09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

103. mál, orlof

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Engar sérstakar þakkir færi ég hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir að lýsa því yfir, að hann ætli að vera svo þinglegur að greiða atkvæði með því að málið fari til nefndar. Ég held að yfirleitt sé lítið svo á, að það sé í raun og veru skylda að mál fái þinglega meðferð, hvort sem einstakur þm. — í þessu tilfelli hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson — er andvígur máli eða ekki. En ég skal ekki tala meira um það.

Það eru örfá atriði, sem hafa komið fram í ræðum manna vegna þessa máls, sem mér finnst ástæða til að fara um nokkrum orðum. Flestir þeir, sem hér hafa talað varðandi þá breytingu sem hér er lögð til, hafa talað um hana sem mjög varasama. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson var hvað harðastur í þeirri viðvörun þeirra hv. þm. sem um málið hafa fjallað hér. En við hverju er verið að vara? Við hverju eru þessir hv. þm. að vara? Þeir eru að vara við því, að sams konar vald og nú er hjá Póstgíróstofunni verði fært til annarra aðila ef samkomulag verður gert um það. Menn hafa hér talað um það, og ég held að það hafi verið hæstv. félmrh. sem sagði eitthvað á þá leið, sem er rétt t.d. varðandi innheimtuaðila, að ekki þurfi að breyta lögum. Það er hægt með reglugerðarbreytingu að breyta þeirri framkvæmd, sem verið hefur á þessum málum, í það sem við hér leggjum til varðandi innheimtuaðilana.

Menn hafa líka í umr. talað um að það mundi verða meiri vafi á því, hvort orlofsféð yrði greitt inn þannig að orlofsþegi fengi í raun og veru það orlof sem honum ber.

Í þessu gætir, held ég, mikils misskilnings hjá þm. Meira að segja hv. þm. Magnús H. Magnússon, sá góði og greindi þm., hefur misskilið þetta, því að í frv, er gert ráð fyrir að verði af slíku samkomulagi milli verkalýðsfélags og vinnuveitenda innifeli slíkt samkomulag nákvæmlega sömu ábyrgð, sem viðkomandi peningastofnun tekur á sig, og Póstgíróstofan ber nú. Þetta er beinlínis lagt til í frvgr. á þskj. 114. Það er nákvæmlega sama ábyrgð sem þær fjármálastofnanir, sem koma til með að gera þetta ef af því verður, eiga að bera og Póstgíróstofan ber nú. Lögum samkvæmt yrði það, ef þessi breyting yrði gerð á orlofslögunum, þannig að það þarf ekki að óttast vanskil. Þetta yrði alveg á hreinu ef breytt yrði í þá átt sem við leggjum hér til.

Það er líka rétt sem hæstv. félmrh. vék að í umr. fyrr, að það þarf enga lagabreytingu til að hækka vexti. Hvort tveggja þetta er auðvitað hægt að gera með breytingu á reglugerð. Nú er það eigi að síður staðreynd, og það hygg ég að hæstv. félmrh. sé líka ljóst, að það er í nokkuð mörgum tilfellum sem féð er greitt núna inn í bankastofnanir á hinum ýmsu stöðum, inn á bankabækur, bundnar um tiltekinn tíma, og þetta hefur verið gert nokkuð lengi. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh.: Telur hann ekki að þetta sé brot á orlofslögunum — eða er þetta heimilt samkvæmt gildandi orlofslögum? (Gripið fram í : Þarf þm. að spyrja um þetta?) Ég hef sjálfur talið að þetta væri brot, en eigi að síður hefur sú ágæta stofnun, sem menn hér keppast við hver um annan þveran að hæla, ekkert haft við þetta að athuga. Þetta hefur gerst. Ég sé ekki að það séu nein sérstök meðmæli með þessari stofnun ef hún lætur það viðgangast í æ ríkari mæli að orlofslögin séu brotin og innheimtuaðgerðir séu með þessum hætti.

Ég held sem sagt, og það er skoðun flm. þessa frv., að hér sé um það að ræða að færa miðstýringuna frá Reykjavík í hendur landsbyggðarinnar, verkalýðsfélaganna, vinnuveitenda á hinum ýmsu stöðum, ef þeir aðilar óska eftir því og koma sér saman um að framkvæma þetta, eins og þeim ber skylda til, á nákvæmlega sama hátt og Póstgíróstofan gerir nú. Þetta er sem sagt einn anginn af byggðastefnu sem á engan hátt á, ef farið yrði eftir þeirri breytingu sem hér er lögð til, að koma niður á orlofsþegum. Þeirra hlutur er tryggður samkvæmt breytingunni, sem við leggjum til, á sama hátt og nú er samkvæmt póstgírókerfinu. Hér er því um íhaldssaman nöldurtón að ræða út af þessari breytingu. Menn, sem tala gegn því að breyta í þessa átt, eru andsnúnir byggðastefnunni að þessu leyti. Þeir hallast að íhaldssjónarmiðum um of og vilja hnýta allt saman með miðstýringu héðan frá Reykjavík. Þetta eru höfuðrökin og höfuðástæðurnar fyrir því að menn tala gegn breytingunni sem í frv. felst.

