10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var eiginlega ekki ætlun mín að taka til máls við þessa umræðu, en það mun vera beðið eftir þskj. vegna annars máls sem hér er á dagskrá og þarf að fá afgreiðslu, svo að það tefur ekki tíma deildarinnar þó að ég segi hér örfá orð í tilefni af ýmsu sem kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan, því að hann gaf upp boltann til almennra eldhúsdagsumræðna um efnahagsmát þegar hann sagði að nú hefði verið stigið fyrsta skrefið til niðurtalningar, eftir eitt ár. Ég er honum að mörgu leyti sammála um þetta, en ég held að ég muni það rétt, að í fyrra átti að telja niður verðbólguna, og allir vita að það varð að einu allsherjar upphrópunarmerki um aðgerðaleysi og úrræðaleysi ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég ætla þó ekki að gera þetta að eldhúsdegi og fara að ræða vítt og breitt um efnahagsmát, en í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að atvinnuvegirnir hefðu ekki þolað 10% vaxtahækkun um síðustu áramót, vil ég benda á það, að einmitt það, sem ríkisstj. er að gera þessa daga, er að stíga kannske miklu stærra skref til hávaxtastefnu en hefði gerst bara með venjulegri vaxtahækkun um áramót.

Ég var á fundi með einum af seðlabankastjórunum í morgun. Við spurðum hann hvort í því fælist ekki nokkur mótsögn að fresta gildistöku Ólafslaga að því leyti að ná fullri verðtryggingu og taka jafnframt upp verðtryggingu á sex mánaða bókum. Þessi seðlabankastjóri, sem er greindur maður og líka kómískur gat ekki varist brosi og sagði: „Jú, í þessu felst nú nokkur mótsögn.“ En það er einmitt þetta sem er verið að gera nú. Það er verið að stíga eitthvert stærsta skref til hávaxtastefnu sem stigið hefur verið á Íslandi.

Nú er kannske út af fyrir sig ekki nema gott eitt um það að segja. En á sama tíma er svo strangt verðlagseftirlit að fyrirtæki fá ekki sannanlegan kostnað borinn uppi í útsöluverði á sinni vöru, og svo mikið gengisaðhald, að jafnvel gengisfelling er kölluð leiðrétting á gengi, eins og gerðist í dag, og fiskverð er með þeim hætti, að útgerðin er rekin með bullandi tapi, og okkar undirstöðuatvinnuvegir allir með bullandi tapi. Atvinnuvegirnir verða því náttúrlega að borga gífurlega dráttarvexti vegna síns taprekstrar. Hávaxtastefna við slík skilyrði er hrein uppskrift fyrir atvinnuleysi. Og það er þetta sem hæstv. ríkisstj. er að gera núna. Á þetta vildi ég benda hæstv. ráðh. Ég veit að hann er mér alveg sammála um þetta, en ég vildi gjarnan nota tækifærið til þess að lýsa þessari skoðun minni. Þessi stefnuatriði ríkisstj. lesin saman: hávaxtastefna, svokallað aðhald í gengismálum, sem er ekkert annað en að halda upp fölsku gengi, gífurlegt verðlagseftirlit, sem er ekkert annað en að neita fyrirtækjum um að bera uppi sannanlegan kostnað, þetta er uppskrift fyrir atvinnuleysi.