10.02.1981
Sameinað þing: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

373. mál, málefni hreyfihamlaðra

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans í þessu máli. Út af fyrir sig er ég ánægður með það sem þar kom fram, enda hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með því í gegnum Alfanefndina. Samt sem áður vil ég leggja áherslu á að það skiptir mjög miklu máli að gengið sé að því með opnum huga að ná árangri í fyrstu lotu sem fólkið, sem þarna um ræðir, bíður eftir, og þá þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að útvega opinbert fjármagn.

Það mætti margt ræða varðandi þetta mál. Ég verð að segja það, að mér fannst t.d. ekki stórt hugsað hjá stjórnendum Reykjavíkurborgar í svari þeirra til Alfanefndar þegar aðeins er talin ástæða til að taka eina byggingu hér í borg, þ.e. Laugardalshöll, til meðferðar á árinu 1981 sem sérstakt átak frá hendi borgaryfirvalda til þess að gera húsnæði þannig úr garði, að fatlað fólk komist þar leiðar sinnar eða geti haft not af því sem þar fer fram. Það mætti tala um ríkisstofnanir, t.d. söguna um Þjóðminjasafnið sem ég ætla ekki að rekja hér einu sinni enn. Allt eru þetta dæmi um það, að það er sofið á verðinum um það að gera breytingar sem væri e.t.v. hægt að gera án þess að til þess þurfi gífurlegt fjármagn. Við höfum rekið okkur á það hér t.d. innan borgarinnar og eins víða úti um landið, að í nýjum byggingum, sem verið er að taka í notkun — eftir að ný reglugerð um skipulagsmál hefur verið staðfest, sem hefur að geyma sérstök ákvæði til þess að tryggja það að húsnæði sé þannig útbúið að fatlað fólk eigi þar greiðan aðgang — hefur jafnvel gleymst að gera fötluðu fólki kleift að komast á snyrtingu. Víða eru svo þröngar dyr á snyrtiherbergjum að hjólastólar komast ekki inn, hvað þá að þar séu þau snyrtitæki sem þetta fólk þarf við að búa.

Ýmsar lagfæringar er hægt að gera án þess að þær kosti mikið fjármagn, og ég minni á, miðað við fengna reynslu í dag, að það virðist þurfa að leggja sterka áherslu á að þeir sem eiga að sjá um hönnun og framkvæmdir við slíkt húsnæði, — skilji það, að hér er um mál að ræða sem verður að taka á í alvöru. Enn eru margir arkitektar, verkfræðingar og hönnuðir bygginga ekki farnir að átta sig á því, að gert er ráð fyrir í lögum og reglugerðum að fatlað fólk fái aðgang að venjulegu húsnæði eins og heilbrigt fólk.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég treysti því, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. átti sig á því, að þetta mál hefur margar hliðar. Það er mjög brýnt að allt verði gert sem hægt er til að tryggja fjármagn til þeirra nauðsynlegu framkvæmda sem um er að ræða. Það var alveg hárrétt hjá hæstv. ráðh., að fjvn. samþykkti ósk Alfanefndarinnar um fjárveitingu. En það fé er fyrst og fremst ætlað til að fjármagna það mikla starf sem gert er ráð fyrir að nefndin inni af höndum hér á landi á þessu ári. Það er ekki ætlast til þess, að það fjármagn fari sérstaklega til þess að lagfæra opinberar byggingar. En ég vona að allir hv. alþm. séu sammála um að leggjast á eitt um að ná árangri á þessu sviði og það strax á þessu ári.