10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason, 3. landsk. þm., spurðist fyrir um það, hvernig ætti að fara að því að lækka vexti án þess að bankakerfið færi á höfuðið. Ég er nú ekki í stakk búinn til að svara þessari spurningu með tölum. Það liggur ekki enn þá fyrir uppgjör ríkisbankanna eða bankakerfisins í heild á þessu ári, en þó liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að sýna að afkoma bankanna er sæmilega góð og greiðslustaða þeirra hefur batnað talsvert verulega gagnvart Seðlabankanum. Það er því alveg ljóst að þarna er um að ræða nokkurt svigrúm, en ég skal ekki um það segja á þessu stigi, hve mikið það er, vegna þess að endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir.

Það liggja ekki fyrir neinar tillögur enn þá um vaxtaákvarðanir 1. mars. Það, sem stendur í efnahagsáætlun ríkisstj., er að stefnt skuli að því að lækka vexti þá, en það er ekki mögulegt að gera sér grein fyrir þessum málum fyrr en búið er gera úttekt á afkomu bankakerfisins til hlítar. Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er ekki hægt að haga vaxtastefnunni á þá leið að bankakerfið standi ekki undir sér. Ef vextir eru lækkaðir þarf að sjálfsögðu að gera tilsvarandi ráðstafanir á hinni hliðinni, þannig að útkoman verði á þá lund að bankakerfið standi undir sér. Það er auðvitað grundvallaratriði. Engum manni dettur í hug að fara að ákveða vaxtamálin á þann veg að allt fari um þverbak. Það er alveg ljóst mál og hefur aldrei vakað fyrir ríkisstj. að gera það. Það er eitthvert svigrúm til, það er alveg ljóst, en hversu mikið liggur ekki endanlega fyrir. En á næstu vikum kemur að sjálfsögðu í ljós hver endanleg útkoma bankakerfisins hefur verið á s.l. ári og hvernig þeir eru í stakk búnir til þess að taka við viðbótarbyrðum.

Varðandi það mál, sem hér liggur fyrir, þá er ljóst að það gengur í raun og veru mjög í sömu átt og þær ráðstafanir sem ríkisstj. vinnur nú að. (Gripið fram í.) Jú, það gerir það, en það kallar þá að sjálfsögðu á ráðstafanir á móti til þess að standa undir því hjá bankakerfinu. Það er ekki nægilegt að gagnrýna ríkisstj. í öðru orðinu fyrir það, að hún sé að gera ráðstafanir sem bankakerfið geti ekki staðið undir, og gera svo aftur till. — eins og hér er verið að gera — sem ganga lengra í þá átt en þær ákvarðanir, sem ríkisstj. hefur þegar tekið, og tillögur sem eru til meðferðar. Auðvitað hljóta menn að vera sammála um það meginatriði, að bankakerfið verður að bera sig, ef svo mætti komast að orði.

Við ræddum dálítið um þetta fram og til baka hér í gær, ég og hv. þm. Kjartan Jóhannsson, og vorum að bera saman þessa tillögu og ákvæði brbl. frá því um áramótin. Á því er nokkur munur og þarf ekki að fara um það mörgum orðum, það liggur alveg á ljósu. En þó er eitt alveg ljóst samkv. tillögum þessa frv., en þar segir að innstæður á reikningum þessum skuli því aðeins verðtryggðar að fullu að þær liggi óhreyfðar í þrjá mánuði, þannig að þar er a.m.k. um óbeina bindingu að ræða þegar þannig er komist að orði. Ég skal ekkert um það segja, hvort bankakerfið þolir að lagðar séu á það slíkar kvaðir án þess að það komi verulegar hækkanir á móti.

Þá reka menn sig að sjálfsögðu á annað vandamál sem þýðir ekkert að loka augunum fyrir, þó að menn viðurkenni röksemdir raunvaxta. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, eins og sakir standa, að ef vextir hefðu t.d. verið hækkaðir um 10% núna um áramótin hefði það velt atvinnulífi landsmanna á hausinn á nokkrum vikum. Það er alveg ljóst. Atvinnulífið hefði ekki með neinu móti þolað slíka viðbótarbyrði eins og ástatt er. Það hefði þá þurft að gera margháttaðar aðrar ráðstafanir til þess að gera atvinnulífinu kleift að standa undir slíkum viðbótarbyrðum.

Í raun og veru eru menn í algerri sjálfheldu í vaxtamálum. Annars vegar eru góð og gild rök þess eðlis, að peningar eigi að skila raunvöxtum af sér. Hins vegar eru þau sjónarmið atvinnurekstrarins að þola ekki hinn mikla fjármagnskostnað. Og þá er auðvitað spurningin: Hver er leiðin út úr þessum málum? Er leiðin sú að hækka vextina og setja atvinnulífið á hausinn? Hverjir eiga þá að borga vexti? Hver stendur undir vöxtum í þjóðfélaginu ef það er ekki atvinnulífið? Leiðin út úr þessum málum er náttúrlega augljós, en hún er ekkert auðveld. Hún er auðvitað sú að lækka verðbólguna. Með því eina móti sýnist mér að menn fái bjargað sér úr þessari háskalegu sjálfheldu.

Ég treysti mér ekki til að svara hv. þm. gleggra en þetta, að það er nokkurt svigrúm í bankakerfinu til að leggja frekari byrðar á bankakerfið, en hversu mikið það er þori ég ekki um að dæma og ekki heldur hitt, hvað langt er hægt að ganga í því að lækka vexti eins og sakir standa.