05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

104. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið flutt á tveim þingum án þess að hljóta afgreiðslu, enda þótt umr. hafi verið jákvæðar. Þar sem hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, sem mikilsvert er að Alþingi taki afstöðu til, er þáltill. endurflutt.

Ég leyfi mér að vitna í kafla úr grg. sem fylgir till.: „Staðreynd er, að það er á ýmsum öðrum sviðum, sem mögulegt ætti að vera að hafa áhrif á innkaup, er varða hag íslensks iðnaðar. Umsvif fjármála ríkis og sveitarfélaga eru mikil í þjóðarbúinu. Auk þess sem útgjöld opinberra aðila hafa bein áhrif á heildareftirspurn í þjóðarbúskapnum, getur markviss beiting þeirra reynst mikilvægt tæki til áhrifa á einstakar atvinnugreinar, ekki síst á hagræna og tæknilega framþróun íslensks iðnaðar.

Innkaupum opinberra aðila má einkum skipta í eftirfarandi flokka, eftir eðli þeirra: rekstrarvörur, þjónustu og fjárfestingarvörur.

Verulegum fjárhæðum er varið á vegum ríkis og sveitarfélaga til kaupa á hinum margvíslegustu rekstrarvörum. Má í því sambandi nefna innanstokksmuni, hreinlætisvörur, pappírsvörur og margvíslegar aðrar rekstrarvörur til skóla, sjúkrahúsa og annarra stofnana. Sama gildir um margvíslega viðhalds- og viðgerðarþjónustu þessara stofnana, svo sem Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu, Skipaútgerðar ríkisins og fjölmargra annarra.

Þeim aðferðum, sem beitt er í opinberum innkaupum, má skipta í bein innkaup, innkaup eftir að fram hefur farið sérstök verðkönnun og loks útboð. Varðandi útboð skal sérstaklega bent á nauðsyn þess, að lengd skilafrests og stærð útboðseininga sé hagað þannig, að innlendir framleiðendur geti boðið í verkin...

Það er ljóst að þjóðarbúskapur okkar verður um ófyrirsjáanlega framtíð háður viðskiptum við önnur lönd. Benda má þó á, að í auknum mæli ber að athuga vandlega, þegar um meiri háttar viðskipti hins opinbera er að ræða við erlenda aðila, sem innlendir framleiðendur ráða ekki við sem heild vegna umfangs verksins og tæknilegra atriða, að farið sé inn á þá braut að semja um að hluti framleiðslunnar fari fram hér innanlands. Auk þess sem slíkt eykur hlut innlendra aðila í innkaupum, gæti slíkt stuðlað mjög að flutningi nýrrar tækniþekkingar inn í landið.

Loks skal bent á þau tækifæri sem opinber innkaup bjóða varðandi nýjungar í framleiðslu og ný iðnaðartækifæti. Íslensk framleiðslufyrirtæki eiga oft erfitt með að takast á við meiri háttar vöruþróunarverkefni, þar sem áhætta er mikil. Víða erlendis hafa stjórnvöld gert sér grein fyrir því, hversu mikilvægu hlutverki opinberir aðilar geta gegnt á þessu sviði, með því að fela fyrirtækjum að leysa ákveðin tæknivandamál varðandi framleiðslunýjungar á þann hátt að greiða fyrir verkefnum samkv. samningi eða tryggja tágmarkssölu framleiðsluafurða. Slíkur stuðningur við nýsköpun er fjarri því að vera eingöngu hagsmunamál fyrirtækjanna sjálfra, heldur þjóðarinnar í heild. Því er nauðsynlegt að hið opinbera stuðli að slíkri starfsemi og geri hana eftirsóknarverða.“

Starfshópur, fulltrúar þriggja rn. á vegum iðnrn., skilaði áliti í febr. 1979 um þetta mál. Gerir hann ýmsar athyglisverðar tillögur um það, hvernig megi vinna að því að auka innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum. Ekki hefur orðið vart við að málið hafi fengið frekari afgreiðslu.

Í efnahagstillögum ríkisstj., sem nú eru í úrvinnslu, eru ýmsar greinar til eflingar atvinnuvegunum, ekki síst að veita iðnaði sömu aðstöðu í fjárfestingar- og afurðalánamálum og sjávarútvegur hefur nú. Einnig er þar lauslega komið inn á opinber innkaup. Það er því orðið mjög svo tímabært að Alþingi marki sér stefnu í þessum málum. Góður áfangi að því marki er samþykkt þessarar tillögu.

Ég vil svo mega vænta þess að lokinni umr.till. verði vísað til atvmn.