09.02.1981
Efri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Viðskrn. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um þetta frv., sem hér er til umr., og drepa á þau meginatriði sem í því felast.

Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að það verði teknir upp nýir innlánsreikningar er beri fulla verðtryggingu eftir lánskjaravísitölu og 1% ársvexti. — Mér finnst frv. vera dálítið seint á ferðinni vegna þess að í meginatriðum er raunverulega búið að lögfesta þetta. Þetta er í öllum meginatriðum lögfest. (Gripið fram í.) Það var lagt fram hér á sínum tíma, ég man vel eftir því, en það er nokkuð seint á ferðinni sem frv. því að í brbl. ríkisstj. frá því á gamlársdag er í raun og veru verið að lögfesta svo að segja nákvæmlega það innihald sem felst í þessu öðru meginatriði þessa frv. Það er gert ráð fyrir samkv. frv. að það verði teknir upp nýir innlánsreikningar er beri fulla verðtryggingu. Það er gert ráð fyrir því í brbl. ríkisstj. að stofna skuli til verðtryggðra sparifjárreikninga í bönkum og sparisjóðum þar sem binda má fé til sex mánaða. Það hefur ekki enn þá verið auglýst hvort þessir reikningar eiga að bera vexti, en ég geri ráð fyrir að svo verði. Þegar þetta tvennt er borið saman er því nánast um það sama að ræða. Útfærslan er dálítið ólík en efnislega er nánast um það sama að ræða, þannig að engin ástæða er til að flytja langa og ítarlega ræðu og skamma ríkisstj. út af þessu atriði. Það er ekki svo mikill munur á brbl.ákvæðinu um verðtryggða sparifjárreikninga og ákvæði þessa frv. um slíka reikninga að það gefi tilefni til að hefja neinar sérstakar skammaræður um ríkisstj. út af því.

Þegar rætt er um vaxtamál er að sjálfsögðu ekki hægt að taka út úr því máli einn og einn lið. Á sama tíma sem verið er að fjalla um innlán verður auðvitað að fjalla um útlánin á þann hátt að þetta standist nokkurn veginn á. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Kjartan Jóhannsson og ég séum sammála um að í öllum megindráttum þurfi bankakerfið að bera sig. Það vill nú svo vel til að á síðasta ári var staða bankakerfisins í raun og veru mjög hagstæð. Það hafa að vísu ekki verið birtir reikningar bankanna, en það liggja algerlega fyrir niðurstöðurnar. Niðurstaðan í bankakerfinu á síðasta ári er tiltölulega mjög hagstæð. Það er gott vegna þess að það gefur nokkurt svigrúm til athafna í þessum málum. Þær ættu að geta orðið hagstæðar einmitt þeim sem eiga erfitt í sambandi við lánamálin.

Hitt meginatriðið, sem þetta frv. fjallar um, er varðandi vandamál húsbyggjenda. Ég er sammála flm. um að þar er vissulega á ferðinni vandamál sem þarf að taka á, enda er gert ráð fyrir því í efnahagsáætlun ríkisstj., að vegna íbúðabygginga og kaupa skuli stefnt að því að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í föst lán til lengri tíma. Vinna í þessu efni er hafin. Það er verið að kanna hversu stórt þetta vandamál er í bankakerfinu. Það er nú fyrst og fremst í bankakerfinu sem um er að ræða skammtímalán og lausaskuldir húsbyggjenda. Það liggur ekki alveg á lausu að gera sér fulla grein fyrir því, hversu stórt þetta mál er, vegna þess að sami maður tekur skammtímalán til fleira en húsbyggingar, hann tekur lán til bílakaupa, hann tekur lán til eigin þarfa í ýmsum greinum. Þannig þarf verulega athugun á þessu máli til að gera sér fulla grein fyrir því, hversu stórt vandamálið er, en þarna er annað meginatriði frv.

Það eru ekki enn þá komnar fram tillögur eða ákvarðanir af hálfu ríkisstj. og stuðningsliðs stjórnarinnar um hvernig taka skuli á þessu máti. En það er vissulega verið að fjalla um það. Það er verið að fjalla um vandamál húsbyggjenda-þessi stóru vandamál sem ég vil segja að verðbólgan hafi fyrst og fremst skapað á undanförnum árum.

Þetta vildi ég láta koma fram þegar verið er að ræða um þetta frv., að tvö meginatriði þess eru einmitt í meðferð hjá ríkisstj. Annað atriðið er þegar lögfest í öllum aðalatriðum eins, hitt atriðið er í meðferð hjá ríkisstj. Að því leyti til má telja að þetta frv. sé athyglisvert, og ég get vel tekið undir það með hv. flm. þess. — En ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að mér fannst hv. 1. flm. málsins gera fullmikið að því að skamma ríkisstj. í ræðu sinni um þetta mál. Nú getur hann gagnrýnt ríkisstj. og skammað hana í ýmsum málum. (KJ: Ætlar þú að senda mér lista?) Ég held að þess þurfi ekki. Ég held að hv. þm. kunni alveg stafrófið í því efni. — En þau atriði, sem um er að ræða í þessu frv., tel ég ekki þess eðlis að það sé ástæða til að flytja mikla skammaræðu yfir ríkisstj. þess vegna.