10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Alþfl.- menn eru nú búnir að tala sig dauða hver um annan þveran, svo að ég held að ég fari nú að ljúka þessu. Það er ekki sanngjarnt að ég messi hér yfir þeim og þeir megi ekki taka til máls nema með örstuttum athugasemdum, þó að þær vilji stundum verða nokkuð langar að vísu.

Varðandi ýmsar spurningar, sem hafa verið lagðar fyrir mig, þá vil ég vísa hv. þm. á að gera fyrirspurnir í þinginu og ég mun þá svara þeim þar.

Varðandi gengismálin, sem nokkuð hefur borið hér á góma, vil ég aðeins segja það, að sú ákvörðun, sem ríkisstj. tók í gengismálum í dag, miðast við að gengi íslensku krónunnar sé óbreytt frá áramótum miðað við meðalgengi þeirra gjaldmiðla sem við skráum hér hjá Seðlabankanum, þannig að frá áramótum hefur íslenska krónan ekki fallið um eitt einasta prósent eða prósentubrot, heldur stendur með sama styrkleika og var um áramótin. En það er ástæða til að benda á það, að núna á síðustu dögum, síðustu tveimur vikum, hefur það gerst, þvert ofan í það sem menn bjuggust við, að Bandaríkjadollar hefur styrkst svo gífurlega að það nemur rétt tæplega 4% á líklega tveimur vikum, sem hefur haft það í för með sér, að íslenska krónan hefur styrkst gagnvart ekki ómerkari gjaldmiðli en t.d. svissneska frankanum um 8–9% og vestur-þýska markinu yfir 8% o.s.frv. Ég veit að hv. þm. skilja það mætavel, að útflutningsiðnaður okkar, sem framleiðir aðallega fyrir Evrópumarkað og fær greitt fyrir sínar vörur í Evrópugjaldeyri, þolir náttúrlega ekki þessa þróun mála. Þegar af þeirri ástæðu var nauðsynlegt að grípa til aðgerða eins og gerðar hafa verið í dag. En ég legg áherslu á það, að þessar aðgerðir eru allar á þann veg að gengi krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðli, sem skráður er hjá Seðlabankanum, þegar meðaltal er tekið, er óbreytt frá áramótum eftir þá breytingu sem ákveðin var í dag.