Hitt er svo annað mál, að menn hafa ekki þá hreinskilni til að bera, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að vera alfarið andvígir þessu. Hann veit að málið er vinsælt og hann ætlar að nota sömu aðferð og hér hefur verið notuð í tvö skipti áður: hleypa málinu til nefndar en drepa það þar. Þetta er mergur málsins. Menn hafa ekki þann kjark að snúast gegn málinu hreinlega. Þeir tala í viðvörunar- og kennimannlegum tón, vara menn við, en í raun og veru eru þeir að stefna beinlínis að því í þriðja skiptið að málið verði drepið. Ég sé ekki hvað mælir gegn máli þessu. Ég er alveg undrandi á því, að það skuli vera einn af forvígismönnum verkalýðshreyfingarinnar sem mælir gegn því, að réttur hinna einstöku verkalýðsfélaga sé aukinn í þessu tilliti ef þau sjálf óska eftir því. Nú er alveg ljóst, að ef peningastofnanir á hinum ýmsu stöðum gangast ekki undir sömu skuldbindingar og Póstgíróstofan gerir nú fá þeir ekki að annast innheimtu og ávöxtun fjárins. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins ekki heimild til að láta þá innheimta það. Ég er undrandi á að forustumenn í verkalýðshreyfingunni skuli vera svo þröngsýnir að neita þessum aðilum um það, ef þeir telja sjálfir að þeir geti komið þessum málum fyrir með skynsamlegri hætti, en ekki síðri árangri.

Ég er sammála hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni um að meginmarkmiðið er að tryggja að orlofsþegi fái orlofsfé sitt á réttum tíma. Það er meginmarkmiðið.Við teljum að með þeirri breytingu, sem við hér leggjum til, væri líklega meiri trygging fyrir því og orlofsféð mundi skila sér betur til viðkomandi aðila, þ.e. hann gæti ávaxtað fé sitt á hærri vöxtum en verið hafa og allar líkur benda til að kunni að verða í gegnum póstgírókerfið. En auðvitað verður að vera tryggt að þær stofnanir, sem þetta taka að sér, skili fénu til réttra aðila. Það er tryggt samkvæmt þeirri breytingu sem við leggjum til.

Ég vísa því alfarið á bug, að breyting í þessa átt sé meira en lítið varasöm. Með breytingu af þessu tagi er tryggt að launþegar fá orlof sitt ekki síður, ekki minna, heldur meira en þeir fá gegnum núverandi kerfi. Ef mönnum finnst að breyting á lögunum í þessa átt sé ærið hæpin, vilja heldur fara reglugerðarleiðina, eins og mér skildist að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson vildi, er hægt með breytingu á reglugerð að heimila þessum aðilum innheimtuna eftir samkomulagi og skylda menn til að ávaxta upphæðirnar á þeim stað sem féð er greitt. Mér skildist ekki betur á þingmanninum en að þetta væri hægt að gera og þetta ætti í raun og veru að gera.

Hann taldi að við stæðum höllum fótum, við hv. þm. Páll Pétursson, vegna þess að skuldir kynnu að vera í okkar kjördæmum vegna orlofsgreiðslna. Það styrkir kannske frekar það, að hér sé ekki harla góð innheimta og ástæða væri til að gera breytingu á innheimtunni til að ná frekar inn því fjármagni sem er útistandandi. Ég er ekki í neinum vafa um það t.d. að því er varðar Vestfirði, að verkalýðsfélögin og vinnuveitendur, ef þau óskuðu eftir slíkri breytingu og færu í það, mundu sjá um að innheimtan yrði framkvæmd. Ég held því að sú andstaða, sem er í undirdjúpunum gegn þessari breytingu, sé fyrst og fremst vegna þess að menn vilja halda áfram miðstýringunni héðan úr Reykjavík og ekki láta neitt af hendi, sem löggjafinn hefur fengið þeim í hendur, við landsbyggðina og láta menn þar taka við, eftir því sem þeir vilja hér syðra. Það er undirtónninn í því andófi sem mér virðist vera gegn þessari breytingu. En ég held að það væri til hins betra að breyta í þessa átt, og eitt skulu menn gera sér ljóst: Engin breyting frá því, sem nú er, verður nema því aðeins að þær peningastofnanir, sem um er að ræða og hugsanlega tækju þetta að sér, gegni nákvæmlega sömu ábyrgð og skyldu og Póstgíróstofan gerir nú.

