10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér undir þessum umræðum, hvort ríkisstj. hafi verið í annarlegu ástandi þegar hún tók ákvörðun um þær aðgerðir sem boðaðar voru samhliða áramótaskaupinu, vegna þess að henni er alls ekki ljóst hvernig hún á að framkvæma það sem hún er að boða. Þó er eitt ljóst, að hún hefur fullan hug á að lækka kaup alþýðu í landinu. Annað er ekki ákveðið. Og þegar vísað er til skoðanakannana, sem birtar eru eftir þessa boðun á aðgerðum, þá er rétt að hafa það í huga, að fólk er ekki farið að finna fyrir því, hvað verður gert og hvernig það verður gert. Sannleikurinn er sá, að það á eftir að koma í ljós hvernig við þetta verður staðið. Eitt er þó ljóst, að kaupið verður lækkað.

Mér fannst áðan sem ég fengi ekki nægilega skýr svör hjá hæstv. ráðh. Það er boðað að lækka skuli vexti í marsmánuði. Þeir vita ekkert hvernig á að fara að þessu, bókstaflega ekkert. Þegar spurt er hvort þeir viti eitthvað um hvernig eigi að gera þetta, þá er það byggt á einhverjum ótilgreindum vonum sem erfitt er að átta sig á.

Í 3. gr. frv. til laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu segir: „Stofna skal til verðtryggðra sparifjárreikninga í bönkum og sparisjóðum, þar sem binda má fé til sex mánaða.“ Það var tilkynnt í gær, að þetta yrði að veruleika, en tillögur um þetta hafa vafalaust borist frá Seðlabankanum, og jafnframt hafa auðvitað borist tillögur um hvernig fara eigi með útlán. Það væri mjög fróðlegt að vita hvernig með þau verður farið. Því spyr ég nú: Hverjar eru tillögur Seðlabankans varðandi útlánastefnuna? Og ef verðtryggja á lán að sama skapi auk vaxta, hvað verður það mikið? Verður það í rauninni ekki meira en þau 10% sem talað var um að samþykkja áðan? Ég endurtek að það er mikil nauðsyn fyrir sparifjáreigendur, íbúðabyggjendur og íbúðakaupendur að frv. okkar verði samþykkt. Það er eina raunhæfa leiðin til að hjálpa því fólki sem nú er í verulegum greiðsluvandræðum. Ég hef aflað mér upplýsinga um, að það er líklegt að 1200 íbúðir verði undir hamrinum nú á næstunni, svo að mikil nauðsyn er á að bæta hér úr.

Þegar við Alþfl.-menn lögðum til að vextir yrðu í einhverju samræmi við verðbólguna, þá átti það að vera þáttur í því að lækka verðbólguna. Við ætluðum okkur að berjast gegn verðbólgunni. Og það er aumt til þess að vita, að sá samstarfsflokkur, sem hvað harðast hefur gagnrýnt þessa stefnu, samþykkti þó þessa stefnu þegar Ólafslögin voru afgreidd. Það var í raun og veru það eina sem Alþb. vildi samþykkja er gat lotið að því að lækka verðbólgu. Að öðru leyti vildi það aðeins kynda og kynda. Og framsóknarmenn hafa tekið undir í þeim efnum og keppast nú við að kynda undir verðbólgu, enda sést árangurinn í því efni. Þeir tóku við stjórn í um 42% verðbólgu, en nú stefnir verðbólgan miklu hærra og hefur reyndar verið miklu hærri í þeirra stjórnartíð. Og guð veit hvað fram undan er í þeim efnum. Þeir vita það ekki sjálfir a.m.k.

Ég minni á að ef okkar frv. verður ekki samþykkt er stjórnarliðið að flytja íbúðareigendum þá kveðju, að það sé allt í lagi að húseignir þeirra fari undir hamarinn. Er það mjög miður að ríkisstj. skuli standa að því og svo góðir drengir sem þar finnast, eins og hæstv. viðskrh., sem ég veit að er samþykkur okkar frv., en fær ekki að styðja það vegna þrýstings annars staðar frá. Ég spyr enn á ný: Hvernig á að lækka vextina í mars? Ef það hefur verið boðað hlýtur það að vera á grundvelli einhverrar vitneskju, einhvers annars en vona. Ég vona og vænti þess, að ráðh. svari því, hvernig á að lækka vextina samhliða því að innlánin eru fyllilega verðtryggð. Þetta er dæmi sem ekki gengur upp. Ég hygg að Seðlabankinn hafi bent á það og okkur leikur forvitni á að vita hverjar hans tillögur voru í þessum efnum.