05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

186. mál, einangrun húsa

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þó að þáttill. hv. 3. þm. Suðurl. um hagnýtingu innlendra byggingarefna sé ekki tengur á dagskrá vil ég eigi að síður lýsa eindregnum stuðningi mínum við þá þáltill.

Ég hef ekki miklu við ræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill. að bæta. Hann talar réttilega um tregðu varðandi allar breytingar, og það er ekki ofmælt. Byggingariðnaðurinn er í eðli sínu afskaplega íhaldssamur og allar nýjungar og breytingar eiga mjög erfitt uppdráttar. Koma þar m.a. til raunverulegir eða ímyndaðir hagsmunir hinna ýmsu stétta í byggingariðnaði.

Það er mjög margt sem mælir með því, að sá háttur verði upp tekinn í stórum stíl að einangra húsin að utanverðu. M.a. má geta þess, að hitaþensla og sprungur í burðarveggjum minnka verulega, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Hitunarkostnaður lækkar verulega vegna þess að kuldaskil við gólf og loftplötur hverfa og sama er að segja um steypta milliveggi sem tengjast útveggjum. Alkalískemmdir burðarveggja hverfa. Innanhúshiti verður miklu jafnari en ella. Þar við má svo bæta og undirstrika það sem kom fram hjá hv. 1. flm. þáltill., að miklu minna tjón og miklu minni hætta stafar af eldsvoðum. Er þar um að ræða að gas, klórgas, sem myndast við bruna á plasti og getur verið hættulegt fyrir slökkviliðsmenn og þá sem inni í húsinu kunna að vera, myndast ekki. Í öðru lagi eyðileggst einangrunin ekki því að hún er utan við. Það er því miklu ódýrara að byggja húsin upp aftur.

Margt fleira mætti til tína. En ég vil þó ekki steppa því, að húsin verða talsvert ódýrari. Það hefur verið reiknað út að 200 m2 einbýlishús mundi verða um 12 millj. kr. ódýrara í byggingu. Að vísu munar ekki eins miklu þegar um er að ræða sambýlishús eða raðhús. Eigi að síður er þarna um verulegan sparnað að ræða.

Þáltill. gengur út á það, að fram fari rækileg könnun á þessu við íslenskar aðstæður. Í reynd liggja fyrir kannanir og niðurstöður á þessu, en það vantar stimpil opinberra stofnana. Þær verða að setja sig inn í málið og leggja á það sinn hlutlausa dóm. Það fer oft eins fyrir þeim og ýmsum öðrum í byggingariðnaðinum, að íhaldssemin er afskaplega mikið ráðandi þar líka. Menn eru hræddir við allar breytingar. Hér eru mjög miklir hagsmunir í veði og því þjóðhagslega nauðsynlegt að finna hagkvæmustu lausn þessara mála.