05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Raunar kom ekki mjög mikið fram hjá ráðh. nýtt í málinu. Ég hafði vonast til þess, að við fengjum skýrari svör við því, hvað hefði legið á bak við þessa embættisveitingu. Ég tel eftir svör ráðh. að hann gangi út frá öðru en lyfjanefndin og landlæknir vegna þess að lyfjafræðinefndin og landlæknir tala um víðtæka starfsreynslu Freyju í þetta embætti og leggja greinilega til grundvallar hennar fyrri störf, bæði í sambandi við vísinda- og stjórnunarstörf ýmis sem hún hefur unnið, en mér finnst hæstv. ráðh. leggja meiri áherslu á að viðkomandi, sem embættið hlaut, hafi meiri starfsreynslu í apóteki sem slíku. Ég sagði það, að ég tel að verið sé að fara inn á mjög vafasama braut ef slík þekking og reynsla, sem ég lýsti hér áðan að Freyja búi yfir, miðað við sína fyrri reynslu, skuli ekki einmitt vera metin og lögð til grundvallar við slíka embættisveitingu. Það hefur einmitt lyfjafræðinefndin gert og landlæknir, en hæstv. ráðh. virðist ganga út frá öðru.

Eins og ég sagði tel ég að það hljóti að verða í framhaldi af þessu leitað frekari upplýsinga um þetta mál. Ég tel þessu máli varla á nokkurn hátt lokið, og þó ég tali ekki hér fyrir Freyju í þessu efni held ég að hún hljóti að leita réttar síns í þessu máli.

Varðandi embættisveitingu, sem ráðh. minntist hér á, kom ég aðeins inn á hana og taldi að þar væri um svipað mál að ræða og mætti líka skoða það mál. En þegar ég bað um leyfi til að hefja umræður utan dagskrár var mér í hug að ekki væri venja hér að biðja tvo ráðh. að hlýða á það, sem er til umr. utan dagskrár, og svara fyrir það. En auðvitað gæti það komið til mála einnig að fá svör frá hæstv. menntmrh. um þá embættisveitingu sem hann er gagnrýndur fyrir.