30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

22. mál, félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 23 hef ég leyft mér ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. að flytja svofellda þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að komið verði á samræmdu skipulagi í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með tilliti til bæði félagslegra og heilsufræðilegra sjónarmiða.

Í því skyni skipi heilbr.- og trmrh. nefnd sem geri tillögur um umbætur og betri skipulagningu allra þátta í heilbrigðis- og félagslegri þjónustu fyrir aldraða, sem gæti auðveldað yfirsýn yfir brýnustu þörf á sjúkrahúsvist, langlegudvöl, heimahjúkrun, heimilisþjónustu og dvalarheimilum fyrir aldraða.“

Eins og fram kemur í grg. var þessi till. flutt á 100. löggjafarþingi, en varð þá ekki útrædd.

Varla fer á milli mála að tveir meginþættir hljóta að vera undirstaðan undir velferð aldraðra, og þjóðfélagið verður að skoða þá sérstaklega þegar við leitum leiða til að búa sem best í haginn fyrir þá, en það eru félagslegu og heilsufarslegu þættirnir. Þótt margt hafi áunnist í þessum þáttum, þá er enn mjög langt í land að aldraðir búi við þá heilsugæslu og ýmsa félagslega þjónustu sem þeim er nauðsynleg.

Hinir félagslegu þættir taka einkum til atvinnumála, lífeyris, húsnæðis og umhverfis hins aldraða, svo og ýmissar félagslegrar þjónustu sem oft er þörf á við aldraða í heimahúsum.

Heilsufarslegir þættir taka svo til ýmiss konar sjúkdóma og heilsuverndar aldraðra, heimilislæknaþjónustu, svo og ýmissa hrörnunarsjúkdóma sem krefjast t.d. ekki sjúkrahúsvistar ef næg félagsleg aðstaða væri fyrir hendi í heimahúsum eða næg dvalarheimili með hjúkrunaraðstöðu, svo og fullkomin göngudeildarstarfsemi.

Þessir tveir þættir, hinn félagslegi og hinn heilsufarslegi, eru oftast samofnir og krefjast samhæfðrar skipulagningar og verða því aldrei leystir farsællega nema til komi sameiginlegt átak þeirra aðila sem að þessum málum starfa. Slíkt samofið heilbrigðis- og félagslegt kerfi fyrir aldraða hlýtur að krefjast góðs skipulags og samræmingar á ýmsum sviðum til að það nýtist sem best í hverju tilfelli fyrir þá sem í brýnustu þörf eru hverju sinni. Og árangur í heilbrigðisþjónustu aldraðra hlýtur að vera undir því kominn, að samtenging og samhæfing allra þátta þessarar þjónustu sé sem mest, auk þess sem það tryggir hagkvæmni í rekstri samhliða bættri þjónustu.

Fram til þessa má segja að heilsugæsla og félagsleg þjónusta hafi verið mjög dreifð og lítið skipulögð. Við höfum t.a.m. yfir tiltölulega miklu vistrými að ráða fyrir aldraða og er það mun meira hlutfallslega hér á landi en í nágrannalöndunum. Þrátt fyrir það eru langir biðlistar á ýmsum þeim þjónustu- og hjúkrunarstofnunum fyrir aldraða, sem við höfum yfir að ráða, og heilbrigðisþjónustu okkar mjög ábótavant á mörgum sviðum. Þessi vandi hefur hér á landi verið að langmestu leyti leystur með rekstri stórra dvalar- og elliheimila. Hafa einkaaðilar komið þessum stofnunum á fót af miklum dugnaði, en þar vantar nána samvinnu við heilbrigðiskerfið og þær félagslegu þjónustumiðstöðvar sem við höfum yfir að ráða, og eru þær því lítið læknisfræðilega tengdar sjúkrahúskerfinu í heild, auk þess sem heimahjúkrun og heimilisþjónusta aldraðra er einnig verulega úr tengslum við heilbrigðiskerfið.

Samræming í heilbrigðis- og félagslegri þjónustu við aldraða gæti t.a.m. gerst á þann hátt að koma á samræmdri öldrunarþjónustu. Í því skyni yrði komið á fót þjónustumiðstöð fyrir aldraða þar sem þungamiðjan yrði að efla þjónustu utan heilbrigðisstofnana, svo sem með stóraukinni heimilisþjónustu og heimahjúkrun, til að aldraðir gætu dvalist sem lengst í heimahúsum, auk þess sem þjónustumiðstöðin hefði á hendi sérfræðilegt mat þegar um innlögn á heilbrigðisstofnun væri að ræða. Með slíku fyrirkomulagi fengist heildaryfirsýn yfir þjónustuþörf bæði á stofnunum og í heimahúsum, og á því væri hægt að byggja áætlanir næstu ára um alla þjónustuþörf fyrir aldraða bæði heilsufarslega og félagslega. Verði ekki stefnt að slíku fyrirkomulagi, þá verður öll uppbygging öldrunarþjónustu handahófskennd og ekki síst óhagkvæm og harla ólíklegt að hún verði í samræmi við óskir og þarfir aldraðra.

Ekki er úr vegi í þessu sambandi að líta á alla þá þætti sem tengjast öldrunarþjónustu, sem eru margvíslegir og oft samofnir, til að sjá að góð samvinna félagslegrar þjónustu og heilsugæslu hlýtur að vera ein af grundvallarforsendum árangursríkrar öldrunarþjónustu. Má þar nefna öldrunarþjónustu í formi skammtíma innlagnar á öldrunardeild, sem í felst endurhæfing hvers konar svo og nauðsynleg lyfjameðferð, göngudeildarstarfsemi, dagspítala þar sem sjúklingar koma nokkra tíma á dag tvisvar til þrisvar í viku og fá læknisfræðilegt eftirlit og endurhæfingu, lengri sjúkrahúsvist, heimahjúkrun, heimilisþjónustu svo og langlegudvöl, auk margs konar tengdrar félagslegrar þjónustu við heilsugæslu og aðbúnað aldraðra.

Í nágrannalöndum okkar, t.d. Bretlandi, hefur meginþunginn verið lagður á fjölþætta þjónustu við aldraða og sjúka í heimahúsum, sem minnkar þörfina fyrir vistrými. Ég tel að okkur beri að stefna að því sama hér, því að vandamál öldrunarsjúklinga má oft leysa ef til væri vel skipulögð heimahjúkrun eða öldrunardeildir, sem tækju aldraða sjúklinga til skammtímadvalar til endurhæfingar til að viðhalda sjálfsbjargargetu sjúklingsins. Þannig væri kleift að auka möguleika aldraðra til að dveljast sem lengst í heimahúsum með því að færa eins mikinn hluta þjónustunnar inn á heimili sjúklinganna og kostur er. Lélegt skipulag öldrunarþjónustu kallar vissulega á mikla vistrýmisþörf, en vel skipulögð öldrunarþjónusta minnkar hana og gefur öldruðu fólki aukna möguleika til að dveljast sem lengst í heimahúsum. Slíkt fyrirkomulag er tvímætalaust mun kostnaðarminna og hagkvæmra auk þess, sem er þungamiðjan, að með því munum við koma til móts við óskir og þarfir aldraðra.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til allshn.