05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég veit ekki hver hefur stokkið upp á nef sér í þessum umr., a.m.k. fannst mér síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl., ekki vera ýkjalangt frá því að búa sig til stökks. Hann nefndi síðast að það væri hugsanlega ráð hjá mönnum að safna undirskriftum og láta skora á ráðh. að veita sér embætti. Það er auðvitað algert aukaatriði í þessu máli. Ég vil að það komi mjög skýrt fram af minni hálfu, að ég tel að það sé algert aukaatriði, enda nefndi ég það ekki í þeirri ræðu sem ég flutti áðan. Það getur ekki ráðið úrslitum í svona máli. Það er alveg útilokað.

Þá taldi hann að ég mæti einskis þau störf sem unnin hafa verið í danska innanríkisráðuneytinu, í lyfjamáladeild þess. Það er rangt. Ég met þau mikils. En matið fer þarna fram á því annars vegar, hvert á að vega þyngra embættisverk í rn., í stjórnkerfi, eða reynsla af rekstri í þessari grein. Það er það mat sem þarna fer fram. Það er ekkert verið að vanmeta það sem viðkomandi hefur unnið. Það er ekki verið að kasta því út í hafsauga. Það er verið að leggja dóm á hvað er nauðsynlegra í því ákveðna tilviki sem hér er um að ræða.

Varðandi spurningu hv. 5. þm. Vestf. er þetta að segja: Það, sem ég var að koma inn á í sambandi við jafnréttislögin, var það, að þegar þau voru til umr. hér á Alþingi var flutt till. sem gerði ráð fyrir að það væri beinlínis lagaskylda, þegar karl og kona sæktu um stöðu og stæðu jafnfætis að flestra mati að því er hæfni varðar, að konan ætti að fá stöðuna. Það var flutt tillaga um það. Þessari till. var hafnað, sem þýðir að vilji löggjafans var þá sá að hafna þessari afstöðu. Ef vilji löggjafans hefði hins vegar reynst vera á hinn veginn, að það væri lagaskylda að taka konuna skilyrðislaust fram yfir karlmanninn ef þau væru jafnrétthá að öllu öðru leyti, þá hlaut ráðh. auðvitað að hlíta slíkum lögum því að þá hefðu þau væntanlega gilt um öll mál og allar stöðuveitingar, kennara, lyfsöluleyfi, lækna o.s.frv. Það var þetta sem ég var að reyna að skýra, en ég var orðinn svo knappur með tíma að ég gat ekki farið mjög nákvæmlega út í það áðan.