10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Vissulega væri ástæða til þess, eins og kom fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, 3. þm. Norðurl. e., að fjalla um málefni húsbyggjenda nánar í samhengi við þessi lög, en þar sem ég hef gert þau málefni mjög ítarlega að umræðuefni fyrr í dag og í gær ætla ég í megindráttum að stilla mig um það.

Ég veit að okkur er öllum ljóst að það málefni sem við erum að fást við hér er að ýmsu leyti vandasamt. Það er meginstefna þeirra skattalaga, sem við höfum fyrir okkur, að leyfa ekki vaxtafrádrátt hjá einstaklingum eða af því tagi sem hér um ræðir. Hins vegar virðist öllum hafa verið ljóst frá upphafi, að a.m.k. við ríkjandi ástand væri óhugsandi annað en gera undantekningu frá þessari reglu að því er varðaði húsbyggjendur og íbúðarkaupendur.

Í umfjöllun í nefndinni hefur Alþfl. lagt sérstaka áherslu á þessi atriði, og þær breytingar, sem gerðar hafa verið, eru allar í þá átt að rýmka möguleika húsbyggjenda og íbúðakaupenda til frádráttar af þessu tagi.

Á hinn bóginn er svo sú hlið málsins, að ótakmarkaðar eða lítt takmarkaðar heimildir til vaxtafrádráttar bjóða upp á misnotkun af hálfu þeirra einkanlega sem stunda atvinnurekstur og gætu flutt lán vegna rekstrar yfir á einkaframtal. Hér þarf því að ástunda einhvers konar jafnvægislist, annars vegar takmarkanir til þess að draga úr hættu á misnotkun og hins vegar að koma til móts við húsbyggjendur.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að erfitt sé að sjá fyrir nákvæmlega hvar draga eigi þessa línu. En það er mat okkar Alþfl.-manna, að svo mikið tillit hafi verið tekið til þeirra sjónarmiða sem við höfum talað fyrir, að rétt sé nú að stíga það skref sem gert er ráð fyrir með þeim breytingum sem hér hefur verið mælt fyrir af hálfu meiri hl. nefndarinnar sem ég er aðili að.

Það er megininntak þeirra breytinga, sem felast í þessum tillögum, að rýmka ákvæðin um vaxtafrádrátt. Ég vil að vísu minna á það í þessu sambandi — og kannske ekki síst vegna þeirra ummæla sem hér komu fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni um afturvirkni íþyngjandi skatta — að þær breytingar, sem hér eru gerðar, geta vitaskuld ekki flokkast undir það, vegna þess að ákvæðin, sem eru í lögum og áttu að koma til framkvæmda núna, voru strangari.

Margir hafa sjálfsagt ekki gert sér nægilega grein fyrir, hvernig þessu mundi háttað, og ég tel að sumar þær breytingar, sem hér eru gerðar, hafi einmitt tekið mið af þeim sjónarmiðum. Engu að síður kemur það fram í till. minni hl., að hann vill hafa hámark, sem væri þá líka breyting frá því sem var framkvæmt seinast.

Ég held að óþarft sé að rekja þær breytingar sem gerðar hafa verið í rýmkunarátt öllu frekar en áður hefur verið gert. Þær fjalla um hækkun á hámarksfrádrætti, um endurbætur á íbúðarhúsnæði, að leyfa vaxtafrádrátt þeirra vegna eftir ákveðnum reglum og að stytta þann tíma, sem við er miðað varðandi fasteignaveðlán, að þau geti verið til tveggja ára í stað þriggja og að á árinu 1981, gjaldárinu, skuli hið sama gilda um lán með sjálfskuldarábyrgð og gildir um fasteignaveðtryggð lán. Loks eru tímamörk frá kaupári eða upphafsári byggingar, sem frádráttarhæfni gjalda miðast við, rýmkuð úr tveim árum í þrjú varðandi íbúðakaup, og reyndar látin gilda þá um endurbæturnar líka, og að því er íbúðabyggingar varðar lengdur úr fjórum árum í sex.

Þetta tel ég að stefni verulega til réttrar áttar, þó að náttúrlega verði ekki fullyrt að ekki gæti komið fram eitthvert misrétti. Það mundi reyndar líka eiga við varðandi þá till. sem sjálfstæðismenn gera hér um þetta efni. Menn geta ekki sett algjörlega undir þann leka, að ekki geti komið upp eitthvert óréttlæti þegar breyting af þessu tagi er gerð.

Ég held að okkur ýmsum hafi þótt það heldur ónotalegt við þessi ákvæði, eins og þau voru í lögunum, að þau eru flókin. En hvernig sem menn hafa velt vöngum yfir því, hvar þeir ættu að draga línu jafnvægislistarinnar um það að koma í veg fyrir misnotkun annars vegar og koma til móts við húsbyggjendur hins vegar, þá virðist erfitt að gera þetta mjög einfalt. Og ég tek eftir því líka í till. þeirra sjálfstæðismanna, að þeir telja það fyrirkomulag, sem þeir leggja hér til fyrir næsta ár, ekki eiga að vara lengur en fyrir það ár, heldur eigi síðan að vinna áfram að málunum.

En í þessu sambandi vil ég að lokum leggja áherslu á eitt atriði, sem reyndar kom fram í framsögu formanns nefndarinnar, en kemur líka sérstaklega fram í þeim athugasemdum sem ég geri í nál., nefnilega það, að Alþingi hljóti að verða reiðubúið til að skoða þessi mál nánar, þegar reynsla hefur fengist af framkvæmd þeirra, og taka þá álagningu til endurskoðunar. Það, sem ég á þá sérstaklega við — og ég túlka orð formanns nefndarinnar þannig, er að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir séu tilbúnir til þess að beita sér fyrir því, að ef fram komi sérstakt óréttlæti í þessu sambandi geti sú endurskoðun m.a. falið í sér ívilnandi atriði, ívilnandi afturvirkni gagnvart þeim sem sannanlega hefðu lent illa úti og á hefði bitnað óréttlæti, sem ég ætla þó að vona að verði ekki.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hef tekið þátt í miklu starfi innan nefndarinnar ásamt öðrum nefndarmönnum við að skoða þessi mál og reyna að finna á þeim sem bærilegastan flöt. En að lokum einungis það, að ég held líka að í nefndinni hafi tekist að setja þessi ákvæði fram á heldur skýrari hátt en þau voru orðuð áður, og það er líka einhvers virði.