Þess var getið, að nefnd hafi verið kosin til að skoða þessi mál. Það er út af fyrir sig rétt. Það hefur verið gert. En ég sé ekki að slík nefnd þurfi um þetta að fjalla. Hér er einvörðungu um það að ræða, hvort löggjafinn vill breyta í þá átt að verða við óskum sem kynnu að koma fram frá aðilum heima fyrir um þessa breytingu.

Mér kemur það að vísu ekki á óvart, að fyrst og fremst sýnist mér það vera fulltrúar Alþb. sem tala gegn þessu frv. og andmæla. En um leið og menn andmæla þessu eru menn að andmæla aukinni byggðastefnu og auknum réttindum til handa þeim sem búa úti á landsbyggðinni. Út af fyrir sig mega menn hafa þá skoðun. En það er eftirtektarvert að það hljóð kemur fyrst og fremst úr röðum þeirra Alþb.-manna. Ég trúi því ekki, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, beiti sér gegn því að verða við eindregnum óskum allmargra verkalýðsfélaga innan Verkamannasambandsins um að þau fái rétt til að semja um þetta ef þau óska þess sjálf. Slíkar óskir hafa komið fram og liggja fyrir. (GJG . Sambandið verður að hugsa um alla félaga.)

Með þessari afstöðu er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ekki að hugsa um alla. Hann er fyrst og fremst að hugsa um þá sem hann telur að geti tryggt sér stöðuna sem hann er í, fjölmennið hér á Reykjavíkurhringnum. Það er tilgangurinn. Ef hann hefur þessa afstöðu áfram er hann ekki að hugsa um alla innan Verkamannasambandsins. Litlu félögin er hann ekki að hugsa um með þessu. Það er síður en svo.

Ég skal ekki ræða þetta frekar, en ég við taka undir það sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði um það misrétti sem í raun og veru er varðandi orlofsfé, annars vegar borið saman við föstu starfsmennina og hins vegar þá sem fá orlofsgreiðslur. Það er auðvitað óréttlæti sem löngu hefði átt að vera búið að afnema og vonandi stefnir í þá átt. En það er nokkuð sem m.a. og ekki síst Verkamannasambandið og launþegahreyfingin sem slík hlýtur að verða að beita sér fyrir í frekari mæli.

Að síðustu: Ég vildi gjarnan fá að heyra í hæstv. félmrh. um viðhorf hans til þessa, hvort hann vill breyta reglugerðinni í þá átt, að féð sé ávaxtað á hinum ýmsu stöðum þar sem það er borgað inn. Það væri út af fyrir sig verulegur áfangi í þessu máli og ætti ekki að vera harla erfitt fyrir þm. almennt að fallast á slíkt. Ég spyr hæstv. ráðh. um hvort hann telji það ekki skýlaust brot á orlofslögunum, eins og þau eru framkvæmd á þó nokkrum stöðum í landinu, að borga orlof inn á bankabækur ekki í gegnum póstgíró.

Nú ætti ég auðvitað ekki að vera að taka þetta mál upp hér, því að þetta er í raun og veru sú stefna sem ég vil að verði viðhöfð. En meðan lög eru í landinu á auðvitað að virða þau. En þetta sýnir bara það viðhorf, bæði verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, að þau lög, sem nú gilda að því er þetta varðar, eru óeðlileg og það er ósk um að þeim verði breytt í þennan farveg. Mér er ekki um það kunnugt — kannske veit hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þess dæmi — að orlofsþegar á þessum stöðum, þar sem þetta hefur verið viðhaft, hafi orðið af orlofsfé vegna þessa fyrirkomulags. Ég held að það sé alveg ljóst, að ekki er síður hægt í smærri einingum að fylgjast með að innheimta sé í lagi en í hinum stóru heildum. Það höfum við ótalmörg dæmi um, að hægara er að sjá um innheimtu á tiltölulega litlu, afmörkuðu svæði en öllu landinu.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson minnti á stjórnarsáttmálann, á hækkaða vexti. Það má núv. hæstv. félmrh. eiga, að þessir vextir voru hækkaðir verulega á síðasta ári. Ég vænti þess, að áfram verði haldið á þeirri braut og þrátt fyrir að forustumenn Alþb. vilji ekki fallast á þessa breytingu okkar að því er lögin sjálf varðar verði þó haldið áfram að hækka vexti á orlofsfé þannig að ekki verði lengur haft meira fé af launþegum að því er þetta varðar en gert hefur verið á undanförnum árum.