafa skammar signingar, heldur láta hendur standa fram úr ermum.